18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (2230)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Loks kom fyrir þingið hin síðbúna, langþráða till. til þál. um endurskoðun vegáætlunar fyrir árin 1967 og 1968. Menn höfðu gert sér vonir um, að í henni mundu felast auknar vegagerðir og úrbætur, þar sem brýnust þörf kallar eftir: En lítið er um þess háttar. Þetta er um flest endurprentun eldri áætlunarinnar, að því er snertir vegi flestra byggða, og dýrtíðin étur í þessum efnum sem öðrum takmarkaða tekjuaukningu.

Okkur þm. Norðurl. e. bárust mörg erindi í vetur á ýmsum tímum úr byggðum hér og þar úr kjördæminu með rökstuddum óskum um, að við beittum okkur fyrir því, að veittar yrðu fjárhæðir til tilgreindra umbóta á ýmsum vegum. Landsmenn bjuggust almennt við því, að gert yrði með endurskoðun áætlunarinnar átak, svo að um munaði, í vanræktum vegamálum. Við þm. úr Norðurl. e. sendum erindin, sem okkur bárust, öll til vegamálastjóra og óskuðum þess allir sameiginlega og skriflega, að þau yrðu tekin til athugunar við endurskoðunina og tekin til greina, eftir því sem unnt væri. Eitthvað vorum við mismunandi sterkorðir um þörfina, eftir því sem efni stóðu til á hverjum stað. En aldrei var neinn ágreiningur okkar á milli um meðferð þessara mála.

Nú, þegar ég lít yfir till., sé ég þess hvergi merki, að hinar skriflegu óskir okkar hafi verið teknar til greina, og hvergi sé ég þar rúm í fjárveitingakaflanum fyrir brtt. vegna þeirra, eins og komið er. Ekkert fé er þar láust til skipta. Ég fyrir mitt leyti hef ekki skap til að leggja til, að tekið sé þar frá öðrum handa okkur, því að öllum virðist vera svo naumt skorinn skammturinn. Hið eina til leiðréttingar, sem nú virðist opið standa, er að gera ráð fyrir auknum lántökum til vega.

Þingeyjarsýslubraut er 265 km langur vegur í Norðurlandskjördæmi eystra. Hún nær frá Norðurlandsvegi hjá Breiðumýri í Reykjadal um Aðalreykjadal, Húsavík, Tjörnes, Kelduhverfi, Öxárfjörð, Núpasveit, Kópasker, Melrakkasléttu, Raufarhöfn, Hálsa, Þistilfjörð til Þórshafnar. Hún liggur um 12 sveitarfélög sem aðalvegur. Í þessum sveitartélögum eru samtals um 5 þús. íbúar. Þingeyjarsýsluþraut er aðalvegur til sóknar að fjórum verzlunarstöðum, Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn. Á þessum vegi er mikil umferð og flutningaþörf. Tíðarfar í þessum landshluta er þannig, að vegna snjóa á vetrum þarf vel upphlaðna vegi. Talið er, að eftir sé að byggja upp um 130 km af Þingeyjarsýsluþraut eða nálega helming allrar leiðarinnar í heild. En þetta eru kaflar á ýmsum svæðum. Skv. lauslegri áætlun er talið, að kosta muni 75.millj. kr. að byggja Þingeyjarsýslubraut upp þannig, sem lög ætlast til. Til allrar þessarar leiðar eru skv. áætluninni, sem hér liggur fyrir, ætlaðar um 3 1/2 millj. kr. í fjárveitingum samtala bæði árin, og fyrir mestan hluta þess hefur verið unnið fyrir fram og fer upp í lán. En miðað við þessa upphæð mundi, ef svo hægt væri farið, taka 40 ár að koma Þingeyjarsýslubraut í það ástand, sem lög gera ráð fyrir. Er það lengri tími en hægt er að sætta sig við. Varla getur nokkur hv. þm. talið þetta ofmælt. Af framangreindum ástæðum leyfum við okkur, fjórir þm. Norðurl. e., að flytja þá brtt. á þskj: 553, að lántökuheimildarkafla vegaáætlunarinnar verði breytt þannig, að heimilt verði að vinna fyrir lánsfé að Þingeyjarsýslubraut þessi tvö ár fyrir 7 millj. 1967 og 8 millj. 1968. Þetta er að vísu, a.m.k. fyrir árið í ár, ekki mikil lausn, vegna þess að um annað er ekki að ræða að því er þennan kafla snertir en að útvega þarf lánsfé, því að hann stendur ekki í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisins og lántökuheimildir skv. þeirri löggjöf, sem hefur verið sett. En verði að því stefnt að vinna fyrir ekki minna fé árlega en þetta, sem við leggjum til, að uppbyggingu Þingeyjarsýslubrautar, þá taka þau verk skv. áætlun 10 ár í stað 40, og mundi flestum þykja nógu löng bið.

Þess er þó rétt að geta með þökkum, að hv. fjvn. hefur gert till. um, að heimilað verði að vinna fyrir lánsfé í Aðalreykjadal fyrir 1 millj. hvort árið 1967 og 1968. Það vinnst ekki mikið fyrir þá upphæð, en víst má þakka fyrir þessa hugulsemi. En hún er ekki svo mikil, að það haggi nokkuð þeirri ósk okkar fim., að till. okkar verði samþ. Við teljum þessa till. okkar mjög sanngjarna og væntum þeirrar sanngirni af hv. þm., að þeir greiði henni atkvæði.

Ég læt svo útrætt um þessa till., sem ég tel mig hafa sannað að eigi fyllsta rétt á sér og sé mjög hófleg.

En af því að ég er kominn í ræðustólinn, vil ég aðeins minnast á veginn, sem á að leggja á þessum tveim árum milli Mývatnssveitar og Húsavíkur og nefndur hefur verið Kísilgúrvegur. Eins og hæstv. vegamrh. hefur lýst yfir í ræðu, verður bygging þess vegar kostuð af ríkinu og lán til þess tekið, og þyngir hann því ekki í raun og veru vegáætlunina með byggingarkostnaði sínum, hvílir ekki á tekjum vegasjóðs. Mér er ekki grunlaust um, að sumir ókunnugir haldi, að þessi fyrirhugaði vegur komi ekki öðrum að notum en kísilgúrverksmiðjunni, aðeins eigi að nota hann vegna flutninga vegna kísilgúrverksmiðjunnar. En þetta er misskilningur. Þessi vegur verður um það bil 30 km styttri en núverandi akvegur milli Mývatnssveitar og Húsavíkur. Hann á einmitt að liggja þá leið, sem Mývetningar völdu sér stytzta í kaupstaðinn, þegar þeir fóru fyrrum lestaferðir sínar, fluttu á hestum, klyfjar á sumrum eða fóru í sleðaferðir á vetrum. Hann liggur líka að hálfu um byggð, kemur henni að fullum notum og er þráður af þeim, sem þar búa. Þessi vegur verður nefnilega vegakerfisbót, þó að til séu menn, sem hefðu viljað fá hann lagðan hjá sér um dalina neðar og vestar, af því að þeim leiðist að bíða eftir fullkomnum vegi. En sú leið, sem þeir tala um, er lengri frá Mývatnssveit til Húsavíkur. Þegar þessi vegur verður tekinn á landsbrautatölu sem þjóðvegur í vegáætlun 1969—1973, tel ég, að gefa eigi honum nafnið Hólasandsvegur, en það hét hin gamla lestaferðaleið Mývetninga, sem þarna lá.