23.02.1967
Neðri deild: 45. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (1941)

126. mál, launaskattur

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mér virðist ekki einleikið með þann misskilning, sem virðist ráða í hugarheimi hv. 7. landsk. þm., þegar um þetta mál er talað. Í fyrri ræðu sinni gerði hann sig beran að því að hafa gjörsamlega misskilið efni frv., sem hann hélt um mikla fordæmingarræðu, og viðurkenndi hann það nú, og virði ég hann fyrir það. En í ræðu sinni áðan fór hann mörgum orðum um þann ódrengskap, sem hann kvað mig hafa sýnt sér með því að brýna sig um kjarkleysi. Ég hygg, að ég hafi ekki látið eitt einasta orð falla um kjarkleysi eða kjark hv. þm. í þeim orðum, sem ég sagði áðan. Það er af og frá. Hann getur leitað í ræðu minni staf fyrir staf á segulbandinu, og hann mun ekki finna neitt um það þar. Hins vegar talaði ég um, að mér fyndist lítil reisn yfir málflutningi hv. þm. í ræðunni, og við það stend ég, og miklu minni reisn en hann sjálfur hefur stundum látið í veðri vaka, að hann hefði yfir að búa, þegar hann væri að vinna að hagsmunum umbjóðenda sinna í L.Í.Ú. hér á hv. Alþingi. (Gripið fram í.) En nóg um það, hér er um misskilning að ræða.

Hv. 7. landsk. þm. vildi halda því fram, að með því að samþ. þetta frv. væri verið að brjóta það samkomulag, sem gert var í júní 1964 á milli atvinnurekenda og launþegasamtakanna í landinu með vissri milligöngu ríkisstj. Ég vil í því sambandi aðeins minna á, að það samkomulag var gert og gilti til eins árs. Það samkomulag var endurnýjað aftur á árinu 1965 til eins árs. A árinu 1966, eftir því sem ég bezt veit, hefur þetta samkomulag á milli atvinnurekenda og launþega ekki verið endurnýjað.

Ég minnist þess, að forustumenn þess flokks, sem hv. þm. tilheyrir, höfðu uppi um það mörg orð og stór, þegar vinstri stjórnin sat hér að völdum, á árunum 1956—58, hvað það væri óviðeigandi, að aðilar utan þingsalanna ákvæðu ýmis stórmál þjóðfélagsins. Það var hæðzt að þeirri yfirlýsingu ríkisstj., sem þá sat, að hún vildi við stjórnarathafnir hafa samráð og samvinnu við launþegasamtökin í landinu, og þetta var talið dæmi um lítilmennsku og kjarkleysi þeirra, er þá fóru með stjórn þjóðarbúsins. En hvað má þá segja um þann skilning, sem kom fram í ræðu hv. þm. hér áðan, að það væri eitthvað voðalegt, ef Alþingi vildi breyta einhverju, þó að í smáu atriði væri, í samkomulagi, sem gert var 1964 og ekki er í gildi í dag, vegna þess að samningurinn hefur ekki verið endurnýjaður? Ég vil enn fremur benda á það, að jafnvel þó að þetta frv. yrði samþ., hefur ríkisstj. það alveg í hendi sér að bæta þeim aðila, sem verður fyrir tekjumissi við samþykkt frv., þ.e.a.s. húsnæðismálastjórn, það fé upp með greiðslum, sem hún tæki þá eftir eðlilegum skattlagningarleiðum. (Gripið fram í.) Og það er talað um það í grg. hjá okkur. Ég tel, að það hefði verið miklu eðlilegri leið, sem hér er, heldur en það, sem nú er gert af ríkisstj. Ég minnist þess enn fremur í sambandi við júnísamkomulagið 1964, að sjaldan hafa örari verðhækkanir dunið yfir en einmitt skömmu eftir að það samkomulag var gert og frá þeim tíma. Ég man það vel, að af hálfu forustumanna launþegasamtakanna í landinu hafa verið hafðar uppi ítrekaðar yfirlýsingar um, að ríkisstj. hafi með þeim verðhækkunum, sem hún hefur látið viðgangast, enda haft forgöngu um sumar þeirra sjálf, væri hún að brjóta þann grundvöll, sem samkomulagið var byggt á, þannig að ég held, að þeir, sem styðja ríkisstj. og þá væntanlega í því að brjóta þetta grundvallarskilyrði fyrir samkomulaginu, ættu að haga orðum sínum gætilega, þegar þeir eru að tala um, að aðrir séu að rifta samkomulagi, sem hefur verið gert.

Hv. þm. talaði enn fremur um það, að þetta væri mikil sýndartill. hjá okkur, og fór mörgum orðum um það. Sýndartill. var það að hans dómi, vegna þess að það væri enginn grundvöllur til þess að fá hana samþ. Um það skal ég ekki alveg fullyrða enn þá, það á eftir að sýna sig, hvort það er grundvöllur fyrir meirihlutafylgi við frv., en ég verð að segja, að það er einkennilegur hugsunarháttur, sem býr að baki slíkrar yfirlýsingar sem þessarar. Hvað mætti þá segja, ef þetta væri algilt, um það hlutskipti, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa orðið að búa við í hv. Alþingi, síðan núv. ríkisstj. tók við völdum í árslok 1959, þar sem það er staðreynd, að nálega hvert eitt einasta frv., hvert eitt einasta mál nærri því, með örfáum undantekningum, befur verið fellt eða svæft eða einhvern veginn drepið af hæstv. ríkisstj. og því stuðningsliði, sem hún hefur hér í þinginu? Samkvæmt þessum hugsunarhætti mundi sem sagt fyrir fram vera útilokað, að nokkur stjórnarandstæðingur gæti hreyft nokkru máli, því að það væru bara sýndartill., af því að þær mundu ekki komast í gegn. En það er vegna þeirrar áráttu hæstv. ríkisstj. að þora ekki að meta þau mál, sem hér eru flutt, og láta þau gjalda eðlis sins, samþ. þau og leyfa þeim að fara í gegn, ef þau eru góð, sem þau alveg tvímælalaust eru mörg, en fella hin. Í stað þess er öllum málum, sem stjórnarandstaðan flytur, eða svo til öllum komið fyrir í glatkistunni, og það er við samflokksmenn og þá meirihlutamenn, sem hv. þm. er einn af, að sakast um þessa vinnuaðferð í þinginu.

Þá þóttist hv. þm. koma mér í dálítinn bobba, og ég skil það, af því að ég þóttist kannast við, að sárindi væru inni fyrir, með því að skora á mig að gefa yfirlýsingu um það, hvort ég væri reiðubúinn að fylgja honum í því að flytja frv. um bætur í slysatilfellum á sjó. (Gripið fram í.) Og tryggja því framgang. Ég ræð ekki yfir stjórnarliðinu. Ég ræð yfir mínu atkv. einu. Ef hv. þm. vill tryggja stjórnarliðið, höfum við meiri hl. samanlagt, ef ég stend að slíku frv. En um þetta vil ég segja það, að á árinu 1963, þegar þessi lagabreyting var gerð, hygg ég, að engum hafi verið Ijóst, til hverrar niðurstöðu breytingin mundi leiða í slysatilfellum eða veikindatilfellum hjá sjómönnum. Það var fyrst með dómi í hæstarétti á árinu, að ég held, 1964 eða einhvern tíma þar um bil, að það var úrskurðað, að bætur eða kaup í slysatilfellum skyldi miða við aflahlut. Ég minnist þess, að L.Í.Ú. m.a. fékk á sínum tíma að vita um þessa breytingu og stjórnin hreyfði engum athugasemdum þá um það atriði, ekki einni einustu athugasemd mér vitanlega. Ég var í svokallaðri „bátanefnd, sem m.a. fjallaði um þetta atriði, og þar var því yfir lýst alveg ótvírætt af mér ásamt öllum öðrum nm., að þeir væru reiðubúnir að athuga um að breyta þessum ákvæðum í samráði og í samningum við þá, sem þarna eiga hlut að máli, þ.e.a.s. samtök sjómanna. En sú till. hefur ekki náð fram að ganga, því að í því atriði hefur orðið ákaflega lítið úr framkvæmd hæstv. sjútvmrh., eins og raunar um allar aðrar till. n., eins og var rifjað upp mjög skilmerkilega í umr. í gær. Ég vil því bara endurtaka það, sem ég segi í nál., að ég tel eðlilegt, að hæstv. ráðh. nú, þótt seint sé, beiti sér fyrir því, að um þetta atriði verði reynt að semja milli þeirra aðila, sem eiga hlut að máli, og það kom fram fyllilega í n., að menn telja fyrir fram verulegar líkur á því, að um þetta geti orðið samkomulag á einhverjum grundvelli. Ef það sýnir sig, að það er ekki möguleiki á að fá slíkt samkomulag, er ég reiðubúinn til þess að athuga ásamt hv. 7. landsk. þm. að flytja frv. um þetta efni, ef við getum orðið sammála um efnisatriði þess, en að öðrum kosti að sjálfsögðu ekki.