01.03.1967
Sameinað þing: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (2727)

215. mál, könnun á hag dagblaðanna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil einungis segja það til viðbótar því, sem ég sagði áðan, í tilefni af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það er auðvitað misskilningur hjá honum, að það séu auglýsendurnir, sem hafi það í hendi sér, hvaða blöðum vegni vel og illa. Sannleikurinn er sá að það, sem á sér stað bæði hér og annars staðar, það er ómótmælanlega, að auglýsendurnir sækja mest eftir þeim blöðum, sem bezt gengur. Það eru þau blöðin, sem flesta hafa kaupendur, sem auglýsendur sækja mest eftir, og það er ósköp eðlilegt, að þeir, sem auglýsa í því skyni að afla sér viðskiptavina, sæki eftir að auglýsa frekar hjá þeim blöðum, sem mikið eru lesin, heldur en hjá hinum, og þetta er eðlilegt lögmál, sem á jafnt við á Íslandi eins og annars staðar. Hér er ekki um það að ræða, að auglýsendurnir haldi í sjálfu sér uppi blöðunum. Blöðin eru að selja þeim sína þjónustu og menn greiða meira fyrir þá þjónustu, sem er mikils virði, heldur en þá, sem er lítils virði. Og eftir minni þekkingu hygg ég, að það sé ekkert blað á Íslandi, sem hægt sé að segja um, að auglýsingarnar séu verulega miklu meiri hl. af þeirra tekjum heldur en áskriftargjöldin. Ég hygg, að þetta vegi víða nokkuð salt og sé furðanlega mikið samræmi þarna á milli og það muni koma í ljós við athugun.