10.03.1967
Neðri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (1983)

144. mál, Fiskimálaráð

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Mér skildist á hv. 4. þm. Reykn., að það hefði að einhverju leyti verið staðið á móti stofnlánum til minni báta. Það var ekki alveg beint, sem hann sagði það, en ég tók það einhvern veginn á þann veg, að það væri ekki sama fyrirgreiðsla, sem þeir nytu og aðrir. En mér þykir rétt að taka fram af þessu tilefni, hvort sem er um misskilning að ræða eða ekki, að það er sama lán fyrir auðvitað öll skip, það er sama hlutfallstala. Það eru 2/3 lánaðir úr fiskveiðasjóði til allra nýbygginga skipa, sem byggð eru erlendis, og 3/4 til skipa, sem byggð eru innanlands.

Út af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, skal ég vera frekar stuttorður, þó að hann gæfi tilefni til að fara allmörgum orðum um það, sem hann kom hér inn á. Ég vil þá koma inn á það, sem hann taldi hættulegt og gaf mér sem eldri maður föðurlega áminningu að vera ekki að hafa jafnmikla vitleysu eftir sérfræðingum eins og ég hefði farið hér með áðan. Það er alveg rétt, að það, sem ég vitnaði til í sambandi við aukningu sóknar á íslenzka þorskstofninn, hef ég frá forstöðumanni Hafrannsóknastofnunarinnar og úr grein, sem birtist í tímaritinu Ægi, og einnig hef ég heyrt hann flytja fyrirlestur, þar sem hann hefur komið inn á þetta sama. Ég vil leiðrétta það hjá hv. þm., að hér var ekki um árin 1960—1964 að ræða, heldur 1954—1964, og þá segir forstöðumaðurinn, að sóknin á íslenzka þorskstofninn hafi aukizt um 87%, en heildarafli minnkað um 22%. Nú hefur hv. þm. gefið hér ýmsar skýringar á þessu og er ekki alveg á sama máli og sérfræðingarnir. Ég ætla nú hvorki að deila við hann um þetta né sérfræðingana, en eitt vil ég þó segja, að ég get alls ekki fallizt á það sjónarmið hv. þm., að eftir því sem skipin stækka, hafi þau ekki möguleika á að stunda veiðar í verri veðrum, möguleika á að afla meira, því að þeim mun sjaldnar þurfa þau að koma að landi. Við skulum þá taka einn flota, sem hv. þm. þekkir mætavel, þó að hann sé farinn að gleyma í seinni tíð venjulegum þorskveiðum, og það er síldveiðiflotinn. Hvernig skyldi útkoman vera á síldveiðunum, ef við værum með sama flota og sömu bátastærð og 1944? Hvað skyldum við þá hafa náð miklum afla? Það er einmitt með stækkandi flota, sem ásóknin eykst á fiskstofninn. Þess vegna er alls ekki rétt hjá hv. þm. að halda slíku fram. Ég skil ekki í jafngreindum manni og hv. 5. þm. Austf. er að halda fram svona vitleysu. Þá vitum við einnig með fiskveíðarnar að vetrinum, að þar hefur orðið líka stórfelld ásókn. Þó að skipunum hafi ekki fjölgað, þá hefur allmikill fjöldi af stærri skipunum stundað netaveiðarnar. Við erum með miklu öflugri veiðarfæri núna en við vorum með fyrir nokkrum árum, að maður fari ekki að segja frá, hvað bátarnir eru yfirleitt komnir með margar trossur og hvað þetta eru orðin góð skip, sem sýna miklu meiri ásókn á fiskstofninn á þessum tíma.

Hitt var það, sem ég kom inn á í minni frumræðu og ég ber mestar áhyggjur út af. Það er það, að smærri bátaflotinn er alltaf að verða minni, og það er ekki fyrir það, að það hafi verið neitt vond ríkisstj. í landinu eða ómögulegir lánasjóðir sjávarútvegsins. Höfuðástæðuna fyrir þessu veít hv. 5. þm. Austf. eins og ég og flestir aðrir, að það, sem hefur skeð, er það, að aflinn á síldveiðunum hefur aukizt svo gífurlega. Það hefur orðið stórfelld verðhækkun á síldarafurðum, miklu meiri verðhækkun en hefur orðið á öðrum fiski. Það hefur gert það að verkum, að fólkið, sem vinnur í þessari atvinnugrein, hefur horfið frá mínni bátunum yfir til stærri bátanna, vegna þess að það hefur borið miklu meira úr býtum. Þetta eru að verulegu leyti óviðráðanlegir hlutir. En það er líka hægt fyrir menn, þegar þeir eru búnir að stunda síldveiðar næstum því allt árið, eins og nú er komið, fjarri heimilum sínum, að fá leiða á því að vera á þessum veiðum og vilja þá heldur vera á veiðum nálægt sínum heimabyggðum og leggja sinn afla þar á land, og ég hef orðið var við marga sjómenn nú í seinni tíð, sem vilja gjarnan fara að hverfa aftur heim til sinna byggðarlaga. Þess vegna þarf að gera allt, sem hugsanlegt er, til þess að treysta atvinnugrundvöll fiskveiðanna, þorskveiðanna og atvinnugrundvöll fiskiðnaðarfyrirtækjanna á þessum stöðum.

Hv. 5. þm. Austf. segir, að þetta frv. geri ekki ráð fyrir því, að þetta fiskimálaráð hafi hér neitt fé úr að spila. Það er alveg rétt hjá honum og tekið fram í frv., að það er til þess ætlazt, að störf við fiskimálaráð séu ólaunuð. Það er ekki heldur ætlað, að þetta fiskimálaráð, þetta heildarráð, hafi mjög mikla starfsemi. Þetta eru menn, sem eru kjörnir fulltrúar af fjölmennum heildarsamtökum, og þessi heildarsamtök verða auðvitað að borga sínum mönnum fyrir að sækja sina hagsmuni í slíku sameiginlegu ráði og því mjög eðlileg stefna, sem hér er tekin upp. Hitt er svo rétt, að hér er gert ráð fyrir því, að fiskimálaráð kjósi þriggja manna framkvæmdanefnd, sem undirbýr fundi ráðsins og annast þau störf, sem fiskimálaráð felur henni. Þessi n. á auðvitað að fá sina greiðslu, því að það segir í 9. gr. frv., að kostnaður af störfum fiskimálaráðs, þar með talin þóknun til framkvæmdanefndar, sem ráðh. ákveður, greiðist úr fiskimálasjóði. Það eru því engin takmörk sett fyrir því eða skömmtuð fyrir fram einhver ákveðin upphæð.

Þá talaði hv. þm. einnig um það, að hér væri í raun og veru ekki um annað en nokkurs konar málfundaklúbb að ræða. En hann byrjaði á því að segja, að hér hefði verið stigið allmerkilegt skref með flutningi þessa frv. og hér hafi verið hreyft mjög þörfu máli. Síðan kallaði hann það málfundaklúbb, að það mundi verða það, og síðan, að þetta mundi vera að verulegu leyti gagnslaust. Það gægðist nú út hjá hv. þm., að gjarnan vildi hann hafa verið sjálfur flm. að þessu frv., en fyrst hann getur ekki verið það, þá auðvitað segir hann, eins og refurinn sagði forðum, þegar hann náði ekki í vinberin, að þau væru súr.

Í sambandi við markaðsmálin gerir frv. ekki ráð fyrir því, að fiskimálaráð sé algerlega valdalaus stofnun. Það segir orðrétt í 5. gr.: „Fiskimálaráð skal hafa forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir sjávarafurðir, svo og um framleiðslu nýrra vörutegunda.“ Getur komið að því, að það verði mikið fé, sem þarf til þessara hluta. En það er engin ástæða til þess í byrjun að ákveða það, hvað skuli vera mikið fjármagn, sem þessi stofnun þurfi yfir að ráða. Fiskimálasjóður á að greiða til þessa ráðs. Ef það verður orðið of mikið, þá koma dagar og þá koma ráð.

Mér finnst alveg ástæðulaust hjá hv. þm. að segja, að Sjálfstfl. sé að snúa við. Við höfum krafizt frelsis í útflutningsverzlun. Ég veit ekki annað en að núna hátt á fjórða áratug hafi útflutningsverzlun verið meira eða minna bundin. Sjálfstfl. hefur alveg eins og aðrir flokkar staðið að því að hafa aðeins örfáa aðila til þess að annast sölu. Við vitum það, að í frysta fiskinum hafa það ekki verið margir aðilar og aðallega tveir. Sama er að segja um saltfiskinn og fleiri greinar sjávarafurða. Við höfum talið það, sjálfstæðismenn, eins og allir aðrir, vera mjög varhugavert að gefa hverjum manni frjálsræði til þess að selja okkar sjávarafurðir og fara út í það, að sömu mennirnir séu að bjóða sömu vöruna á erlendum markaði og gefa erlendum kaupendum þá jafnvel til kynna, að það sé um margfalt meira magn að ræða, sem verið er að selja, en það er í raun og veru. Við höfum ekki snúið frá þessu. Við höfum talið þetta vera skynsamlega leið. Það hafa flestir aðrir flokkar talið þetta einnig skynsamlega leið. Ég veit ekki til þess, að Lúðvík Jósefsson hafi neitt viljað hverfa frá því þau fáu ár, sem hann fór með sjávarútvegsmálin.

Þá segir hann, að Sjálfstfl. hafi alltaf verið á móti framkvæmdaáætlunum. Ég veit ekki til þess, mig kannske misminnir það, en er þessi ríkisstj., sem nú situr og hefur setið frá 1959, ekki eina ríkisstj., sem hefur á hverju ári byggt upp framkvæmdir á vegum ríkisins, sem hafa farið inn á svið sveitarfélaga og fleiri aðila, á framkvæmdaáætlun, sem Efnahagsstofnunin hefur unnið að fyrir hvert ár um sig? Og ég tel það ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að það sé gerð áætlun fram i tímann um framkvæmdir, sem unnið er að, og ég tel það ekki þessari ríkisstj. til lasts, heldur vil ég fagna því og þakka, að hún hefur farið inn á þessar brautir.

Hann minntist nokkuð, hv. 5. þm. Austf., á söluna á frysta fiskinum, eins og til Tékkóslóvakíu og fleiri landa, og það getur vel verið, að það hafi eitthvað komið illa við hann, það sem ég sagði hér áðan. Ég var ekki að segja það í þeirri meiningu að gera neitt lítið úr þeim viðskiptum, sem Ísland hefur átt við Austur-Evrópuríkin. Hann má ekki taka það á þann veg. Ég var þá um leið að gera lítið úr viðskiptum, sem Ísland hefur átt við Bandaríkin, ef hann hefur tekið það svo. Það, sem ég sagði áðan, var það, að ég teldi fráleitt í framtiðinni að ætla að byggja alla sölu á höfuðútflutningsframleiðslu okkar á mörkuðum í Bandaríkjunum og Austur-Evrópulöndunum einum. Og ég hef komið hér með það, hvernig þessi viðskipti hafa dregizt saman. Það hefur orðið stórfelld uppbygging á fiskveiðum hjá nokkrum Austur-Evrópulöndum, og það, sem ég sagði ekki áðan, en get bætt við, er það, að í 5 ára áætlun Sovétríkjanna fyrir árin 1966—1970 er gert ráð fyrir því, að fiskafli þeirra aukist úr 5.8 millj. tonna í 8.5—9 millj. tonna og nýtízku fiskiskipum þeirra fjölgi á sama tíma um 150%. Jafngífurleg aukning og Sovétþjóðirnar gera ráð fyrir hlýtur að verða þess valdandi, að þær þjóðir, sem hafa haft viðskipti við þær í þessum greinum, hljóta að hugsa sig um, hvort það sé ekki kominn tími til að stórauka viðskipti við aðrar þjóðir. Ég er ekki að segja þetta Sovétríkjunum neitt til áfellis, það er hver sjálfum sér næstur, þeir þurfa að skapa sínu fólki viðunandi lífskjör, þeir þurfa að auka framleiðslu sinna þjóða, og það má ekki taka það á þann veg.

Ég hygg, að það hafi ekki verið fleira, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Austf., sem ég tel brýna nauðsyn að taka fram, svo að ég læt máli mínu lokið.