28.11.1966
Efri deild: 19. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (2079)

70. mál, rafvæðing Vestur-Skaftafellssýslu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, að það frv., sem hér er um að ræða, var flutt á síðasta þingi og var þá vísað til n. Áður hafði verið flutt þáltill. í Sþ. af Ragnari Jónssyni o.fl., þar sem lagt var til, að Alþ. skoraði á ríkisstj. að láta rannsaka til fullnustu, hvernig hagkvæmast mundi vera að leysa raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga, þeirra sem búa austan Mýrdalssands, og vinna að framgangi þess máls svo fljótt sem auðið er. Till. þessi var samþ. óbreytt með 38 shlj. atkv. Vilji Alþ. liggur þess vegna fyrir um það að rannsaka ýtarlega, á hvern hátt heppilegast er að leysa þetta mál. Og ég býst við, að vilji Alþ. liggi einnig fyrir um það, að Skaftfellingar megi fá sem fyrst rafmagn eins og aðrir landsmenn. En vegna þess að það eru rúmlega 2 km milli bæja til jafnaðar í þessum hluta Vestur-Skaftafellssýslu, er eðlilegt, að Alþ. vilji, að það sé athugað, hvort mögulegt er að leysa þessi mál á ódýrari hátt en lagt er til með þessu frv. Hv. flm. sagði hér áður, að það lægi ljóst fyrir, að þetta væri heppilegasta leiðin. Um það ætla ég ekkert að deila. Ég fullyrði ekkert um það. Það má vel vera, að það reynist svo, þegar athugun er lokið. En vilji Alþ. liggur fyrir um það, að þetta verði rannsakað, og þess vegna á að gera það, og í júnímánuði skipaði ég nefnd tæknimenntaðra manna til þess að hafa þessa rannsókn með höndum. Og ég hef spurzt fyrir um það, hvað líði þessari rannsókn, og hef fengið svar við því frá raforkumálastjóra, en hann er formaður þessarar n. Í bréfi raforkumálastjóra, dags. 25. þ. m., er frá þessu greint, og vil ég leyfa mér að lesa bréf raforkumálastjóra, með leyfi hæstv. forseta, en hann segir:

„Með bréfi rn., dags. 3. júní 1966, var mér send þál., sem samþ. var á Alþ. hinn 5. maí s.l., um rannsókn varðandi lausn á raforkuþörf Vestur-Skaftafellssýslu austan Mýrdalssands, jafnframt því sem rn. fól eftirtöldum aðilum að framkvæma þessa rannsókn: Jakob Gíslasyni raforkumálastjóra, Valgarð Thoroddsen rafmagnsveitustjóra ríkisins, Eiríki Briem framkvæmdastjóra Landsvirkjunar. 13. sept. s.l. hélt n. ásamt Páli Hafstað fulltrúa raforkumálastjóra viðræðufund að Kirkjubæjarklaustri með oddvitum og hreppstjórum hinna 5 hreppa Vestur-Skaftafellssýslu austan Mýrdalssands. Nm. gerðu þar lauslega grein fyrir því, á hvern hátt til greina komi að leysa raforkumál þessara byggðarlaga, og töldu, að 4 kostir kæmu til athugunar: a) Línulögn frá Vík í Mýrdal og dreifilínur í sveitirnar. b) Virkjun í héraðinu með dreifilínum. c) Mótorrafstöð í héraðinu, ein eða fleiri, með dreifilinum. d) Einkarafstöðvar á bæjunum. N. sendi síðar í mánuðinum tvo menn austur til nánari athugunar á einstökum þáttum þessa máls. N. gerir ráð fyrir að geta skilað áliti til ráðh. um málið síðar á þessum vetri.“

Nú getur vel verið, að það væri ástæða til að segja eitthvað á þá leið: Hvernig stendur á því, að þessari athugun og rannsókn er ekki lokið? Ég vil ekkert fullyrða um, hvort það væri út af fyrir sig sanngjarnt að segja það, að henni ætti að vera lokið. Ég vil ekkert fullyrða um það. En samkv. þessu bréfi og samkv. viðtali, sem ég hef átt við formann n., er henni ekki lokið og verður, eftir því sem raforkumálastjóri sagði, tæplega fyrir áramót, — tæplega, sagði hann. En það er ýmislegt, sem þessir ágætu menn vilja athuga, og þeir telja, að það sé ekki alveg öruggt, að heppilegasta leiðin sé eins og mörkuð er með frv., sem hér liggur fyrir. En það kemur vitanlega í ljós.

Það er rétt, sem hv. flm. sagði hér áðan, að byggðirnar í Skaftafellssýslu austan sands eru blómlegar og vel gerðar til búsetu hvað landkosti snertir. Ræktunarmöguleikar eru þar miklir, og það má vænta þess, að þessar sveitir eigi góða framtíð fyrir sér, og við það má bæta, að þarna hefur búið lengst af harðgert og duglegt fólk og framtakssamt. Skaftfellingar voru á undan öðrum að raflýsa hjá sér með vatnsafli og taka rafmagnið í sína þjónustu. Og það eru 70 einkarafstöðvar í notkun í Vestur-Skaftafellssýslu, en mig minnir 115 notendur. En það er vitanlega rétt, að þessar stöðvar eru flestar orðnar gamlar, og þær eru sennilega einnig of litlar miðað við raforkunotkunina, eins og hún er nú víðast hvar. Þess vegna vilja bændurnir fá það, sem þeir kalla varanlegt rafmagn, frá samveitum, enda þótt þeir hafi þessar stöðvar. Þetta er allt saman rétt, og það er alveg rétt, sem hefur verið sagt, að Skaftfellingar eiga að fá rafmagn. En eins og vitað er, hefur Alþ. lýst vilja sínum. Það vill fá rannsókn í þessu máli, og ég er hræddur um, hvað sem ofan á verður, enda þótt það reyndist heppilegast að leggja línu um Mýrdalssand, sem ég ætla ekkert að fullyrða um nú, þá verði það krafa ríkisvaldsins og fjárveitingavaldsins, að það liggi fyrir, hvað er heppilegast að gera í þessu efni og hvað er ógert, og ekki sízt vegna þess, að vegalengdin á milli bæja er talsvert lengri en nú er leyft að leggja með þeim reglum, sem gilda. Við erum nú að leggja raflínur, þar sem vegalengdin er 1—1 1/2 km á milli bæja. En rafvæðingin gengur nú allsæmilega, og raforkumálastjóri tjáði fjvn., er mér sagt, fyrir nokkrum dögum, að allir Íslendingar mundu fá rafmagn 1970. Þeim, sem eru rafmagnslausir í dag, finnst kannske langt að bíða þangað til. En það var fyrir nokkrum árum, sem landsfundur sjálfstæðismanna samþykkti að beita sér fyrir því, að allir landsmenn fengju rafmagn ekki siðar en 1970. Og að áliti raforkumálastjóra mundi þessi áætlun standast. Það er vissulega gleðiefni og mjög ánægjulegt, að það skuli ekki þurfa að dragast lengur, og erum við Íslendingar þá á undan öðrum þjóðum, þótt þéttbýlli séu og að sumu leyti betri ástæður hjá þeim en okkur. En aðalatriðið er nú það, að það er skipulega að þessum málum unnið og það sér fyrir endann á því, að náð verði þessu marki, sem keppt er að.

Samkv. því bréfi, sem ég hef hér frá raforkumálastjóra, verður þessari rannsókn lókið á þessum vetri, kannske fyrir áramót, og þá liggur fyrir, með hverjum hætti heppilegast er að láta Vestur-Skaftfellinga fá rafmagn. Og það er unnið að athugun víðar um landið en í Vestur-Skaftafellssýslu, með hverjum hætti heppilegast er að láta þá fá rafmagn, sem hafa erfiðasta aðstöðu vegna strjálbýlis. Og þessar athuganir eru komnar vel á veg undir forustu raforkumálastjóra.

Hv. flm. fullyrðir, að virkjun heima í héraði fyrir austan Sand komi ekki til greina, m.a. vegna þess, að stefnan hafi verið mörkuð með landsvirkjunarlögunum, að nota aðeins stórvirkjanir. Það má nú segja, að þetta sé bæði rétt og rangt. Vitanlega, ef aðstaðan er alveg sérstök og staðhættir þannig, geta smærri virkjanir komið til greina. Ég er ekkert að fullyrða, að það geti komið til greina í Vestur-Skaftafellssýslu, að það borgaði sig betur að virkja þar til þess að losna við línulengdina yfir Mýrdalssand. En vitanlega gæti það komið til greina þrátt fyrir landsvirkjunarl., og það er reikningsdæmi, sem þessir fróðu menn munu reikna til enda í sínum samanburði á þessu máli.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, sem gerzt hefur í málinu, að þál. var samþ. hér á síðasta þingi, rétt fyrir þinglokin með shlj. atkv. og vilji Alþ. liggur fyrir, að þetta mál verði vandlega rannsakað, og ég leyfi mér að fullyrða, að vilji Alþ. liggur fyrir um það, að Skaftfellingar fái rafmagn svo fljótt sem verða má.