14.02.1967
Efri deild: 38. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (2099)

117. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Það er gömul þekking, að tóbaksreykingar geta valdið heilsutjóni. Þannig hefur það lengi verið vitað, að reykingar eru óhollar lungum og öndunarfærum yfirleitt, sem þær erta og skadda smám saman. Það hefur einnig lengi verið skoðun fræðimanna, að tóbakseitrið hefði skaðleg áhrif á æðakerfið í líkamanum. Hitt er miklu nýrri þekking, að orsakasamband sé á milli tóbaksreykinga og krabbameins. Það eru ekki ýkjamörg ár síðan menn uppgötvuðu einkennilegt samband á milli útbreiðslu reykinga og þá sérstaklega vindlingareykinga annars vegar og krabbameins í lungum hins vegar. Þetta hefur síðan verið athugað af mikilli kostgæfni í menningarlöndunum, bæði austan hafs og vestan, og allar líkur virðast styðja það, að tóbaksreykingarnar eigi a.m.k. verulegan þátt í myndun lungnakrabba.

Það var eðlilegt, að mönnum brygði í brún, þegar þetta varð kunnugt, og það er jafneðlilegt, að læknar og aðrir heilsufrömuðir færu á stúfana með baráttu á hendur tóbaksnotkun. Slík barátta hefur nú verið háð í allmörg ár í hinum menntaða heimi, og hún hefur einnig náð til okkar hér. Það eru sérstaklega nokkrir menn í íslenzkri læknastétt, sem hafa gengið fram fyrir skjöldu og varað við hættunni, bent á hana og hvatt til öflugrar baráttu gegn reykingunum. Það er eðlilegt, að hér eins og annars staðar hafi fallið í verkahring krabbameinsvarnafélaganna að standa í broddi fylkingar í þessari baráttu. Í fyrstu virtist svo sem árangur af þessari baráttu yrði verulegur. Seinna var aftur á móti svo sem úr honum drægi, af hvaða ástæðu sem það er. En staðreynd er, að eftir að baráttan gegn tóbaksreykingum hófst fyrir alvöru, hófst einnig önnur barátta. Það var varnarbarátta tóbaksframleiðenda og tóbaksseljenda, og þeir hafa síðan ekki látið sitja við vörnina eina, heldur hafa þeir einnig hafið hatramma sóknarbaráttu fyrir aukinni tóbaksnotkun, fyrir auknum reykingum. Þetta höfum við Íslendingar orðið greinilega varir við hin síðari ár. Það var alls ekki mikið um það hér fyrr á árum, að miklu fé væri varið til tóbaksauglýsinga, en þessar auglýsingar hafa á síðari árum einmitt aukizt og margfaldazt. Áreiðanlega er það mótleikur gegn baráttunni við tóbakið.

Helzta og skæðasta vopn tóbaksframleiðenda er auglýsingin, og það er og sýnir sig að vera vopn, sem bítur vel. Mér er kunnugt um, að þeir menn, sem fremst standa hér og víða erlendis í baráttunni gegn krabbameini, baráttunni gegn reykingum, hafa miklar áhyggjur af tóbaksauglýsingunum, miklar áhyggjur af hinum auknu tóbaksauglýsingum, því að þeir gera sér grein fyrir, hversu biturt vopn þetta er. T.d. skal ég aðeins geta ummæla, sem birtust í norsku tímariti og síðan voru prentuð í málgagni Krabbameinsfélags Íslands, Fréttabréfi um heilbrigðismál, en þau ummæli hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Það er gersamlega tilgangslaust að vænta nokkurs verulegs árangurs af baráttunni gegn tóbaksnautninni, meðan auglýsingarnar leika lausum hala. Þær brjóta jafnt og þétt niður það, sem hin jákvæðu öfl reyna af framsýni sinni og þrautseigju að byggja upp.“

Þetta er þá skoðun þeirra, sem fremst standa í baráttu gegn tóbaksreykingum og þar með i varnarbaráttunni gegn krabbameininu.

Það hefur orðið hér á landi sú þróun sem víða annars staðar, að lungnakrabbi eykst með ári hverju hin síðari árin. Ég hef ekki tiltækar tölur um þetta nú, en það er óhætt að segja, að hann hafi aukizt um helming á síðustu 10—15 árum, og fróður maður í læknastétt, lungnaskurðlæknirinn Hjalti Þórarinsson, getur þess til og styðst þar víð reynslu síðustu ára, að eftir svo sem 4—5 ár hér frá muni um 100 Íslendingar sýkjast árlega af lungnakrabba. Nú er því engan veginn haldið fram, — það er rétt að geta þess, — að lungnakrabbi geti ekki orsakazt af öðru en reykingum, en það sýnir sig, að hann er langtum tíðari í hópi reykingamanna heldur en í hópi þeirra manna, sem ekki reykja. Munurinn nemur hvorki meira né minna en því, að lungnakrabbi er 10—15 sinnum tíðari hjá reykingamönnum heldur en hjá þeim mönnum, sem reykja ekki. Þetta ætti að vera nægileg hugvekja fyrir okkur alþm., þegar um er að ræða frv. til l. um bann við tóbaksauglýsingum.

Á hvora vogarskálina viljum við leggja okkar lóð? Viljum við styðja tóbaksframleiðendur með því að hafna tilmælum um auglýsingabannið? Eða viljum við styðja þá góðu menn, sem berjast gegn tóbaksnotkun, sérstaklega auglýsingum, og þá fyrst og fremst á meðal æskulýðsins?

Það eru ekki nema tvö ár síðan hæstv. núv. fjmrh. flutti frv. hér á þingi sama efnis og þetta. Frv. gekk greiðlega í gegnum Ed., ég held, að þar hafi menn verið á einu máli um framgang frv., en í Nd. var því tekið með einhverri tregðu, sem leiddi til þess, að það náði ekki fram að ganga þar. Nú þykir mér rétt að reyna á þetta enn, enda veit ég, að baráttumennirnir gegn útbreiðslu krabbameins og gegn tóbaksreykingum ætlast til þess, að málið verði tekið hér upp aftur og það komi greinilega í ljós, hver vilji Alþ. er í þessu efni.

Ég vil með því að leggja fram þetta frv. sérstaklega fá svar við þeirri spurningu minni, hvort Alþ. ætlar að hallast á sveif með tóbaksframleiðendunum eða með hinum, sem vara við og berjast gegn þessari skaðsemi. Þó að ég sjálfur sé gamall reykingamaður, virði ég þó og ekki síður fyrir það framtak og dugnað þeirra manna, sem berjast gegn tóbaksnotkun. Þeirri baráttu er fyrst og fremst beint gegn æskulýðnum og unga fólkinu, því að það er vitað, að það er langhættulegast þeim, sem byrja að reykja ungir. Ef vindlingareykingar geta valdið krabbameini í lungum, tekur það í öllu falli langan tíma. Menn telja það 15 eða 20 eða jafnvel 25 ár, og því yngri sem menn byrja á reykingum, því hættara verður þeim við að fá krabbamein í lungu á síðari árum. Þess vegna er það mjög mikilsvert að beina athyglinni sérstaklega að æskufólkinu í þessu efni.

Ég skal ekki hafa ræðu mína lengri, tel það mjög óþarft, en vænti þess, að þetta málefni fái jafngóðar undirtektir hér í hv. Ed. og fyrir tveimur árum, og ég vænti þess, að það fái miklu betri undirtektir í hv. Nd. en það fékk þá.

Herra forseti. Ég legg til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn. og 2. umr. Fjmrh.