13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2246)

140. mál, rannsóknarnefnd á ásökunum um trúnaðarbrot utanríkismálanefndarmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa fylgi mínu við þá till. til þál., sem hér liggur fyrir, og um leið, ekki sízt í tilefni af ræðu hæstv. utanrrh., fara nokkrum orðum um afstöðu mína til utanrmn. og viðvíkjandi framkomu fyrrv. utanrrh.

Utanrmn. var hér áður fyrr mjög vel starfandi n., og frá 1942, þegar ég tók fyrst sæti í henni, og til 1946 voru haldnir í henni ákaflega margir fundir, þar sem rætt var um ákaflega mörg mál, sem snertu yfirleitt hagamuni Íslands. Það væri fróðlegt, mér hefur ekki gefizt tækifæri til þess, — það væri fróðlegt að bera saman, hvað margir fundir hafa verið haldnir í utanrmn. árlega á þeim árum og svo hins vegar eftir að núverandi ambassador okkar í London, Guðmundur Í. Guðmundsson, verður utanrrh. Sannleikurinn er, að fyrrv. utanrrh. hefur alltaf haft tilhneigingu til þess að fara með utanríkismál Íslands sem einkamál sín, eins og utanrrh. núverandi las upp og gerði nokkra grein fyrir. Hann hefur haft þá tilhneigingu að ræða slík mál ekki í ríkisstjórn, ekki við utanrmn. og ekki við Alþ. Þegar svo er farið að á Alþ. út frá öllum þessum hugmyndum viðvíkjandi trúnaðarmálum, að það er sett sérstök n. innan utanrmn., sem á sérstaklega að fjalla um það, sem snertir þau mikilvægu trúnaðarmál, sem mundu snerta Atlantshafsbandalagið, hervarnir Íslands og annað slíkt, og undirn. til að fara með slíkt kosin í utanrmn. og hún náttúrlega þannig skipuð, að það eru eingöngu fulltrúar hernámsflokkanna, sem sæti eiga í henni, þá reynir mest á, hvort þessi utanrrh. og þeir sumir aðrir, sem á undan honum sátu, kærðu sig yfirleitt um að hafa nokkurn tíma nokkurt samráð við þá undirn. utanrmn., sem sérstaklega var kosin til að fjalla um slik trúnaðarmál. Og hvað gerir þáverandi utanrrh.? Hann hefur aldrei neitt samband við þessa n., aldrei nokkurn tíma. Það var aldrei kallaður saman fundur í henni. Það liggja fyrir upplýsingar um, að það var bein tilhneiging hjá þessum þáv. utanrrh. að sölsa undir sig utanríkismál Íslands á þann máta að leyna utanrmn. og Alþ. þeim og meira að segja sína samráðh. Það er tilhneiging til einræðis í þessum efnum, sem er algerlega óviðeigandi. Hins vegar er það ósköp vel vitað, að svo lengi sem hann var utanrrh., var ekki til neins við þetta að eiga, ekki til nokkurs skapaðs hlutar fyrir okkur hér á Alþ. Þess vegna er það, að þetta mál er fyrst tekið upp nú, þegar kominn er nýr utanrrh., sem fer að skýra það fyrir okkur hér, hvernig á því standi, að hann leggi ekki meira fyrir utanrmn. en hann hefur gert. Núv. hæstv. utanrrh. tekur það beinlínis fram, að hann vilji hafa slíkt samstarf, ef það væri ekki þetta, sem stæði í veginum fyrir.

Utanrmn. hefur aldrei verið nein leyninefnd á Alþ. Í núverandi ákvæðum þingskapa eru engin ákvæði í þá átt. Í núverandi þingsköpum segir beint, með leyfi hæstv. forseta:

„Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga, og skal rn. ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga.“

Það er ekki eitt einasta atriði um trúnaðarmál og slíkt, og það er fyrst núna í þeim till., sem hér hafa verið undirbúnar, að lagt er til, að sé lögð á sérstök þagnarskylda, þegar formaður eða utanríkisráðherra æski þess, þannig að það, sem áður mundi hafa verið gert, ef þess hefði verið sérstaklega óskað, það yrði nú að lögum, ef þetta yrði einhvern tíma samþ. Utanrmn. hefur fram að þessu verið opin n., og þessi undarlega afstaða fyrrv. utanrrh. stafar einvörðungu af því, að hann hafði einræðistilhneigingar til þess að fara með þessi mál sem sín einkamál, en líta ekki á þau sem mál þjóðarinnar. Það gerði raunverulega ekki mikinn greinarmun, hvaða afstöðu hann yfirleitt tók, með þessi mál, þar sem hann vildi aldrei nokkurn tíma hafa neitt samband við þingið eða utanrmn. um þau. Svo segir hann í þessu bréfi, sem hæstv. utanrrh. las upp, að það hafi orðið breyting á hugmyndum manna um þagnarskyldu. Það hafa engar breytingar orðið á því, það hefur alltaf verið sú sama hugmynd, sem þarna hefur gilt, að ef sérstaklega var farið fram á það um eitthvað, þá hefði áreiðanlega verið yfir því þagað. En þáv. utanrrh. hefur gengið út frá því, að það ætti yfirleitt að þegja um allt, sem hann segði, án þess að hann minntist á það; m.ö.o. að allir gengju með sömu hugmynd um þetta og hann, að allt ættu þetta að vera hans einkamál. Enda sýndi hann það sjálfur, að hann leit þannig á, m.a. með því að misvirða n. einmitt helztu samstarfsflokka sinna í hernámsmálunum með því að kalla hana aldrei nokkurn tíma saman. Það var bara sú almenna tilhneiging að ganga fram hjá Alþ. með hlutina, að vanvirða nefndir Alþ, að gera ekkert með þær, að gera meira og meira einræðiskennt stjórnarfar í þessum efnum, — það var það sem þarna réð.

Ég skal ekki fara hér nákvæmar út í þetta, sem hæstv. utanrrh. var að lesa upp viðvíkjandi Þjóðviljanum. Það kom alveg greinilega í ljós af því, sem hann las, að þáverandi fulltrúi Alþb. í utanrmn. hefur litið þannig á, að það yrði að óska þagnarskyldu hverju sinni, út frá því sjónarmiði, að utanrmn. væri eðlilega opin nefnd, og þannig virðist utanrrh. sjálfur allan tímann hafa litið á n. Þess vegna talaði hann aldrei við hana. Og þegar sérstök undirnefnd er kosin með mönnum, sem hugsa eins og hann, talar hann ekki heldur við þá undirnefnd. Hann virðist þá hafa litið þannig á, eins og þetta væri opin n., og það væri því aðeins skylda að þegja um hluti, að þess væri sérstaklega óskað. Ég held þess vegna, að það, sem Finnbogi R. Valdimarsson þá sagði, hafi einmitt verið staðfest af öllum praxís þáv. utanrrh:

Hins vegar; hvað sem við kunnum að deila um þetta gamla, sem þarna hefur gerzt, þá er höfuðatriði nú, að þegar verði hér breytt um, að meðan utanrmn. starfar eftir þeim gömlu l., sé litið á hana sem hverja aðra n. þingsins, sem hæstv. utanrrh. beri skylda til að bera mál sín undir. Þegar hæstv. utanrrh. óskar eftir, að það sé þagnarskylda um mál, á auðvitað að vera það. En hitt sýnist mér, að afstaða fyrrv. utanrrh. sé engan veginn góð í þessum efnum. Hann er að vísu dugandi lögfræðingur og þess vegna vafalaust leikinn í að reyna að snúa sig út úr þeim málum, sem hann lendir í klipu með, en mér sýnist hann fara þarna með ósatt mál. Það er mjög slæmt um mann, sem búinn er að gegna trúnaðarstöðu fyrir íslenzka ríkið. Ég álít þess vegna, að það sé bæði hans sjálfs og Alþ. vegna alveg nauðsynlegt að samþ. þessa till., sem hér liggur fyrir, og láta rannsaka þetta alveg til fullnustu og m.a. fá okkar núv. ambassador í London hingað heim, til þess að hann geti líka borið hönd fyrir höfuð sér, ef með þarf.