12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (2559)

160. mál, endurskoðun á sjómannalögum

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti Á þskj. 330 ber ég fram till. til þál. um endurskoðun á sjómannalögum, nr. 87 frá 31. des. 1963, ásamt þeim hv. 4. þm. Vesturl., hv. 2. landsk. og hv. 11. landsk. þm. Eins og fram kemur í grg. þeirri, er fylgir till., er ekki ýkjalangt síðan sjómannalögin voru endurskoðuð. Síðustu breytingar voru samþ. 8. apríl 1963, og samkv. ákvæðum l. var breytingin felld inn í l. og gefin út í heild 31. des 1963, eins og áður segir. Endurskoðun þessi mun hafa tekið nokkuð langan tíma og breytingarnar lagðar fyrir fleiri en eitt þing, áður en þær hlutu samþykki.

Við flm. þessarar till. teljum fulla ástæðu til þess, að endurskoðun sú, sem hér er lagt til, fari fram sem fyrst vegna ágalla á núgildandi l., og vil ég færa fram nokkur rök fyrir því og einnig benda á, að við erum ekki einir um þá skoðun.

Frá því að lagaákvæði um réttarstöðu sjómanna og samskipti þeirra og útgerðarmanna eða útgerðarfyrirtækja voru fyrst sett hér á landi, hafa sömu reglur gilt um fiskimenn og farmenn. Lög þau, sem hér hafa gilt síðustu áratugina, hafa fyrst og fremst verið miðuð við samskipti farmanna og eigenda hinna stærri flutninga- og farþegaskipa. Landsmanna., og við endurskoðun þá, sem fram fór árið 1963, virðast sömu sjónarmið hafa ráðið, enda mun hafa verið fyrst og fremst stuðzt við sjómannalög frændþjóða vorra á Norðurlöndum, en ekki nægilegt tillit tekið til sérstöðu þeirrar, sem íslenzk fiskiskip eiga við að búa.

Það er vissulega, nauðsynlegt og ágætt, að menn, er gera sjómennsku að sínu ævistarfi, hafi réttindi og þá jafnframt skyldur gagnvart sínum atvinnuveitanda. En að sömu reglur gildi um t.d. uppsagnarfresti skipstjórnarmanna á hinum stóru flutninga- og farþegaskipum, sem starfrækt eru allt árið og ár eftir ár, og smáfiskiskipum, t.d. 20—30 rúml., sem gerð eru út árstíðabundið og venjulega ekki nema hluta úr árinu, getur að mínum dómi ekki staðizt, en samkv. 13. gr. sjómannal. er uppsagnartími skipstjóra á fiskibátum, þegar óvissa ríkir í sambandi við útgerð á fiskiskipi. Sérstaklega, getur þetta verið óþægilegt, þegar eigendaskipti verða að bátnum. Og dæmi eru til þess, að hæstaréttardómur, sem gekk árið 1966, dæmdi skipstjóra fullan aflahlut í 3 mánuði eða út uppsagnartímabilið. Í þessu tilfelli ríkti óvissa um, á hvaða veiðar báturinn færi yfir sumartímann, en í þeim efnum voru útgerðarmaðurinn og skipstjórinn ekki sammála. Skipstjóra þessum var dæmdur fullur skipstjórahlutur, þrátt fyrir að skipstjóri þessi réði sig á annan bát og ynni sér inn hærri upphæð en aflahluturinn var þann tíma á bát þeim, er hann hvarf af. Hæstiréttur byggði dóm þennan á 3. og 8. gr. sjómannal. Tel ég nauðsynlegt, að m.a. verði þessar greinar endurskoðaðar. Ég tel einnig eðlilegt að endurskoða ákvæði um uppsagnarfrest yfirmanna, annarra en skipstjóra, en sá frestur er þrír mánuðir samkv. 13. gr., og telja verður tímann of langan á minni bátana, sbr. það, sem ég sagði áðan.

Um 18. gr. tel ég, að breyta verði ákvæðum þessarar gr. að því er varðar laun skipverja í slysa- og veikindatilfellum. Þá verði að setja ákvæði um það, að skipverji, sem slasast eða veikist, þegar hann er eigi að starfi á skipinu eða í beinu sambandi við það, skuli ekki eiga rétt til bóta samkv. lögunum.

Um 28. gr., í 2. mgr. þeirrar gr., eru ákvæði um umönnun skipverja. Eftir að ráðningu hans er slitið, á hann auk réttinda samkv. ákvæðum í 18. gr. rétt á umönnun útgerðarmanna í ákveðinn tíma. Rétt er að endurskoða ákvæði gr. í samræmi við gildandi lög um sjúkrasamlög og almannatryggingar.

Um 32. gr. Nauðsynlegt er, að ákvæði séu um það, að ef skipverji yfirgefur skiprúm vegna veikinda eða ef hann slasast, þurfi eigi að koma til uppsögn, en ákvæði þessarar gr. eru óljós að því er þetta snertir, og málaferli eru nú um skilning á þessu ákvæði.

Um III. og IV. kafla laganna. Þessir kaflar fjalla um skipsstörfin, um refsivald skipstjóra, um aðra menn, sem ráðnir eru á skip. og um refsingar. Nauðsynlegt er að endurskoða hinar ýmsu greinar þessara kafla, en í mörgum þeirra er einkum miðað við flutningaskip. Ákvæðin um refsivald skipstjóra í IV. kafla eru mjög erfið í framkvæmd, sbr. 65. gr. Þá eru ákvæði í 70. gr. um það, að kaupi, sem haldið er eftir vegna yfirsjónar skipverja, skuli varið til hagsmuna sjómönnum eða þeirra vandamönnum, þrátt fyrir það að viðkomandi menn hafi bakað útgerðinni stórfellt tjón. Nauðsynlegt verður að setja í l. skýr ákvæði um það, hvernig með mái þeirra skuli fara, sem gerzt hafa brotlegir við útgerðarmenn, m.a. með því að mæta eigi til skips eða fara fyrirvaralaust úr skiprúmi.

Eftir að breytingar þær, sem samþ. voru 1963 um auknar greiðslur frá útvegsmönnum til sjómanna í veikinda- og slysatilfellum samkv. 4. og 18. gr. sjómannal., komu til framkvæmda, hafa útvegsmenn mjög oft kvartað undan þeim kvöðum, er lög þessi setja á þá, og í mörgum tilfellum hefur það valdið útgerð fiskiskipa óeðlilega miklum útgjöldum og jafnvel stefnt rekstri fiskiskipa í tvísýnu. Útvegsmenn hafa á hverju ári síðan 1963 á aðalfundum samtaka sinna óskað eftir endurskoðun á þeim ákvæðum, og hafa samtök þeirra margsinnis óskað eftir því við hæstv. sjútvmrh., bæði fyrrv. og núv., að frv. til l. yrði flutt, er fæli í sér sanngjarna leiðréttingu í þessum efnum. Ég leyfi mér að vitna í það, sem formaður Landssambands ísl. útvegsmanna sagði um þetta efni á síðasta aðalfundi samtakanna. Hann sagði m.a.:

„Loks leggur n. til,“ þ.e. vélbátanefndin, „að sjómannal. verði breytt á þá leið, að greiðslur til áhafna á fiskiskipunum í veikinda- og slysaforföllum skipverja samkv. l. miðist ekki við aflahlut, heldur í meginatriðum við kauptryggingu samkv. kjarasamningum. Ég vil fyrst víkja lítið eitt að þessu síðasta atriði. Öllum útvegsmönnum er kunnugt um það, hvílíkum búsifjum það hefur í mjög mörgum tilfellum valdið að þurfa að greiða fullan aflahlut í veikinda- og slysatilfellum í allt frá 1 til 3 mánaða. Þetta fráleita lagaákvæði getur leitt til þess við mikil óhöpp, að afkomu báta sé teflt í algera tvísýnu eða jafnvel þrot. Við höfum farið fram á það við ríkisstj., að hún beiti sér fyrir því, að þessu verði breytt til samræmis við það, sem þmn. leggur til, enda mun slíkt fyrirkomulag sem hér gildir með öllu óþekkt meðal annarra þjóða. Í Noregi t.d. er þetta þannig, að háseti fær 900 kr. norskar á mánuði, ef hann veikist eða slasast. Hér getur þetta og hefur oft skipt tugum þús. á mánuði fyrir háseta, og við þekkjum dæmi þess, að yfirmaður á síldveiðibáti hefur haft yfir 100 þús. kr. á mánuði í veikindatilfellum. Þarf naumast orðum um það að fara, hve fráleitt slíkt ef.“

Ég hef hér fyrir framan mig nokkur dæmi um þetta og vil gera þingheimi það ljóst og mun þá sýna fram á, að það er áreiðanlega ekki þetta, sem Alþ. hefur ætlazt til, þegar það setti þessi lög. Dæmi frá 1965 af síldveiðum sýnir veikindi, þ.e. magasár, maðurinn var veikur í 60 daga. Þetta var á 200 tonna skipi, hann fékk 92 þús. kr. eða kr.1533,33 á dag. Af þessu greiddu tryggingarnar 9 þús. kr. Á 270 smál. skipi, það var 51 dagur, hafði viðkomandi maður 87250 kr. eða 1710 kr. á dag. Stýrimaður á 227 smál. skipi, það voru 17 dagar, sem hann var frá, hann hafði 43765 kr. eða 2574.40 kr. á dag. Ég er hér með fleiri dæmi, sem sýna, að skipstjóri á rúmlega 200 rúml. skipi, sem átti rétt á 90 daga greiðslu, fékk kr. 301405.60, en af þessu greiddu tryggingarnar 14 þús. kr., eða hann hafði á dag kr. 3348.95. Á einu 150 rúml. skipi á síldveiðum veturinn 1985, maðurinn var frá í 47 daga, hann hafði kr. 157842.22 eða 3358 kr. á dag. Af þessu greiddu tryggingarnar kr. 10277.22. Stýrimaður á 200 rúml. skipi, sem var frá í 80 daga, fékk kr. 228344.08 eða kr. 2854.30 á dag.

Ég skal ekki þreyta þingheim með því að lesa upp fleiri dæmi, þó að ég hafi þau hér fyrir framan mig. En það er áreiðanlega ekki þetta, sem Alþ. hefur ætlazt til með setningu þessara l., sem sést bezt á því, eins og ég sagði áðan, að fyrst og fremst eru lög þessi miðuð við farmenn, og samkv. upplýsingum Eimskipafélags Íslands eru greiðslur í veikindatilfellum hjá háseta, sem unnið hefur í 6 ár hjá félaginu, kr. 8646.67 á mánuði, auk fæðis og hjá 1. stýrimanni, sem unnið hefur í 5 ár hjá félaginu, eru það kr. 15466.56 á mánuði, auk fæðis.

Það hefur ávallt verið viðurkennt, að þörf væri á leiðréttingu á l. þessum, en fram að þessu hefur ekki orðið úr því, að brtt. væru fluttar. Núv. hæstv. sjútvmrh. skipaði hinn 11. nóv. 1965 5 manna n. þm. eftir tilnefningu allra þingflokkanna, er rannsaka átti hag og afkomuhorfur vélbáta af stærðinni 45—120 rúml. N. þessi skilaði áliti í júnímánuði s.l. Ein af þeim till., er n. gerði til lausnar erfiðleikum bátaflotans, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

N. mælir með því, að samið verði frv. til l. um breyt. á sjómannal. á þá leið, að greiðslur til áhafna á fiskiskipum í veikinda- og slysatilfellum skipverja samkv. l. miðist ekki við aflahlut, heldur verði í meginatriðum og eftir því sem við getur átt miðuð við kauptryggingu háseta og það launahlutfall, sem er á milli yfir- og undirmanna á fiskiskipum samkv. kjarasamningum. Telur n. rétt, að haft verði samráð við samtök sjómanna um breytingu þessa.“

Í framhaldi af þessari till. vélbátan. óskaði hæstv. sjútvmrh. eftir því við hv. sjútvn. Nd., að kannaðir yrðu möguleikar á, hvort n. væri eigi fáanleg til þess að bera fram brtt. í samræmi við álit vélbátanefndarinnar, en í hv. sjútvn. eiga sæti 3 af þeim aðilum, er sæti áttu í vélbátan. Hæstv. sjútvn. vildi ekki taka afstöðu til málsins, fyrr en hv. rn. hefði kannað hugi sjómannafulltrúanna. Hinn 28. febr. s.l. var fyrir frumkvæði hæstv. sjútvmrh. boðað til fundar um þetta mál, og vil ég til þess að gera þetta ekki of langt aðeins skýra frá því, að á þeim fundi mætti Jón Arnalds fulltrúi rn. og fulltrúar frá útvegsmannasamböndunum Sverrir Júlíusson og Baldur Guðmundsson, frá sjómannasamtökunum Jón Sigurðsson og Snorri Jónsson, og Birgir Finnsson sem formaður sjútvn. Nd. Það kom berlega í ljós, að þessir fulltrúar sjómannasamtakanna vildu ekki ganga til samninga á því stigi málsins um neinar breytingar. En á fundinn hafði einnig verið boðaður forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins, en hann mætti ekki, en síðar upplýstist um, hver afstaða sambandsins var. Jón Arnalds hélt því fram fyrir hönd rn., að ráðh. hefði fullan hug á því, að eitthvað yrði gert í þessu máli, en þegar fyrir lá síðar, að hv. sjútvn. Nd. var ekki fáanleg til þess að bera fram aðra till. en þá, sem Farmannasambandið gat samþ., sem þó vissulega var spor í áttina, en engan veginn að mínu áliti gekk svo langt sem þurfti, þá ákvað ég að beita mér fyrir því, að þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, yrði flutt. En þar er gert ráð fyrir, að fulltrúar þeirra hagsmunasamtaka, er hlut eiga að máli, verði skipaðir í nefnd ásamt einum stjórnskipuðum fulltrúa til þess að finna lausn á og gera till. um þetta vandamál og þá einnig að endurskoða sjómannalögin með tilliti til þeirrar sérstöðu, sem íslenzkur sjávarútvegur býr við varðandi samskipti sjómanna og útgerðarmanna á fiskiskipum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að skýra þetta mál nánar að svo stöddu, en að lokinni þessari fyrri umr. legg ég til, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.