15.03.1967
Sameinað þing: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (2754)

118. mál, binding sparifjár innlánsstofnana á Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, sem á endanum urðu mjög skýr og greinileg, þó að hann teldi nauðsynlegt að hafa langan formála fyrir svörunum og ausa úr skálum reiði sinnar yfir því, að við skyldum gerast svo djarfir að spyrja hér um staðreyndir þýðingarmikils máls. Og ég verð að segja það, að manni virtist a.m.k. í byrjun, að ráðh. væri meira en lítið viðkvæmur fyrir þessu máli. Í öðru orðinu sagði hann, að þetta væri sér sérstakt fagnaðarefni, en hafði um það mörg orð, hvað tilgangur okkar væri svívirðilegur með því að vera að spyrja um þetta. Ráðh. endaði á því að fá út mjög glæsilega útkomu um það, hvað bankakerfið hér í Reykjavík styddi Norðlendinga mikið. En hann varð þó að grípa til þess ráðs til að fá þá útkomu að fara út í allt aðra sálma en fsp. fjallaði um, þ.e.a.s. um viðskipti útibúanna og aðalbankanna, sem eru vitanlega þessu máli algerlega óviðkomandi. Vitanlega áttu þau viðskipti sér stað með líkum hætti, áður en bindingin kom til skjalanna og hrifsaði stóran hluta af sparifé landsmanna í þessum landsfjórðungi, og það er auðvitað ekkert nýtt í sögunni eða til orðið fyrir stjórn Seðlabankans eða núv. ríkisstj., að það hafi oft verið þannig, að aðalbankarnir hafi lagt útibúunum eitthvert fé, heldur fullkomlega eðlilegt mál. En þarna mun samt ekki hafa komið allur sannleikur fram hjá hæstv. ráðh., því að ég veit, að til eru þau útibú í Norðlendingafjórðungi, sem flytja tugmilljónir til aðalbankanna, og bera reikningar bankanna vitni um þetta, svo að það var aðeins önnur hliðin á því máli, sem hæstv. ráðh. dró fram.

Ráðh. sagði, að við hefðum fengið þetta aftur allt saman, sem Seðlabankinn hefði tekið, í auknum afurðalánum, það væri hvorki meira né minna en á fjórða hundrað millj., sem við hefðum fengið í afurðalánum. Fengum við ekki afurðalán einnig, áður en bindingarskyldan var notuð? Ekki veit ég betur en það hafi nokkurn veginn fylgzt að, áð bindingarskyldunni var komið á og afurðalánin voru stórlega minnkuð frá því, sem áður var, svo að í þeim efnum hefur engin breyting orðið. Sú breyting, sem hefur almennt orðið við innlánsbindinguna, er, að það hefur verið komið upp gjaldeyrisvarasjóði, það er rétt, með því að taka miklu meiri lán en ella hefði þurft í sambandi við okkar utanríkisviðskipti. Það er sjóður, sem er fenginn með lánum, og mótvægi þessara lána er síðan sparifjárbindingin, að því er hæstv. ráðh. skýrir frá. Það, sem breytzt hefur þess vegna, er ekki annað en það, að annars vegar hefur verið myndaður gjaldeyrisvarasjóður og hins vegar hefur fjórði parturinn af sparifé landsmanna verið bundinn. En ég fæ ekki séð með nokkrum hætti, að þær tölur, sem hæstv. ráðh. kom hér með varðandi þetta, sanni það, að bindingarskyldan hafi fært okkur Norðlendingum nokkurn eyri. Við höfum fengið afurðalánin eins og aðrir, en við höfðum þau einnig fyrir, og þau eru ekki komin til vegna bindingarskyldunnar á nokkurn hátt eða eiga nokkurn hlut skylt við hana.

Ég tel það svo vera alveg eðlilegt og nauðsynlegt, að bankakerfi aðalbankanna og Seðlabankans sýni fjórðungum eins og Norðlendingafjórðungi, þar sem atvinnuástand er ófullnægjandi og fjármagn er ófullnægjandi ti1 að halda uppi atvinnu, halveg sérstaka fyrirgreiðslu. Við höfum ekki orðið varir við hana, Norðlendingar. Það má að vísu segja, að það hafi verið viðurkennt með atvinnujöfnunarsjóði, stofnun hans. Hann er enn þá smár í sniðum og má sín lítils á móti þeim sogkrafti, sem er varðandi fjármagnið, en hann er þó viðurkenning á því, að það þurfi sérstakra aðgerða við í sambandi við þetta, og á meðan það er viðurkennt, að það þurfi sérstakar ráðstafanir, sem sannarlega eru þó enn þá ófullnægjandi, sé ég ekki nokkra ástæðu til þess, að Seðlabankinn sé að draga til sín fé með sparifjárbindingu úr þessum fjórðungi.

Það kann vel að vera, að nú vaxi mönnum þetta ekki mjög í augum, 200—300 millj., sem þarna er um að ræða. Ég vil þó benda á það, að aðeins það fé, sem Akureyri á þarna ein fyrir sig, væri röskur helmingur af því, sem þyrfti til að byggja nýja Laxárvirkjun, svo að eitthvað sé nefnt, svo að það er engan veginn hægt að segja, að á þriðja hundrað millj. kr. skipti ekki verulegu máli.

Eins og ég sagði áðan, var þessi fsp. fyrst og fremst borin fram til þess að fá fram staðreyndir, ekki til þess að koma hæstv. viðskmrh. í neinn sérstakan bobba, enda er engin aðstaða til þess hér, þar sem ræðutíminn er svo takmarkaður, en ég vonast eftir því að fá tækifæri til að ræða þetta mál síðar hér á þinginu.