17.04.1967
Sameinað þing: 31. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2201)

177. mál, ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Íslandi

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það eru sjálfsagt allir sammála um það, að ellefu hundruð ára byggðar á Íslandi skuli minnzt með veglegum og eftirminnilegum hætti, og það er ekki efi á því, að það getur haft þýðingu að ýmsu leyti og orðið til vakningar, eins og hæstv. forsrh. drap á hér áðan. En þó að það séu allir sammála um, að þessa merka atburðar skuli minnzt og það á veglegan og myndarlegan hátt, geta auðvitað skoðanir orðið mjög skiptar um það, með hverjum hætti það skuli gert, og ég býst við, að það geti sitt sýnzt hverjum í því efni. Sumir leggja kannske mest upp úr því, að þá sé sýnt, hvað þjóð okkar hefur afrekað á undangengnum öldum með einhverjum hætti, hvort sem það er í bókmenntum, listum eða á öðru sviði. Aðrir aftur á móti telja e.t.v. eðlilegra, að þessa áfanga sé minnzt með því að reisa myndarleg hús eða myndarleg mannvirki, byggingar, sem þjóðin þarf á að halda og lengi er ætlað að standa. N., sem kjörin hefur verið til að gera till. um þetta efni, hefur skilað áliti, og má taka undir það með hæstv. forsrh., að n. hefur unnið rösklega að þessu máli, og ekki er því að neita, að í nál. hennar eru settar fram nokkrar hugmyndir um það, hvernig þessa afmælis skuli minnzt. Sjálfsagt gæti ýmsum virzt, að ýmislegt fleira gæti til greina komið heldur en í þessu nál. segir. En ég tek undir það með hæstv. forsrh., að ýmsar þær hugmyndir, sem koma fram hjá n., eru mjög athyglisverðar og sumar þannig, að fljótt á litið virðist manni þær vera mjög eðlilegar, eins og t.d. að gefa út sýnishorn íslenzkra bókmennta og sögusýningar og því um líkt.

Um önnur atriði eða aðrar till. og hugmyndir, sem þarna koma fram, er það hins vegar svo, að þær sýnast þurfa nokkru rækilegri athugunar við, eins og t.d. hugmyndin um byggingu þjóðarhúss eða þjóðhýsis á Þingvöllum, sem er sjálfsagt mjög athyglisverð hugmynd á margan hátt og að ýmsu leyti skemmtilegt til þess að hugsa, ef við gætum og ættum eftir að eignast þvílíkt þjóðhýsi. En það er samt mál, sem mér virðist þurfa að athuga mjög gaumgæfilega og þ. á m. þá um hugsanlega notkun þess húss. Þess vegna fellst ég alveg á þá stefnu, sem kemur fram í þessari þáltill., að fela þeirri n., sem að þessum málum hefur unnið, að athuga þessi málefni betur og gera þá sérstaklega grein fyrir hugmyndum sínum varðandi t.d. þetta þjóðarhús á Þingvöllum og kostnað í því sambandi. Það er í raun og veru erfitt að taka afstöðu til þvílíkrar hugmyndar nema vita nánar um það, bæði kostnaðarhlið og til hvers á að nota það hús. Þess vegna er ég alveg sammála því, að þetta sé athugað nánar, svo sem í þáltill. segir.

En ekki stóð ég nú aðeins upp til að segja þetta, heldur hitt, að þegar talað er um byggingu slíks þjóðarhúss á Þingvöllum, minnumst við þess, sem við reyndar minnumst daglega hér, að það vantar ýmis hús á þessu landi og það er þörf margra bygginga yfir opinberar stofnanir og það meira að segja æðstu stofnanir þessa lands, því að enginn mun neita því, að Alþingi og stjórnarráð búi við mjög ófullnægjandi húsakost. Húsnæðisvandræði Alþingis þarf ég ekki að rekja fyrir hv. alþm., þeim eru þau öll kunn, en að því er vilkið í þessu nál., eins og þar segir: „Að lokum vill n, leggja áherzlu á nauðsyn þess, að reist verði tiltekin þjóðhýsi, þ.e. nýtt alþingishús og stjórnarráðshús. Vill n. í því sambandi vísa til fyrrnefndrar ræðu hæstv. forsrh.“ En þegar hæstv. forsrh. gerði grein fyrir þáltill. um skipun þessarar n. á sínum tíma„ mun hann einmitt hafa víkið að því, að ef til vill gæti komið til greina að minnast þessa sögulega áfanga með því að byggja nýtt alþingishús. N. tekur ekki afstöðu til þess máls, en hún gerir ráð fyrir því, að því er virðist, að hugsanlega geti allt þetta farið saman, og að sjálfsögðu getum við gert sitt hvað, jafnvel þótt ekki sé lengri tími til stefnu en til 1974. En þó virðist nokkuð mikið færzt í fang að gera ráð fyrir því, að öll þessi stórhýsi séu höfð í takinu samtímis.

Ég held einmitt, að það sé kominn tími til þess, og þessi till., sem hér kemur fram, minni á það, að það er kominn tími til að gera sér grein fyrir því, hvort ekki á að taka þá eitthvað af þessum byggingum, sem þörf er á, fram fyrir og fara að vinna markvisst, eins og það oft er orðað, að byggingu einhverra þeirra, en láta ekki sitja við að tala um þær allar í einni og sömu andrá. Ég fyrir mitt leyti vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun minni, að ég er eindregið þeirrar skoðunar, að það eigi að byggja nýtt alþingishús. Og ég álít, að það megi ekki dragast öllu lengur að taka ákvörðun, að Alþingi geti ekki ekið því máli á undan sér án þess að taka hreinlega afstöðu til þess, hvort það á að byggja nýtt alþingishús eða ekki. Það er talað um það, að menn séu ekki á eitt sáttir um staðarval. Hvenær verða þeir 60 menn, sem hér sitja, alveg á eitt sáttir um það, hvar slíkt hús á að vera staðsett? Þeir eru það ekki í dag. Það er engin trygging fyrir, að þeir verði það á morgun né að ári eða að tveimur árum. Auðvitað verður í máli sem þessu að taka ákvörðun og meiri hlutinn verður að ráða því, hvar slíkt hús yrði byggt. Það er út af fyrir sig ekki erfiðara að gera það innan tiltölulega skamms tíma og eftir að gögn hafa verið lögð fyrir þm. en eftir kannske 2—3 ár. Ef ætti að minnast þessa sögulega áfanga, Íslandsbyggðarinnar, með byggingu alþingishúsa, held ég, að það hljóti að vera nauðsynlegt að fara að taka nú þegar ákvörðun um það efni, því að ég held, að undirbúningur að byggingu slíks húss hljóti að taka það langan tíma, að það sé ekki vanþörf á því að fara að ákveða nú staðinn og gera sér grein því, hvernig á að standa að þessu máli, ef það ætti að hugsa til þess, að slíkt hús væri að fullu reist og tekið til nota í tilefni af þessum áfanga.

En ég skal ekki fara að eyða tíma þm. í það að tala langt mál um þörfina á nýju alþingishúsi, því að það vita allir, sem hér sitja, og sjá, að sú aðbúð, sem þm. hér er ætluð, er á engan hátt viðunandi né sambærileg við það, sem tíðkast. Og ef við ætlum okkur að byggja að tiltölu jafnglæsilegt hús, — þó að við settum nú ekki markið hærra, —jafnglæsilegt hús, miðað við aðstæður nú, eins og þetta hús hefur verið á sinni tíð, verður talsverður aðstöðumunur fyrir alþm. Ég lít svo á, að sú bráðabirgðalausn, sem fengizt hefur varðandi aðbúð þm. með þeirri annexíu, sem hér er úti í Þórshamri, sé að vísu góðra gjalda verð, en á engan hátt til frambúðar, og þetta hljóta allir að játa. Ég vildi einmitt vekja athygli á þessu í sambandi við þetta mál, bæði af því, að mér sýnist alveg nauðsynlegt að fara að vinna að þessu máli, byggingu alþingishúss, strax, ef það ætti að vera svo, að það ætti að vera komið upp og í not 1974, og í annan stað einmitt, að mér finnst, að áður en haldið er áfram lengi að vinna að þessu máli í máske aðra átt, eins og t.d. með því að undirbúa og vinna að hugsanlegri byggingu þjóðhýsis á Þingvöllum, þurfi einmitt að átta sig á þessu, hvort það er ekki réttara að stefna að byggingu alþingishúss. Það má vel vera, að þetta megi hvort tveggja framkvæma, og þá er það gleðilegt. En ég gæti búizt við því, að það yrði fullmikið færzt í fang að hafa þessi verkefni undir í einu, og á þessu stigi finnst mér, að það verði a.m.k. áður en verulegur tími líður að taka ákvörðun í þessum þinghúsbyggingarmálum.

Ég veit ekki betur en hér hafi fyrir alllöngu verið kjörin eða tilnefnd n. til þess að fjalla um þessi þinghúsbyggingarmál, og þáltill. hafa verið fluttar um þessi mál, og nokkrum sinnum hefur verið talað um þessi mál, bæði af þm. og af hæstv. forsrh. og ég held öðrum ráðh., en það hefur ekkert gerzt í þessum málum, og mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið lögð fyrir þm. nein skýrsla um gerðir þessarar n. Hvað hefur verið unnið að athugun á staðarvali? Hafa verið undirbúnar einhverjar teikningar eða því um líkt? Hafa einhverjir menn sérstaklega kynnt sér þvílíkar byggingar af nýjustu gerð erlendis o.s.frv.? Mér er ekki kunnugt um það, að þingheimi hafi verið gefin nein skýrsla um þessi efni, og ég veit ekki, hvort það hefur farið fram nokkur athugun í þessum efnum, en ef það hefur ekki farið fram nein athugun í þessum efnum, og það ætti að hugsa til þess að hafa komið upp nýju þinghúsi 1974, er sannarlega tími til kominn að fara að hefjast handa.

Eins og ég sagði í upphafi, get ég alveg fallizt á þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, vil aðeins nota tækifærið, sem gefst í sambandi við hana, til þess að minna á þetta mál, og mér finnst, að við getum ekki haldið þessum málum og athugunum áfram lengi, án þess að taka ákvörðun um þessi efni, enda kemur það reyndar fram að nokkru leyti í þessu áliti n., að hún gerir, eins og ég minntist á áðan, ráð fyrir því, að það verði byggð þvílík þjóðhýsi eins og alþingishús og stjórnarráðshús, en segir með réttu, að ákvörðun um slíkt sé ekki í hennar höndum, heldur verði Alþingi og hlutaðeigandi stjórnarvöld að taka þar ákvörðun um. þannig að n., sem að þessari athugun hefur unnið, er það út af fyrir sig ljóst, að það þarf að taka ákvörðun um þessi efni. Og mér sýnist, að það sé nauðsynlegt, að það sé gert sem fyrst, og ég dreg satt að segja í efa, að ellefu hundruð ára byggðar á Íslandi yrði minnzt með öðrum og glæsilegri og eftirminnilegri hætti en þeim, að byggja myndarlegt og glæsilegt og þjóðlegt alþingishús, sem hæfði hinu nýja lýðveldi, því að það er þó einu sinni svo, að það er Alþingi, sem er elzta og merkasta stofnun þessa lands; og það hæfir ekki í því landi, sem telur sig eiga eitt elzta þing veraldar, að það sé einatakur kotungsbragur á allri aðbúð þeirrar virðulegu samkomu.