10.10.1966
Sameinað þing: 0. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Rannsókn kjörbréfs

Aldursforseti (KK):

Sem aldursforseti leyfi ég mér að bjóða alla hv. alþm. velkomna til þings og lýsa þeirri von og ósk, sem ég veit, að býr í brjóstum okkar allra, að þetta þing megi verða gifturíkt.

Eftirfarandi bréf hafa borizt:

Fyrst er bréf frá Lúðvík Jósefssyni, 5. þm. Austf., dags. 28. f. m.:

„Þar sem ég get ekki sinnt störfum á Alþingi í byrjun þings vegna veikinda og verð væntanlega staddur erlendis, þá óska ég eftir, að varamaður minn, Ásmundur Sigurðsson, taki sæti mitt á Alþingi í fjarveru minni.“

Þá er bréf frá formanni þingflokks Alþfl., Emil Jónssyni utanrrh.:

„Þar sem Benedikt Gröndal, 5. þm. Vesturl., er nú fulltrúi Íslands á þingi Hinna sameinuðu þjóða og getur því ekki sinnt þingstörfum næstu vikur, leyfi ég mér samkv. beiðni hans að biðja um fjarvistarleyfi fyrir hann og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1, varamaður Alþfl. í Vesturlandskjördæmi, Pétur Pétursson forstjóri, taki sæti á Alþingi í fjarveru hans.“

Loks hafa borizt tvö bréf frá Þorvaldi G. Kristjánssyni framkvæmdastjóra Sjálfstfl.: „Samkvæmt beiðni dómsmrh., Jóhanns Hafsteins, 4. þm. Reykv., sem nú er sjúkur, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að varamaður hans, Geir Hallgrímsson borgarstjóri, taki á meðan sæti hans á Alþingi.

Samkv. beiðni Davíðs Ólafssonar, 6. landsk. þm., sem nú er erlendis í opinberum erindum, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að varamaður hans, Ragnar Jónsson skrifstofustjóri, taki á meðan sæti hans á Alþingi.“

Pétur Pétursson, 1. varaþm. Alþfl. í Vesturl., Geir Hallgrímsson, 1. varaþm. Sjálfstfl. í Reykjavík, og Ragnar Jónsson, 1. varamaður landsk. þm. Sjálfstfl., hafa áður tekið sæti á Alþ. og kjörbréf þeirra verið þá rannsökuð og samþ. Taka þeir því sæti á Alþingi, ef enginn mælir því í gegn.

Kjörbréf Ásmundar Sigurðssonar hefur ekki áður verið rannsakað. Verður því að skipa þm. í kjördeildir, og ef enginn mælir því í gegn, mun ég hafa þann hátt á að lesa upp nöfn þm. í stafrófsröð og biðja skrifstofustjóra að draga miða fyrir hönd þm., um leið og nöfn þeirra eru nefnd. Það er fljótlegra og þægilegri vinnubrögð. Mælir nokkur því í gegn?

Aldursforseti kvaddi sér til aðstoðar sem fundarskrifara þá Ólaf Björnsson, 8. þm. Reykv., og Skúla Guðmundsson, 1. þm. Norðurl. v.

Þessu næst skiptust þingmenn í kjördeildir, og urðu í

1. kjördeild:

AuA, PP, BBen, BP, EÁ, EmJ, GeirG, GunnG, HS, HV, IngJ, IG, JP, JR, MÁM, ÓB, PÞ, SÁ, SÓÓ, SvG.

2. kjördeild:

ÁÞ, BF, BGuðm, RJ, EggÞ, EystJ FS, GíslG, HÁ, HermJ, GeirH, JÞ, ÁS, MB, ÓlJ, RA, SB, SkG, SvJ, ÞÞ.

3. kjördeild:

AG, AJ, ÁB, BFB, BJ, EðS, EOI, GilsG, GuðlG, GÞG, HB, JÁ, JSk, KK, MJ, ÓL, PS, SI, SE, ÞK.