09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (2611)

202. mál, sjónvarp til Vestfjarða

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Forsenda þess, að unnt sé að sjá Vestfjörðum fyrir sjónvarpsþjónustu, er fyrst og fremst sú, að lokið hafi verið byggingu endurvarpsstöðvar á Skálafelli, en sú endurvarpsstöð er hornsteinn dreifingarkerfis sjónvarpsefnis frá sjónvarpsstöðinni í Reykjavík. Skálafellsstöðin mundi þó ekki geta endurvarpað sjónvarpsefni til Vestfjarða. Endurvarp yrði að grundvallast á stórri endurvarpsstöð í Stykkishólmi, sem mundi ná til mestalls Breiðafjarðarsvæðisins, svo og endurvarpsstöðvum á Vestfjörðum og Blönduósi. Stöð á Blönduósi mundi síðan endurvarpa til Skagastrandar, en þaðan yrði endurvarpað til Strandasýslu.

Heildarkostnaður sjónvarpsstöðva, er ná til allra Vestfjarða, mundi samkv. mjög lauslegri áætlun vera sem hér segir:

Stykkishólmur fyrir Breiðafjörð 11.3 millj. Patreksfjörður fyrir Patreksfjörð 3.3 millj. Hrafnseyri fyrir Bíldudal 3.3 millj. Þingeyri fyrir Þingeyri 3.3 millj. Melgraseyri fyrir innanvert Djúp og til endurvarpsstöðvar á Arnarnesi 3.3 millj. Arnarnes fyrir Ísafjörð, Bolungarvík og fleiri staði 3.3 millj. Súðavík fyrir Álftafjörð 3.3 millj. Önundarfjörður, þ.e.a.s. jarðstrengur fyrir Önundarfjörð, 4.7 millj. Suðureyri, einnig jarðstrengur fyrir Suðureyri, 6 millj. Blönduós fyrir Húnaflóa og endurvarpsstöð á Skagaströnd 6.7 millj. Og Skagaströnd fyrir Skagaströnd og Strandasýslu 3.3 millj.

Heildarstofnkostnaður til þess að koma sjónvarpi til Vestfjarða mundi nema mjög lauslega áætlað 52 millj. kr. Þess er þó að geta, að þessar framkvæmdir mundu einnig þjóns fleiri byggðum en Vestfjörðum, þ.e.a.s. Snæfellsnesi, Dalasýslu, Húnavatnssýslu og Skagafirði með endurvarpsstöð, er tæki við frá Blönduósi. Stofnkostnaður á Vestfjörðum sjálfum mundi nema rúmum 30 millj. kr. mjög lauslega áætlað.

Ég hef áður gert grein fyrir því, að ég tel, að fyrst ætti að byggja höfuðstöðvar dreifikerfisins um landið, þ.e.a.s. stöðvar á Skálafelli, í Stykkishólmi, á Vaðlaheiði, á Fjarðarheiði og á Hjörleifshöfða. Breiðafjörður mundi hafa full not af Stykkishólmsstöðinni. Ég vona, að hv. þm. skilji, að ég treysti mér ekki á þessari stundu til þess að láta í ljós neina skoðun á því, hvenær byggingu þessara aðalstöðva gæti verið lokið, og þá ekki heldur, hvenær unnt væri að hefja byggingu minni stöðvanna. En ég tel sjálfsagt, að um þetta allt verði bráðlega gerðar sem ýtarlegastar áætlanir, þannig að upplýsingar liggi fyrir bæði um tæknimöguleika og kostnað, þannig að að jafnaði sé unnt að efna til framkvæmda, þegar fjárhagsaðstæður leyfa. Stefnuna tel ég, eins og ég hef áður sagt, eiga að vera að gera öllum landsmönnum kleift að njóta þjónustu íslenzka sjónvarpsins, svo fljótt sem unnt er.