13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (2248)

140. mál, rannsóknarnefnd á ásökunum um trúnaðarbrot utanríkismálanefndarmanna

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Það er raunverulega eitt atriði í þessu máli, sem skiptir máli, og það er: Hefur utanrmn. verið talin lokuð n. eða opin n.? Hv. síðasti ræðum., hv. 5. þm. Reykv., sagði, að þingskapan. hefði slegið því föstu, að n. hefði verið opin, því að hún hefði talið rétt að setja ákvæði um, hvenær mál væru tekin sem trúnaðarmál. Ég held, að þingskapan. hafi ekkert sagt um það, hvernig n. hafi verið. Hennar till. er aðeins að kveða skýrt á um það, hvernig hún telur rétt, að hún sé í framtíðinni, en hún segir ekkert um það, hvernig n. hafi verið.

Ég skal svo aðeins nefna eitt vitni í þessu máli, og það er hv. 5. þm. Reykv. sjálfur sennilega. Það er grein úr Tímanum, sem birtist 17. apríl 1959 með 5 dálka fyrimögn, og heitir greinin: „Tregða Alþ. við að gefa skýlausa viljayfirlýsingu er að stofna landhelgismálinu í voða.“ Þar segir svo í greininni, með leyfi hæstv. forseta, og meira að segja feitletrað:

„Það eru nú liðnir þrír mánuðir síðan Framsfl. bar þá till. fram í utanrmn., að hún beitti sér fyrir að bera fram á Alþ. till. til þál., sem fullkomin eining væri um og sýnt gæti Bretum, að hugur Íslendinga væri óbreyttur. Flokkurinn taldi rétt að hreyfa þessu í utanrmn. fremur en að kasta um það eigin till. inn í þingið, því að það hefði getað vakið deilur og verið talið gert í flokkspólitískum áróðri.“ Síðan segir: „Mál utanrmn. eru ekki kunngerð, fyrr en fram koma í þinginu, og það voru aðrir en framsóknarmenn, sem skýrðu opinberlega frá þessari till. í Alþ.“

Það er alveg greinilegt í þessum ummælum, að sá, sem skrifar greinina í Tímann þarna, hvort sem það er hv. 5. þm. Reykv. eða annar, hann hefur talið, að það ætti ekki að birta það, sem n. fjallaði um, fyrr en það kæmi til þingsins kasta, og að þessi birting á því, sem ekki var gerð af framsóknarmanni, væri ekki rétt málsmeðferð. Mér finnst þetta alveg augljóst.