08.03.1967
Sameinað þing: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (2739)

214. mál, skólakostnaðarlög

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera þá fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort ekki sé að vænta þess, að fram verði lagt á þessu þingi frv. um ný skólakostnaðarlög. Eins og hv. alþm. kannske muna, kom það fram í ræðu hæstv. forsrh., sem hann flutti hér í haust, þar sem hann flutti tilkynningu frá ríkisstj. um verkefni hæstv. ríkisstj. o.fl. á þessu ári, þá kom það greinilega fram hjá honum, að slíkt frv. yrði lagt fyrir það Alþ., sem nú situr. Og það kom raunar fram hjá hæstv. forsrh., að þetta frv. yrði lagt fram á fyrri hl. þingsins. En nú er fyrri hluti þingsins löngu liðinn og komið verulega fram á síðari hluta þingtímans og jafnvel fast að þingslitum, og þetta frv. hefur enn ekki komið fram. Því hef ég viljað leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort þess sé ekki að vænta, að þetta, frv. verði lagt fram, áður en þingi lýkur. Það er augljóst mál, að það er stutt eftir af þingtímanum, og ef á að setja ný skólakostnaðarlög á þessu þingi, er sannarlega þörf á því, að frv. fari að koma fram.