15.02.1967
Sameinað þing: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (2348)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er rétt, eins og hæstv. utanrrh. sagði, að það er svo langt um liðið síðan umr. fóru fram um þetta mál, að þráðurinn í þeim hefur að nokkru leyti slitnað, og ég geri ráð fyrir því, að margir séu búnir að gleyma ýmsu af því, sem fram kom í þeim umr. á sínum tíma. En þá hafði ég hripað hjá mér nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hæstv. utanrrh. og ég vildi gera nokkrar aths. við, þar sem mér fannst gæta nokkurs misskilnings hjá honum, og ég vildi því ekki með öllu láta fara hjá óleiðréttan. Og ég ætla aðeins, þó að langt sé um liðið, að drepa á þessi atriði. En ég vil þó fyrst lýsa alveg sérstakri ánægju yfir þeirri yfirlýsingu utanrrh., sem fram kom í þeim umr., og var á þá lund, að hann vildi framvegis taka upp aðra starfsháttu varðandi utanrmn. en að undanförnu hefðu tíðkazt og hann væri allur af vilja gerður að hafa fullt samráð við utanrmn. Þessari yfirlýsingu vil ég sérstaklega fagna, vegna þess að þeir starfshættir, sem tíðkazt hafa í þessu efni, eru vægast sagt leiðinlegir og óviðunandi. Og þar sem hæstv. utanrrh. hefur gefið slíka yfirlýsingu, er þess að vænta, að þetta breytist hér á eftir, þar sem hér er einskis annars þörf til að breyta í þessu efni en vilja utanrrh. Vilji hans er allt, sem þarf í þessu efni. Ef hann hefur vilja til þess að láta utanrmn. fylgjast með málum, svo sem gera ber að lögum, er það auðvelt. Hann þarf þar ekki undir neinn annan að sækja, þannig að ef vilji og alvara fylgja þessum orðum hans, má vænta þess, að á næstunni verði upp teknir nýir starfshættir í utanrmn.

Hitt skal ég ekki fara langt út í, sem hann gerði þó að nokkru atriði í sinni ræðu og talaði alveg sérstaklega um hér áðan, þ.e.a.s. réttlætingu á því, að sá háttur hefði verið á hafður, að utanrmn. hefði ekki verið kvödd saman. En þá ástæðu vili hann færa fram til réttlætingar þeim vinnubrögðum, að fyrrv. utanrrh. hafi lýst því yfir, að utanrmn. hafi gerzt sekir um trúnaðarbrot. Ég skal að sjálfsögðu ekkert um það dæma, hvað til er í þeim staðhæfingum. Ég kem þar ekki við sögu. En hitt vil ég nú segja, að sú staðhæfing utanrrh. getur náttúrlega á engan hátt sannazt með því, sem hæstv. utanrrh. las upp hér fyrir þingheimi, vegna þess að þar var ekki um neina sönnun að ræða, heldur aðeins staðhæfingu hæstv. fyrrv. utanrrh., sem var í rauninni alveg órökstudd af einstökum dæmum, aðeins talað almennt um það, að trúnaður hefði verið brotinn í sambandi við umr. um landhelgismál, og raunar naumast skiljanlegt af því, sem hann las, í sambandi við hvaða landhelgismál það var, sem slíkt hefði átt að gerast, því að í sömu andránni er í bókuninni talað um það, að þetta hafi gerzt fyrir nokkrum árum, en í hinni andránni var talað um það, að sérstaklega Þjóðviljinn og jafnvel Tíminn hafi gerzt sekir í þessu efni, að manni skildist þá skömmu áður. Slíkar staðhæfingar sem þessar er ekki hægt að taka alvarlega og í rauninni alveg óframbærilegt að koma fram með þær, nema styðja þær alveg ákveðnum dæmum, þar sem hér er um mjög alvarlegan áburð að ræða, þar sem því er haldið fram, að einstakir utanrmnm. hafi rofið trúnað, sem þeim var sýndur. En aðalatriðið er, að hvað sem þessu liður og hvað sem rétt er í þessu efni, er það vitaskuld svo fjarri öllu lagi, jafnvel þó að eitthvað slíkt hefði skeð fyrir nokkrum árum, að ætla að veifa því framvegis sem einhvers konar refsivendi yfir utanrmn. Slíkt nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það er svo óviðeigandi sem mest má verða, og eftir að nýir menn eru komnir til sögu, bæði í utanrmn. og í sæti utanrrh., vil ég vona, að hæstv. utanrrh., eins og reyndar yfirlýsing hans síðast bar vitni um, láti þetta ekki standa í vegi fyrir sínum góðu áformum um það að taka upp góða samvinnu við utanrmn.

Það er auðvitað sjálfsagt, og það vita allir, að um viss utanríkismál þarf að varðveita trúnað, og það er sjálfsagt, að utanrmnm. geri það. En hitt er líka jafnsjálfsagt, að í hvert eitt skipti, sem þann trúnað á að viðhafa, lýsi utanrrh. því yfir á fundi utanrmn. og láti bóka það, að þetta sé sagt í trúnaði, því að það er svo, að það eiga að koma fyrir utanrmn. fjöldamörg mál, sem mörg hver eru alls engin trúnaðarmál og engin ástæða til að krefjast þess, að trúnaður sé sýndur um þau.

Ég skal svo láta útrætt um þetta atriði, sem segja má að sé algert aukaatriði í sambandi við það mikla mál, sem hér er um að ræða, en hefur spunnizt inn í það.

Ég er alveg sammála hæstv. utanrrh. um það, að spurningin um landgrunnið og um það, hvort hægt sé að færa landhelgina út, er að sjálfsögðu mikið vandamál, og ég tók það skýrt fram í minni framsögu um málið hér í öndverðu. Og einmitt af því, að hér er í senn um lífshagsmunamál þjóðarinnar að ræða og sérstaklega vandmeðfarið mál, er einmitt að mínum dómi ástæða til að viðhafa þá starfsaðferð í þessu efni, sem gert er ráð fyrir í þeirri þátill., sem hér liggur fyrir til umr. Ég .er algerlega sammála hæstv. utanrrh. í því, sem hann sagði, að þessu máli, landgrunnsmálinu, eigi að halda, ef unnt er, utan og ofan við flokkspólitískar deilur. En þá er bara spurningin þessi: Hvernig verður það bezt gert? Hvernig verður því markmiði bezt náð? Verður það bezt gert með þeirri aðferð, sem mér skilst, að hæstv. utanrrh. vilji viðhafa, að stjórnarflokkarnir og þeirra trúnaðarmenn fari einir með málið, fyrst um sinn a.m.k., kynni sér það, sem kynna þarf í málinu, safni þeim gögnum, sem þörf er á og kynni öðrum þjóðum og trúnaðarmönnum annarra þjóða þær skoðanir og stefnur, sem hér eru uppi í þessu efni, en láti stjórnarandstöðuflokkana ekki fylgjast með í þessu efni, komi svo til þeirra eftir á og eftir dúk og disk og segi þeim þá hvað gert hefur verið í þessu máli. hvað áunnizt hefur og hvaða ákvarðanir nú eigi að taka? Ég held, að þessi aðferð sé ekki heppileg til þess að skapa þá æskilegu og ég vil segja nauðsynlegu samstöðu um þetta mál. Þá held ég, að sú aðferð, sem stungið er upp á í þessari þáltill., sé heppilegri, sem sé sú, að nú á frumstigi málsins sé kosin n. allra flokka til þess að fylgjast með því í öllum atriðum ásamt ríkisstj. og hafa á hendi ásamt ríkisstj. eins konar forstöðu og forustu í þessu máli, svo að það verði þannig tryggt frá öndverðu, að stjórnarandstöðuflokkarnir verði í raun og veru samábyrgir stjórnarflokkunum í þessu máli frá öndverðu. Þetta held ég, að sé sú rétta og heppilega aðferð, ef menn eru á þeirri skoðun, sem hæstv. ráðh. lét í ljós, að vilja halda þessu máli utan og ofan við flokkspólitískar deilur.

Mergurinn málsins er sem sagt sá að við erum algerlega öll sammála um markmiðið í þessu máli, en greinir á um starfsaðferðir, og það er það, sem menn þurfa að gera upp við sig, hvor starfsaðferðin er heppilegri, að allir standi saman frá öndverðu í þessu máli, að allir eigi fulltrúa til þess að fylgjast með í málinu frá öndverðu eða að stjórnarflokkar, hverjir svo sem þeir eru á hverjum tíma, fari einir með þetta mál, en komi svo seint og síðar meir til stjórnarandstöðunnar, þegar ráðið hefur verið, hvaða ákvarðanir í því skuli teknar. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geti að athuguðu máli fallizt á þau rök, að það sé heppilegra að hafa þá starfsaðferð í þessu máli, sem ég hef hér lagt til.

Hæstv. ráðh. var eins og dálítið sár yfir því, að ég hefði gert lítið úr ræðu hans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það er alger misskilningur. Ég gerði ekki á neinn hátt lítið úr þeirri ræðu, og það var alls ekki meining mín á neinn hátt. Hins vegar bað ég um skýringu á því, hvers vegna hæstv. utanrrh. hefði ekki í svo mikilli ræðu á svo merkum vettvangi gert grein fyrir stefnuyfirlýsingu Alþ. og ríkisstjórnar í þessu þýðingarmikla máli. Sú skýring er fengin, hæstv. utanrrh. gaf hana. Hann taldi, að það hefði ekki verið vel til fallið að vekja máls á þessu — á stefnu Íslands í þessu máli — á þessum þjóðavettvangi. Það hefði ekki orðið til þess að vekja samúð með málstað Íslands að vekja athygli á stefnu Alþ. og ríkisstj., heldur hefði það þvert á móti, að mér skildist, getað orðið til þess að vekja upp óánægju og andúð á málstað Íslands í þessu efni.

Þessi skýring ráðh. á því, hvers vegna hann í sinni annars ágætu ræðu vék ekki að þessu málefni, er þannig fengin, og má segja, að hann hafi að því leyti gert hreint fyrir sínum dyrum. Ég álít það eðlilegt, að hann skuli nú hafa gert það og þar með skýrt Alþ. frá því, á hverju hann byggði svo mikilsverða ákvörðun, að ræða ekki eða minnast ekki sérstaklega á þetta mál á þessum vettvangi. Hitt er svo annað mál, hvort menn fallast á eða eru sammála þeim sjónarmiðum, sem þessi skýring hæstv. utanrrh. byggist á. Ég hef enga aðstöðu til að meta, hvað bezt á við á slíkum vettvangi sem þessum, og mér er það fullljóst, að þar verður að haga sér eftir aðstæðum á ýmsan hátt. En ég get þó ekki fallizt á það, að hér sé um að ræða neitt feimnismál, og ég held, að það sé ekki vænlegt fyrir framgang stefnu okkar í þessu máli, ef við teljum okkur ekki á alþjóðavettvangi geta talað tæpitungulaust um það, hver er okkar stefna og hver er okkar vilji í þessu efni. Það er enginn að tala um það, að hæstv. ráðh. hefði átt að fara að berja í borðið á þessum stað. En ég efast ekki um það, að hæstv. ráðh. hefði getað hagað orðum sínum um þetta efni á þann diplómatíska hátt, sem við á á þeim stað. En ég býst við því, að það verði seint, sem, okkur verður færður heim sigur í þessu máli á einhverju silfurfati, án þess að við sjálfir berum fram stefnu okkar og vilja í því efni.

Það var vissulega ágætt hjá hæstv. ráðh. á þessu þingi að vekja athygli á fiskinum sem fæðutegund, og vissulega var það ágætt, að það skyldi vera samþ. á þessu allsherjarþingi ályktun um að rannsaka auðæfi hafsins og fiskstofnana, og það er ánægjulegt út af fyrir sig, að Íslendingur skuli hafa fengið sæti í þeirri n. Ég vil á engan hátt gera lítið úr þeirri samþykkt, sem þar var gerð. Hún getur e.t.v. og vonandi orðið undanfari einhverra friðunaraðgerða. En í því sambandi má þó minna á það, að þegar áður hefur verið gerð samþykkt á sjóréttarráðstefnunni í Genf 1958, 7. gr., þar sem það er sagt, að strandríki geti gert einhliða ráðstafanir um takmarkaðan tíma til verndar fiskstofnum á landgrunninu utan landhelgislínu. Þær ráðstafanir verða að vísu að vera reistar á vísindalegum niðurstöðum og þeirra verður að vera greinilega þörf og þær mega ekki skapa nein forréttindi til handa fiskimönnum strandríkis. Þessi samþykkt hefur, að því er ég bezt veit, verið fullgilt af nægilegum fjölda ríkja, þannig að hún er út af fyrir sig í gildi. Það er því til grundvöllur að vissu leyti fyrir friðunaraðgerð með þessum hætti. En því drep ég aðeins á þetta og tek þetta fram í sambandi við þessa samþykkt, sem allsherjarþingið gerði á sínu síðasta þingi um rannsókn á auðæfum hafsins og vernd fiskstofnanna, — ekki til þess á nokkurn hátt að gera lítið úr þeirri samþykkt, heldur þvert á móti, heldur aðeins til að undirstrika það, að þar er um allt annað mál að ræða en það, sem hér er um að tefla, — það, hvort landgrunnið eigi að tilheyra hlutaðeigandi ríki. Það eru alveg tvö mál, gerólík og má þess vegna ekki blanda þeim saman á neinn hátt. Samþykkt allsherjarþingsins leysir því ekki á neinn hátt þetta vandamál okkar, sem við erum að fjalla um, hvernig Ísland geti fengið fullan yfirráðarétt yfir landgrunninu. En þrátt fyrir það getur hins vegar þessi ályktun eða samþykkt. sem allsherjarþingið gerði, verið á allan hátt góðra gjalda verð og getur haft ýmislegan gagnlegan árangur.

Þá get ég ekki látið hjá líða að leiðrétta annan misskilning, sem mér virtist koma fram í ræðu hæstv. utanrrh., þegar þetta mál var rætt hér fyrir áramót. En hann var á þá lund, að hann lét að því liggja, að mér skildist, að ég hefði gert lítið úr Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingi. Þetta er fjarri öllum sanni og alger misskilningur, sem ég vil ekki láta ómótmælt, því að ég fór einmitt mjög miklum viðurkenningarorðum um Hans G. Andersen í ræðu minni og sagði þá og ég get sagt enn, að ég tei engan efa á því, að Hans G. Andersen er fróðastur allra íslenzkra manna um þessi efni, og ég efa það ekki, að af þeim mönnum, sem nú er völ á, sé hann færastur og hæfastur til þess að fjalla um þessi mál. Ég fæ þess vegna ekki með neinu móti skilið, að þetta sé hægt að leggja svo út, að ég hafi gert lítið úr honum. Hins vegar lýsti ég þeirri skoðun minni, að það hefði einmitt ekki verið úr vegi þrátt fyrir það, þó að allir séu sammála um ágæti þessa ágæta manns, að hafa samráð við aðra flokka og hafa samráð við utanrmn., áður en honum var falinn sá starfi, sem utanrrh. skýrði frá, að honum hefði verið fenginn. En mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið haft neitt samráð við stjórnarandstöðuna í því efni. Ég geri ekki ráð fyrir, að það hefði orðið neinn ágreiningur um þetta atriði. En ef menn vilja, að höfð sé samstaða í þessu máli, var eðlilegt, að atriði eins og þetta væri borið undir utanrmn. eða fulltrúa flokka. Hitt get ég ekki fallizt á að það sé á neinn hátt gert lítið úr Hans G. Andersen, þó að ég legði það til eða benti á, að það gætu verið heppileg vinnubrögð í þessu máli að fá nú til unga menn eða ungan mann til þess að setja sig alveg sérstaklega inn í þessi mál og kynna sér þau alveg sérstaklega og gera þau að sínu viðfangsefni og lífsstarfi, því að það er nú svo, að það þarf mikið til þess að verða „átoritet“ í þessum efnum og „átoritet“ í þjóðarétti og það verða menn ekki og geta ekki orðið, nema þeir veljist til þess á ungum aldri og helgi sig þessu algerlega Og þetta er svo mikið mál fyrir okkur, að ég held, að það væri ástæða til þess að sinna því með þeim hætti að fá ungan mann eða unga menn til þess að undirbúa sig alveg sérstaklega í þessum málum og reyna að ná þeirri stöðu í þeim að verða viðurkenndir kunnáttumann, ekki aðeins hér og ekki aðeins kannske í næstu löndum, heldur meðal þjóða. Það er erfitt mark og það er ekki víst, að því yrði náð, þó að tilraun yrði gerð til þess, því að mér vitanlega er nú ekki hægt að tala um og hefur aldrei verið hægt að tala um t.d., að Norðurlandaþjóðirnar ættu neitt „átoritet“ í þjóðarétti á heimsmælikvarða.

Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil aðeins segja það að lokum, að það getur að sjálfsögðu verið mismunandi trú á gagnsemi þessarar nefndarskipunar, sem fjallað hér um í þessari þáltill. Við skulum láta það liggja milli hluta. En ég spyr aðeins: Hverju gæti slík nefndarskipun spillt í þessu máli? Ég geri ráð fyrir því, að þessi n. mundi starfa kauplaust, þannig að það ætti ekki að vera að stofna til neinna útgjalda fyrir ríkissjóð eða aukinna útgjalda í þessu sambandi. Hverju getur það þá spillt, að allir flokkar fái að vera með í því í byrjun og fylgist með því frá öndverðu, hvernig á máli þessu er haldið, hvernig stefnt er að því marki, sem við erum allir sammála um, að Ísland fái og eigi að fá viðurkenndan fullan yfirráðarétt yfir öllu landgrunninu? Ég get ekki séð, að stjórnarflokkunum sé nein hætta búin af slíkri nefndarskipun. N. er þannig saman sett, að þeir hafa fullt vald á málinu eftir sem áður í þessari n. Stjórnin og stjórnarflokkarnir og þeirra talsmenn segja stundum, að stjórnarandstæðingarnir snúist gegn öllum málum, sem stjórnin komi með, hvort sem góð eru eða hvernig sem þau eru úr garði gerð. En ég held, að það geti verið hollt fyrir hv. stjórnarmenn að íhuga það þá, hvernig þeir snúast við, stjórnarflokkamenn, þegar stjórnarandstaðan býður upp á samvinnu um mál, sem er ekki ómerkara en þetta mál, sem hér er um að ræða.