08.03.1967
Sameinað þing: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2135)

59. mál, öryrkjaheimili og endurhæfingastöðvar

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft till. til þál. á þskj. 65 um öryrkjaheimili og endurhæfingarstöðvar til meðferðar. N. hefur fengið umsagnir frá landlækni og Öryrkjabandalaginu, og í umsögn landlæknis kemur fram, að hann telur æskilegt, að þetta mál verði kannað, en í umsögn Öryrkjabandalagsins er lögð rík áherzla á, að till. verði samþ.

Ekkert heildarskipulag er um þessi mál hér hjá okkur, og eru þau þó víðtæk og skipta verulegu máli fyrir stóran hluta þjóðarinnar. Endurþjálfun hefur vissulega verið stunduð hér, en öll endurhæfingarstarfsemi er kostnaðarsöm og því mikil nauðsyn á að samræma löggjöf hér um og gera það líklegra, að á grundvelli þess megi ná enn frekari árangri í því að koma til hjálpar þeim, sem af sjúkleika eða slysum þurfa þess með Það er vissulega þýðingarmikið þjóðfélagslegt atriði.

Eins og fram kemur í áliti n. á þskj. 287, mælir n. einróma með því, að till. verði samþykkt.