06.12.1966
Efri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. vék nokkrum orðum að minni brtt. Mér fannst hann vilja gera nokkurn samanburð á gagnsemi brtt. okkar og fannst sinn fugl fagur. Að gefnu þessu tilefni vil ég rétt aðeins víkja að till. hans, sem ég gerði ekki í ræðu minni áðan.

Ég vil taka það fram, að ég er andvígur því, sem er aðalefni till. hv. 4. þm. Austf., að það eigi að ákveða í l., hvenær skuli vera búið að reisa sendistöðvarnar. Ég er fullkomlega sammála hæstv. menntmrh. um, að það komi ekki til greina að hafa þau vinnubrögð í þessu máli. Hv. 4. þm. Austf. hafði tilhneigingu til þess að gera lítið úr minni till. og sagði, að það væri ekki mikið að fá heimild til þess að taka 100 millj. til þess að koma upp sendistöðvum sjónvarps, ef sú heimild yrði kannske notuð á næstu 10–15 árum. Það var algerlega ástæðulaust af þessum hv. þm. að viðhafa þessi orð. Ég hygg, að það hafi komið skýrt fram í mínum málflutningi, að það var ekki þetta, sem ég hafði í huga. Ég hef alltaf talað um þetta mál á þeim grundvelli, að við gerðum tilraun til þess að halda okkur við 5 ára áætlunina, sem sjónvarpsnefndin var með, og sjálfur átti ég sæti í sjónvarpsnefndinni. Ég tel, að það hafi verið nokkuð djarft teflt, en ég tel, að það sé svo mikið í húfi, að við eigum að leitast við að framkvæma þetta verk samkv. þeirri áætlun og vera viðbúnir að gera það, sem þarf, hvað sem það kostar. Og ef það tekst, leyfi ég mér að halda því fram, að við setjum heimsmet í hraða á slíkum framkvæmdum, miðað við það, sem gerist við hliðstæðar aðstæður annars staðar. Ég biðst því ekkert afsökunar á því, þó að ég miði minn málflutning við það og mína tillögugerð, að þetta megi takast. Ég hef ekki heldur sagt, að ég væri á móti því að gera þetta á skemmri tíma, ef það er hægt, og það kom líka fram í ræðu minni óbeint.

Hv. 4. þm. Austf. stendur að till., þar sem gert er ráð fyrir, að verkinu sé lokið 1969, þ.e. einu ári skemur en 5 ára áætlunin gerði ráð fyrir. Eftir því sem við framkvæmum verkið á skemmri tíma, þurfum við hærri lánsfjárhæð. Ég hef sannfæringu fyrir því, að við þurfum meira en 50 millj. kr. að láni, ef við ætlum að ljúka þessu árið 1969. Við getum að vísu lokið meginhlutanum, en það eru þó ágæt byggðarlög, sem yrðu eftir, og þau yrðu ekki eftir af tilviljun, vegna þess að það verður að byrja á öðrum endanum og enda á hinum, þannig að það er ekki val nema að vissu leyti þarna. Ég tel, að ef það ætti að framkvæma till. þessa hv. þm., gætum við staðið fyrir því vandamáli, að fjármagn skorti fyrir sendistöðvum fyrir þessi byggðarlög, sem eru Vopnafjörður, Seyðisfjörður, mikill hluti Suður-Múlasýslu og Hornafjörður. Mér finnst engin ástæða til þess að hafa lánin svo knöpp, að þetta geti komið fyrir. Það má segja kannske, að það skaði ekki, það sé alltaf hægt að breyta þessu. En það er sama, ég sé enga ástæðu til þess að leggja málið þannig upp. Og mér finnst, að það megi gjarnan ganga það sama yfir fólkið í þessum landshlutum eystra og öðrum. Mín till. miðar við það, að dreifing sjónvarpsins um allt land sé framkvæmd eins fljótt og hægt er og þess sé gætt, að við getum fengið lánsfé eins og þarf til þess að halda eðlilegum hraða á verkinu.

Hæstv. menntmrh. beindi þeim tilmælum til mín, að ég tæki brtt. mína aftur til 3. umr., og ég er að sjálfsögðu fús til að gera það og verð þess vegna við þeirri ósk.