12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

74. mál, verðstöðvun

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur hér komið fram, var fjhn. deildarinnar ekki sammála um afgreiðslu málsins. Stuðningsmenn ríkisstj. í fjhn. vildu samþykkja frv. með einni lítilli breytingu, sem ég fyrir mitt leyti tel ekki skipta miklu máli, en fulltrúar Framsfl. í fjhn. vildu hins vegar samþykkja þetta stjórnarfrv. óbreytt. Ég taldi hins vegar, að það þyrfti að gera á frv. mjög verulegar breytingar, og hef í samræmi við það flutt hér brtt., 6 að tölu, á þskj. 132, og í nál. því, sem ég hef lagt fram sem 2. minni hl. fjhn., hef ég gert nokkra grein fyrir afstöðu okkar Alþb: manna til þessa máls og rökstutt nokkru nánar þær brtt., sem ég flyt. Ég skal nú víkja að þessu nokkru nánar.

Eins og fram kom í ræðu formanns fjhn. og frsm. meiri hl., hafði hæstv. forsrh. lagt á það megináherzlu, þegar hann talaði hér fyrir þessu frv. við 1. umr., að þau væru tildrög til þess, að frv. væri flutt, að mikil verðlækkun hefði orðið á aðalútflutningsvörum þjóðarinnar. Hæstv. forsrh. lagði einmitt mikla áherzlu á, að þetta væri ein meginástæða til þess, að þetta frv. um stöðvun á verðlagi væri flutt. Að vísu vék hann einnig að því, sem að var vikið í grg, frv., að ríkisstj. teldi, að það væri eðlilegt, að hún hefði slíkar heimildir eins og þær, sem í frv. felast, í sambandi við viðræður við stéttasamtökin í landinu um breytingar á kaupi, og tók það fram í því sambandi, að ef um verulegar breytingar yrði að ræða á kaupi, þá gæti svo farið, að það væri ekki lengur grundvöllur fyrir því að framkvæma þá verðstöðvun, sem um væri rætt í frv. En ég held, að það hafi ekki farið á milli mála, að ein meginforsendan, sem fram var færð fyrir því, að þetta frv. var flutt, var verðlækkunin, sem vitað var um að hafði orðið nú á seinni hluta þessa árs á ýmsum útflutningsvörum landsmanna. Og formaður fjhn., sem talaði fyrir hönd meiri hl., lagði einnig á þetta megináherzlu í sinni ræðu, að það væri einmitt þetta áfall, sem við stæðum frammi fyrir, sem gerði það óhjákvæmilegt að veita ríkisstj. slíkar heimildir sem í frv. felast.

Við 1. umr. málsins benti ég á, að vissulega væri það rétt, að við hefðum orðið fyrir talsverðu áfalli vegna verðlækkunar á ýmsum okkar þýðingarmestu útflutningsvörum, en undirstrikaði þó, að það væri mikil óvissa enn ríkjandi um það, hversu áfall þetta yrði mikið, vegna þess að verðfallið væri tiltölulega nýlega til komið, og yfirleitt hefðum við ekki selt mikið af okkar framleiðsluvörum á þessu lækkandi verði og í mörgum greinum lægjum við með framleiðsluna enn óselda, og ég benti þá einnig á, að það væri farið að bera á nýjan leik á breytingum í þessum efnum, að um verðhækkanir væri að ræða á nýjan leik. Nú hefur komið í ljós, að þessar verðhækkanir voru enn þá meiri en ég vissi um eða þá voru orðnar, þegar 1. umr. fór hér fram um þetta mál. Þessar verðhækkanir hafa enn haldið áfram, sem betur fer. Síldarlýsið, sem hafði lækkað í verði, þannig að það var komið niður í 50 £ tonnið, og var hér mikið talað um þá miklu verðlækkun, það er nú aftur komið upp í 65 £ tonnið og er mjög greinilega enn hækkandi í verði, því að framleiðendur hér vilja ekki selja lýsið á þessu verði nema tiltölulega mjög lítið magn. En nú er hins vegar lítið minnzt á þessa breytingu, og ég tók alveg sérstaklega eftir því, að formaður fjhn., sem hér talaði fyrir hönd meiri hl. fjhn., vék ekki að þessum breytingum. Nú eru sem sagt allar horfur á því, að þessi mikla verðlækkun, sem við stóðum frammi fyrir fyrir nokkru, sé að verulegu leyti úr sögunni hvað viðkemur þessum aðalútflutningsvörum okkar, sem eru afurðir síldarverksmiðjanna.

Ef maður hefði átt að taka gild þau rök, sem hér voru flutt af hálfu hæstv. forsrh. og ríkisstj. fyrir flutningi þessa frv., lægi eiginlega næst að taka það svo, að nú væri ekki lengur þörf á því að afgreiða þetta mál, þar sem nú horfði miklu betur í þessum útflutningsmálum okkar. En ég lýsti því hér við 1. umr. málsins sem minni skoðun, að það væri ekki þetta verðfall, sem fyrst og fremst ræki á eftir með það, að það væri þörf á því að reyna að stöðva verðlagið innanlands. Jafnvel þó að svo hefði farið, að verðfallið, sem gerði vart við sig á síldarafurðum okkar nú seinni hluta ársins, jafnvel þó að það hefði skollið á af fullum þunga og vitanlega haft allmikið að segja fyrir þjóðarbúið, þá hefði það ekki skapað neinn stórkostlegan vanda í rekstri síldarverksmiðja í landinu né heldur í rekstri þeirra fiskibáta, sem aðallega eiga við síldarverksmiðjurnar, því að það fer ekkert á milli mála, að rekstraraðstaða einmitt þessara aðila, þ.e.a.s. síldarverksmiðjanna og þeirra fiskibáta, sem eiga viðskipti sín við síldarverksmiðjurnar, — rekstraraðstaða þessara aðila hefur verið sú bezta, sem um er að ræða í okkar atvinnumálum nú í dag, og þrátt fyrir verðfallið er hún mun betri en rekstraraðstaða margra annarra. Það var því að mínum dómi ekki verið að gera sérstakar ráðstafanir í efnahagsmálum þjóðarinnar vegna þessa útlits, sem þá var varðandi verð á þessum útflutningsvörum. Vandinn í okkar efnahagsmálum var bundinn við það og er bundinn við það enn í dag, að það eru aðrir þættir í okkar framleiðslumálum, sem eru miklu veikari og eiga nú í vök að verjast, og það er fyrst og fremst sá þáttur, sem bundinn er við útgerð fiskibátanna, sem viðskipti sín eiga við frystihúsin í landinu. Það er sá þáttur framleiðslumálanna, sem er einna veikastur nú og þarf á aðstoð að halda, og einnig útgerð togaranna, sá þáttur er mjög veikur og þarf á aðstoð að halda, og þessi veika aðstaða þessara tveggja þátta; bátaútgerðarinnar og togaraútgerðarinnar, gerir það að verkum, að það þarf einnig að styðja við bakið á fiskvinnslunni í landinu, sem viðskipti á einmitt við þessa aðila. Þegar bátaútgerðin í landinu dregst saman og togaraútgerðin dregst saman, þá minnka af sjálfu sér verkefni fiskvinnslunnar í landinu og þá skapast erfiðleikar hjá fiskvinnslunni, og það er einmitt á þessum stöðum, sem vandinn aðallega liggur. Það þarf því að gera ráðstafanir í okkar efnahagsmálum, sem miða að því að bæta úr þessum vanda, gera ráðstafanir í þá átt að stöðva verðlagið, hið tiltölulega háa verðlag, sem er orðið bér innanlands, við þau mörk, sem verðlagið er komið nú. Það er út af fyrir sig þýðingarmikið, það er gott fyrir alla framleiðslu í landinu að eiga ekki von á því að þurfa að taka á sig enn þá aukin útgjöld vegna hækkaðs verðlags innanlands. Það er þýðingarmikil ráðstöfun út af fyrir sig. En það er enginn vafi á því, að sú ráðstöfun ein nægir ekki til þess, eins og nú er komið, að bæta úr aðalvandamáli þessara framleiðsluþátta, sem ég hef minnzt á. Það þarf meira að koma til.

Ég lýsti því hér yfir við 1. umr. þessa máls, að við Alþb.-menn værum út af fyrir sig fylgjandi því markmiði frv. að vinna að því að stöðva verðlagið innanlands, þar sem það er komið, en við vildum ganga frá því á miklu öruggari og betri hátt en gert er í frv. ríkisstj. Við töldum, að þar væri á ófullnægjandi hátt gengið frá þessu máli og alls ekki tekið á verðlagsvandamálunum á þann hátt, sem ætti að taka á þeim. Ég benti m.a. á það, að við værum t.d. ekki á það sáttir að láta þar við sitja að lögfesta það verðlag, sem orðið er í dag í öllum greinum, því að það væri að okkar dómi í mjög mörgum tilfellum orðið allt of hátt og ætti ekki rétt á sér, og af því vildum við gera ráðstafanir, þegar tekið væri á þessum verðlagsmálum, í þá átt að færa það verðlag niður, sem hægt er að leiða öll rök að, að sé orðið of hátt. Þar sem t.d. álagning er orðin úr hófi fram, þar á að minnka álagninguna og einnig annan milliliðakostnað, sem gerir verðlagið of hátt. Og að þessu miða einmitt brtt. þær, sem ég vil gera við frv., og ég skal nú víkja nokkuð nánar að þessum brtt.

Eins og kunnugt er, þá er þetta frv. ríkisstj. allt byggt upp á þeim grundvelli, að ríkisstj. sé veitt heimild til þess að mega ákveða verðstöðvun. Þessu vil ég breyta á þann hátt, að það sé skýrum orðum tekið fram í 1., að ríkisstj. hafi ekki aðeins heimild til þess að stöðva verðlagið, heldur að hún skuli stöðva verðlagið, að hún skuli gera þetta. Ég vil ekki hafa neina óvissu í þessum efnum, þar sem ríkisstj, segir: Ja, ég nota þessa heimild, ef mér sýnist ástæða vera til. Ef t.d. ríkisstj. lítur svo á, að nú hafi orðið eitthvað örlítið meiri kauphækkun hjá einhverjum aðilum í landinu en henni þykir gott, þá segir ríkisstj.: Nú tel ég engan grundvöll vera fyrir því að vera að stöðva verðlagið, og þá er bezt að láta heimildina liggja. Við Alþb.-menn lítum þannig á, að það sé orðið svo brýnt fyrir aðalatvinnuvegi landsins að koma í veg fyrir frekari verðlagshækkanir en orðnar eru, að við álítum, að nú eigi að slá því föstu í lögum, alveg ótvírætt og undanbragðalaust, að verðlagið skuli stöðva.

Ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. sýni það nú í verki, þegar þessi till. verður borin upp, að hún meini eitthvað með því, sem hún hefur verið að fitja upp á í þessu frv., og samþykki þessa till., sem miðar að því að slá þessu föstu, að það skuli ákveðið að stöðva verðlagið.

Þá flyt ég eina smábrtt. við 3. gr. frv., en þar segir nú svo í frv., að ríkisstj. sé heimilt að ákveða, að öll opinber gjöld önnur en þau, sem um getur í tilteknum lögum, megi ekki hækka frá því, sem var á árinu 1966, þ.e.a.s. á yfirstandandi ári, nema með samþykki ríkisstj., og því er svo bætt við: „Skal hækkun á slíku gjaldi þó eigi leyfð, nema ríkisstj. telji hana óhjákvæmilega vegna fjárhagsafkomu hlutaðeigandi aðíla.“ Ég vil fella niður þessi síðustu orð: „vegna fjárhagsafkomu hlutaðeigandi aðila.“ Við vitum það nefnilega, að alls konar opinber gjöld og þóknun fyrir opinbera þjónustu hjá ýmsum stofnunum, allt er þetta rökstutt með því, að viðkomandi stofnun þurfi á hækkuninni að halda, á auknum tekjum að halda af fjárhagslegum ástæðum. Ég tel, að það sé alveg nægilegt að segja, að slíkar hækkanir skuli ekki leyfðar, nema ríkisstj. telji þær óhjákvæmilegar: Þetta tel ég alveg nægilegt. Það verður að sjálfsögðu að vera á mati ríkisstj., hvort hún fellst á hækkunina eða ekki. En ég vil ekki á neinn hátt taka undir það, að það eigi að leyfa þær hækkanir allar frá hinni almennu verðstöðvun, sem hægt er að rökstyðja með því, að viðkomandi fyrirtæki þykist þurfa á hækkuninni að halda af fjárhagslegum ástæðum. Ég óttast, að þá yrðu undantekningarnar allmargar.

Þá legg ég til, að bætt verði inn í frv. fjórum nýjum greinum. Sú fyrsta af þessum nýju greinum fjallar um það, að nú verði ákveðið, að kosin skuli ný verðlagsnefnd í stað þeirrar, sem starfað hefur og hefur átt að hafa eftirlit með verðlagi í landinu og verðlagningu. Sú nefnd hefur að undanförnu óumdeilanlega verið að leyfa hverja álagningarhækkunina af annarri og leyfa ýmsum aðilum ótakmarkaða álagningu, þ.e.a.s. eftir eigin geðþótta viðkomandi aðila. Ég vil því ákveða, að það skuli kosin ný verðlagsnefnd nú af sameinuðu. Alþingi og það sé lagt fyrir þá nefnd að vinna á allt öðrum grundvelli en sú verðlagsnefnd hefur starfað, sem hefur verið við störf að undanförnu. Og önnur greinin, sem ég legg til að verði þar bætt við, fjallar um það, að þessari nýju verðlagsnefnd skuli falið það verkefni að ákveða að nýju verðlagningu á vörum og þjónustu og það sé lagt fyrir hana að ákveða ýmist hámarksverð eða hámarksálagningu í öllum greinum, nema þá allir nm, verði sammála um að undanþiggja einhverja sérstaka þjónustu eða einhvern sérstakan vöruflokk. Sem sagt, ég vil, að það verði verkefni hinnar nýkjörnu verðlagsnefndar að kanna verðlagið í landinu, athuga, í hvaða tilfellum álagningin hefur vaxið úr hófi fram að undanförnu, hvar er hægt að færa álagninguna niður, minnka milliliðakostnaðinn og lækka verðið. Og hið sama er að segja um hirt ýmsu þjónustugjöld, að þar sé athugað, hvaða hækkun hefur átt sér stað og hvort ekki sé hægt að færa verðið niður.

Þá vil ég, að verði bætt við nýrri grein, sem taki það alveg skýrt og greinilega fram, að verðstöðvun skv. þessu frv. skuli einnig ná til allrar húsaleigu. Og þá tel ég alveg óhjákvæmilegt, að það sé ákveðið um leið til þess að reyna að tryggja framkvæmd á þeim ákvæðum, að það sé óheimilt að segja upp húsaleigu nema með samþykki þeirrar eftirlitsnefndar, sem sett yrði til þess einmitt að sjá um framkvæmd á þessu atriði. Þá eru ákvæðin um húsaleigu sett undir sams konar ákvæði og gilda um almenna verðlagningu í landinu. Þar yrði að vísu starfandi sérstök n., sem liti eftir því, að ákvæðin um það, að óheimilt sé að hækka húsaleigu, séu haldin, og vinni að því að sjá um, að það sé ekki haldið uppi óeðlilegri húsaleigu. í landinu.

Þá legg ég til, að bætt verði inn í frv. nýrri gr. um það, að þegar þessi lög hafa öðlazt gildi um verðstöðvun, skuli stjórn Seðlabankans ákveða lækkun vaxta með hliðsjón af því, að verðlag hafi verið stöðvað. Ég tel, að það nái engri átt að halda uppi þeim vaxtakjörum áfram, sem í gildi eru í landinu í dag, ef verðlag hefur raunverulega verið stöðvað. Sannleikurinn er sá, að í ótrúlega mörgum tilfellum er það þannig nú, að vaxtakjörin eru í kringum 10%. Ég vil aðeins nefna það sem dæmi, að ég var nú fyrir nokkrum dögum að ganga frá láni fyrir aðila úti á landi hér hjá þekktri lánastofnun í landinu, stórum lánasjóði. Þar var um fastalán að ræða, stofnlán, og vextir af þessu láni voru 10% eða hæstu leyfilegir vextir. Og þannig er þetta, að það er í ótrúlega mörgum tilfellum, sem bæði bankar og lánastofnanir koma því þannig fyrir, að þeir fylgja hinum hæstu heimiluðum vöxtum eða 10%. Slíkir vextir ná vitanlega engri átt, ef um stöðugt verðlag er að ræða. Og ef ríkisstj. trúir á það, að hún sé raunverulega að stöðva verðlagið í landinu, þar sem það nú er komið, og ætlar að skapa hér nýtt ástand, eiga vitanlega að fylgja á eftir tilheyrandi ráðstafanir, sem eru í samræmi við það, að verðlagið hafi verið stöðvað, en það er m.a. ráðstöfun í þá átt að lækka vexti, en slíkt hefði mjög mikil og almenn áhrif til góðs.

5. brtt. mín er um það, að þau tímatakmörk, sem eru ákveðin í frv. ríkisstj. um gildi þessara laga, þ.e.a.s. tímamarkið 31. okt. 1967, þar sem ekki er gert ráð fyrir því, að þessi verðstöðvun standi nema til októberloka 1967, þetta ákvæði vil ég fella niður. Ég álít, að sú stöðvun á verðlagi, sem nú er ákveðin, eigi að gilda um óákveðinn tíma eða þar til breyting verður gerð á lögunum, og þar eigi menn ekki að setja sér slíkt mark að koma vandamálinu rétt aðeins fram yfir kosningar eða rétt rúmlega það. (Forseti: Ég bið hv. þm. afsökunar. Ég leyfi mér að spyrja, hvort ræðumaður eigi eftir mikið af ræðu sinni, þar sem gert hafði verið ráð fyrir því, að fundi yrði frestað nú og flokksfundir hæfust.) Ég á dálítið eftir. Þó að það sé ekki mikið, á ég nú dálítið eftir og mundi þá bara fresta því. (Forseti: Mundi hv. þm. þá vilja gera hlé á ræðu sinni, þegar honum hentaði?) Já, ég geri það nú þegar. (Fundarhlé.)

Herra forseti. Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar gert grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt við frv., og rætt hér nokkuð almennt um málið. En það eru hér nokkur atriði enn, sem mig langar til þess að víkja að og ég tel mjög mikilvæg í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Þegar ríkisstj. nú virðist a.m.k. hugsa til þess að breyta nokkuð til um stefnu í verðlagsmálum, er ekki óeðlilegt, að að því sé komið eða um það sé spurt, hvort hún geti ekki hugsað sér, að gerðar verði ráðstafanir til þess að athuga nokkuð nánar um þróun verðlagsmálanna í landinu að undanförnu. Ég held, að það hafi þegar komið fram, svo að ekki þurfi um að villast, að í ýmsum greinum hefur verðlag hækkað meira innanlands en efni hafa staðið til. Í nál. mínu tilgreini ég nokkrar breytingar, sem mér er kunnugt um að hafi átt sér stað á álagningu, og ég ætla, að þau dæmi, sem þar eru tilfærð, sýni það mjög ljóslega, að álagning hefur farið stórhækkandi á undanförnum árum í mjög mörgum greinum. Nú er spurningin sú, hvort ríkisstj. sé ekki fáanleg til þess, eins og nú er komið þessum málum, að gera ráðstafanir í þá átt að láta endurskoða þessi verðlagsákvæði, sem nú gilda, og reyna að vinna að því, að álagningin og milliliðakostnaðurinn við þessi þjónustustörf verði færð niður, þar sem hægt er að koma því við. Álagning hefur hækkað. Við skulum t.d. taka vöruflokka eins og hreinlætis- og snyrtivörur, þar sem álagningin var heimiluð árið 1960 í heildsölu 9.5%, en er orðin nú í framkvæmd 23.3% í heildsölu, en þar sem smásöluálagningin 1960 var heimiluð 25%, en hún er nú komin upp í 49.6%. Álagningarhækkun eins og þessi er ekki neitt einsdæmi, því að þannig er þessu farið um margar aðrar vörur, að álagningin hefur sannanlega meira en tvöfaldazt frá því, sem leyft var í verðlagsákvæðunum árið 1960. Finnst ríkisstj. ástæða til þess að láta þetta svona standa áfram, eða vill hún gera ráðstafanir í þá átt, að þessi álagning verði minnkuð og þannig verði hamlað gegn hækkandi verðlagi í landinu? Ég held, að ef hæstv. ríkisstj. í raun og veru vill takast á við dýrtíðarvandamálið, geti hún ekki skotið sér undan því að láta endurskoða þessi mál. Það er alveg ómögulegt að taka till. hennar alvarlega í þessum efnum um það, að hún vilji koma í veg fyrir dýrtíðina, hún vilji stöðva verðlag, ef hún fæst ekki til þess að setja hömlur gegn svona gífurlegri álagningarhækkun eins og átt hefur sér stað í mörgum greinum. Og ég er hræddur um það, að hæstv. ríkisstj. reki sig á það, bæði þegar hún fer að semja nánar við launþegana í landinu um þeirra hlut og við aðra, að það kunni líka að vera nokkur ástæða til þess að líta eftir því, hvað ýmsir aðrir aðilar taka sér í laun í sambandi við þeirra milliliðastörf. Hér er í rauninni af okkar hálfu ekki verið að fara fram á, að annað sé gert en það, að þóknun þessara aðila, sem fást við þessi milliliðastörf, verði ákveðin hóflega, t.d. eftir nokkuð svipuðum reglum og hér hafa gilt lengi, þegar verðlagsyfirvöld landsins hafa fjallað um þessi mál.

Þá er annað atriði, sem ég vildi víkja nokkuð að í sambandi við afgreiðslu málsins. Ég hafði áður minnzt á það, að ég teldi, að það, sem þýðingarmest væri nú eins og málin standa nú orðið í okkar efnahagsmálum, væri að gera ráðstafanir, sem færu í þá átt að gera þýðingarmestu framleiðslugreinum okkar, eins og t.d. bátaútgerðinni í landinu og togaraútgerðinni og þar með fiskiðnaðinum í landinu, fært að halda uppi fullum rekstri. Þetta væri það þýðingarmesta, og stöðvun á verðlaginu, eins og það er komið nú, slík ráðstöfun ein út af fyrir sig dygði ekki sem fullur stuðningur við þessar framleiðslugreinar. Nú hef ég, þar sem þessi mál hafa verið rædd, skilið hæstv. fjmrh. þannig og einnig hæstv. viðskmrh., að það væri alveg ljóst frá þeirra hálfu, að ef þyrfti að styðja þessar framleiðslugreinar með meiri fjárframlögum á næsta ári, þ.e.a.s. á árinu 1967, heldur en gert hefur verið á yfirstandandi ári, verði það ekki gert nema með nýjum álögum á þjóðina.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., sem hér er viðstaddur, nú vil ég spyrja hann alveg gagngert um það, hvort þetta sé einnig hans sjónarmið, að ef þurfi til þess að koma að styðja sjávarútveginn með meiri fjárframlögum á næsta ári en gert er á þessu ári, sé ekki hægt að gera það án þess að leggja á nýjar álögur. Ég hef sem sagt skilið þessa tvo hæstv. ráðh., fjmrh. og viðskmrh., þannig, að það væri þeirra sjónarmið, að það væri ekki hægt að veita þessum atvinnugreinum aukinn stuðning frá því, sem verið hefur, án þess að það þyrfti að íeggja á nýjar álögur. Nú er því hins vegar jafnframt lýst yfir, að ef það þurfi að grípa til þess að leggja á nýjar álögur, sé grundvöllurinn brostinn undan verðstöðvunarstefnunni, þá sé ekki hægt lengur að halda uppi verðstöðvun. Og þá er maður kominn að því, að allt talið um verðstöðvun nú sé í rauninni út í hött nema þá á þeim grundvelli, að hægt sé að halda uppi framleiðslunni í landinu með þeim sama stuðningi sem verið hefur. Og þá hlýt ég að spyrja hæstv. forsrh.: Dettur honum það virkilega í hug, að það muni duga fyrir bátaútveg landsmanna og fyrir fiskiðnaðinn í landinu og fyrir togaraútgerðina að fá nákvæmlega sömu fjárhæðir til stuðnings á næsta ári eins og þessar greinar hafa haft á yfirstandandi ári? Dettur honum það í hug, og dettur ríkisstj. það í hug, að þessi mál séu þannig? Ég efast ekkert um það, að hæstv. ríkisstj. og hennar sérfræðingar í efnahagsmálum hljóta að hafa gert sér einhverja grein fyrir því nú í árslokin, hver vandi sé á höndum í sambandi við rekstrargrundvöll þessara þýðingarmestu þátta í okkar atvinnulífi. Það er með öllu útilokað, að ríkisstj. hafi lokað sig svo úti frá því, sem er að gerast í landinu, að hún hafi ekki gert sér í aðalatriðum grein fyrir því nú fyrir árslokin, hvað muni þurfa að gera til stuðnings framleiðsluatvinnuvegum landsmanna. Ég skal segja það sem mína skoðun, að ég er ekki í neinum vafa um það, að ef bátaútvegurinn, — þar á ég við þá báta, sem aðallega skipta við frystihúsin í landinu og hinn almenna fiskiðnað, — ef sá bátaútvegur á að geta gengið á næsta ári með eðlilegum hætti, þarf hann á miklu meiri stuðningi að halda en hann hefur haft á þessu ári. Fiskverðið til bátanna þarf að hækka mikið. Hækki það ekki mikið nú um þessi áramót, mun framleiðsla bátaflotans enn þá dragast saman til mikilla muna og þeir munu enn þá verða færri og færri, sem vilja gefa sig í það að vinna á bátaflotanum. En ef það gerist, að færri bátar verða gerðir út, afli þeirra verður minni, færri stunda þessa fiskimennsku, mun það um leið hafa þau áhrif, að vandi frystihúsanna og fiskiðnaðarins í landinu vex. Ég held, að vandi frystihúsanna í landinu væri ekki sérlega mikill, ef það tækist að gera ráðstafanir til þess, að hráefnisöflunin væri með eðlilegum hætti, hún væri eðlileg. Ég er því á þeirri skoðun, að það sé alls fjarri lagi, að það dugi fyrir þessar framleiðslugreinar að stöðva hið almenna verðlag innanlands við það, sem það er orðið nú, það þurfi miklu meira að koma til, það þurfi að koma til ráðstafanir frá hálfu hins opinbera, sem þýða aukinn stuðning, aukin fjárframlög, eins og nú er ástatt. Og þá er sem sagt þetta spurningin, sem ég hef lagt hér fyrir hæstv. ríkisstj.: Hvað hugsar hæstv. ríkisstj. sér að gera í þessum efnum? Hvernig á að afla fjár til þess að veita þennan aukna stuðning? Ég hafði á tímabili gert mér vonir um, að það mundi vera hægt að taka nokkuð af hinum tiltölulega ríflega greiðsluafgangi ríkissjóðs á þessu ári og nota hann m.a. til stuðnings framleiðslunni í landinu á næsta ári. En hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir alveg á ótvíræðan hátt, að það verði ekki hægt að nota þennan greiðsluafgang í þessu skyni, það sé búið að ákveða notkun hans á annan hátt og ef eigi að styðja útflutningsframleiðsluna meira á næsta ári en á þessu ári, þá verði að koma til nýjar álögur. Ég veit, að hæstv. forsrh. sér, að það er með öllu óhugsandi að ræða hér á Alþ. þessar tillögur hennar um stöðvun á öllu verðlagi, án þess að ríkisstj. svari því til, hvernig hún hugsar sér að komast út úr þessum vanda. En ef það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir, sem ég hygg að sé, að útgerðin þurfi á auknum stuðningi að halda og það verði ekki gert nema með því að leggja á nýjar álögur, og nýjar álögur samræmast ekki verðstöðvunarstefnunni, til hvers er þá að vera að tala um stöðvun á verðlaginu á þeim grundvelli, sem ríkisstj. hefur hér markað? Skoðun mín er aftur á móti sú, að það eigi að vera almennt verkefni að vinna að því að stöðva verðlag í landinu eða koma í veg fyrir, að það hækki, en jafnhliða því, að það sé gert, eigi að gera aðrar ráðstafanir til viðbótar, sem duga til þess, að aðalframleiðsluatvinnuvegir landsmanna geti verið reknir með eðlilegum hætti.

Ég hef veitt því athygli, að fulltrúar ríkisstj. beita nokkuð misjöfnum rökum, þegar rætt er um þessi mál. Annars vegar er lögð þung áherzla á, að það hafi orðið miklar verðlækkanir erlendis á okkar útflutningsafurðum og þess vegna þurfi nú nauðsynlega að stöðva allt verðlag. Hins vegar er það svo, að þegar fulltrúar framleiðenda koma fram með kröfur sínar um það, að þeir þurfi á auknum stuðningi að halda, og þeir færa þá fram, að það sé bæði vegna verðlækkunar á erlendum mörkuðum, hækkandi verðlags innanlands og annarra opinberra ráðstafana, þá koma svo sömu talsmenn ríkisstj. og segja: Ja, við viljum ekki láta mikinn stuðning út á þetta lækkandi verðlag erlendis, því að það er allt í óvissu um, hversu langvarandi það verður og hvernig það muni yfirleitt verða í reyndinni. Sem sagt, í öðru tilfellinu er lögð mjög þung áherzla á það, einkum hér á Alþ., að nú þurfi að grípa til sérstakra og nokkuð óvæntra ráðstafana vegna mikils verðfalls á afurðum okkar erlendis. Hins vegar er svo sagt af sömu mönnum, að þeir geti ekki aðstoðað útveginn í landinu ýkjamikið vegna þessa verðfalls, vegna þess að það sé allt í óvissu um, hvort hér sé um svo mikið verðfall að ræða, þegar allt komi til alls. Ég held, að það sé miklu nær, eins og ég hef bent hér á, að segja hið rétta í þessu máli.

Þessar tillögur ríkisstj. um það að fá heimild til verðstöðvunar eru ekki fluttar hér raunverulega vegna þess að mjöl og lýsi hafa lækkað nokkuð í verði seinni hluta ársins, sem aftur hefur snúizt til hækkunar nú á síðustu vikum. Það er ekki hinn raunverulegi grundvöllur að því, að þetta frv. er flutt. Hinn raunverulega grundvöll fyrir því, að þetta frumvarp er flutt, tel ég vera þann, að ríkisstj. vill ná sér í heimildir, sem hún ætlar að nota í ákveðnum samningum við launþegasamtökin í landinu, þegar farið verður að ákveða kaup og kjör. Svo að hinu leytinu leggur hún þetta frv. fram vegna þess, að hún vill gjarnan láta líta svo út, að hún sé ekki hinn rétti fulltrúi verðstöðvunarstefnunnar og það séu aðrir; sem þar séu að flækjast fyrir stjórninni og komi í veg fyrir, að hún geti beitt sinni verðstöðvunarstefnu. En ríkisstj. veit það mætavel, að það hefur enginn verið að þvælast fyrir henni í þeim efnum. Hún hefur hér haldið uppi allt annarri stefnu, sem hefur óhjákvæmilega leitt til verðhækkana, en ekki til verðlækkana.

Afstaða okkar Alþb.-manna til þessa frv. ríkisstj. um heimild til verðstöðvunar mun fara eftir því, hvernig fer um þær brtt., sem við flytjum við frv. Verði þær brtt. ekki samþykktar, þykir okkur það benda til þess, að það séu ekki heilindi á bak við allt þetta verðstöðvunartal, þá vilji menn ekki gera raunhæfar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hækkandi verðlag og þá sé hitt aðalatriðið, að vera með sýndarmennsku.

Brtt. okkar við frv. miða allar að því að tryggja raunverulega verðstöðvunarstefnu betur í framkvæmd, en ekki á neinn hátt að koma í veg fyrir, að hún verði framkvæmd. Hitt bendum við svo auðvitað á, að við álítum, að það þurfi að gera meira til þess að tryggja rekstur atvinnuveganna en aðeins að samþykkja frv.; jafnvel með þeim brtt., sem við leggjum til að gerðar verði við frv.

Ég skal svo ekki lengja hér umr. frekar um málið, en vænti þess að heyra frá hæstv. ríkisstj., hvernig hún hugsar sér, að farið sé að í sambandi við óhjákvæmilegan stuðning, sem þarf að veita útflutningsatvinnuvegunum um fram það, sem felst í þessu frv., og hvernig hún telur, að hægt sé að veita þann stuðning, án þess að grundvöllur verðstöðvunarstefnunnar bresti þá um leið.