12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

74. mál, verðstöðvun

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það var frekar tilviljun, að ég tók til máls áðan. Ég hafði eiginlega ekki ætlað mér það og gerði ekki heldur ráð fyrir, að ég mundi tala tvisvar, en hæstv. forsrh. gaf ofurlítið tilefni til þess. Ég get eiginlega ekki skilið, hvernig stendur á því, að hæstv. forsrh. skuli ekki þola umr. um þetta mál. Ef á að taka þetta mál alvarlega, er ekki nema eðlilegt, að eitthvað sé um það rætt, og það, sem ég gerði hér, var að skýra mína afstöðu. En ég álít, að það hefði verið eðlilegra, ef ég hefði sagt eitthvað, sem ekki væri rétt, að hæstv. forsrh. hefði hrakið það, en ekki komið hér upp í ræðustól og sagt, að ég hefði hagað mér eins og trúður. Ég líkti raunar þessu frv. við það, að þetta væri nokkurs konar leikrit, revía, en þá var ég vitanlega ekki trúðurinn í því, heldur var það ríkisstj. sjálf, og ég vil nú ekki líkja þeim við neina trúði, heldur vildi ég þá frekar líkja hæstv. forsrh. við leikstjóra. Og það er allt annað orð, leikstjóri eða trúður, það er út af fyrir sig virðulegt orð, virðulegt að stjórna vel leik. Og það gerist nú í stjórnmálunum ærið oft, að það er nokkurs konar leiksýning. Stjórnir hafa verið undanfarið að auglýsa sig með alls konar slagorðum, eins og viðreisn og nýsköpunarstjórn og ég held bjargráðastjórn, þegar þrír flokkarnir mynduðu stjórn 1956, þannig að allir reyna að auglýsa síg. Ef ríkisstj. tekst vel að leika sinn leik, leika þetta leikrit, sem ég var að tala um, er það ekki nema hól fyrir hana. En efnislega hrakti forsrh. ekkert af því, sem ég hafði sagt, þannig að ef ég hef sagt eitthvað rangt eða ósatt, er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að það verði leiðrétt.

Ég get ómögulega skilið, að það sé neitt athugavert við það, þó að það sé rætt rólega um þetta mál, og það hefur yfirleitt verið gert. Það má náttúrlega deila um það, hvort allt hefur verið satt eða rétt, sem sagt hefur verið. En það hefur verið rætt rólega um það, nema helzt af hæstv. forsrh. sjálfum. Og ef málstaður hans væri slíkur og hann væri alveg viss um, að þetta væri allt saman rétt og þetta væri raunhæft allt saman, sem þeir væru að gera núna, þyrfti hann ekki að verða æstur út af þessu máli. Sá, sem hefur góðan málstað, hefur sterka málsvörn, getur verið rólegur og brosað að hinum, sem hafa rangt fyrir sér, leiðrétt þá og brosað að þeim, þannig að ég var ofurlítið hissa á því, hvað virtist hitna mikið í hæstv. forsrh. út af jafnrólegum umr. og hér hafa í raun og veru farið fram og af litlum illvilja, því að enginn okkar hefur viljað bregða fæti fyrir þetta frv. í raun og veru, þó að við höfum misjafnlega trú á því, hversu árangursríkt það verði.

Það, sem ég álít rétt, er ekki það, að það sé samþ. eitthvert frv. um það, að hér skuli nema staðar, heimild fyrir ríkisstj. að stöðva allt, en ekki séu gerðar aðrar róttækari ráðstafanir. Við vitum, að ef losnar um einhvern þennan hlekk, ef kaupið hækkar, ef erlendar vörur hækka, ef rekstrarkostnaður hækkar, annaðhvort við sjávarafurðir eða landbúnað, þá er festin biluð, einn hlekkur í sundur, og þá heldur þetta áfram að hækka alveg eins og hefur verið. Vera má, að viðvíkjandi verðgæzlunni taki ríkisstj. eitthvað fastari tökum en hún hefur gert, en það hefði hún bara getað, ef hún hefði viljað. Það, sem þarf að gera, er að reyna að lækka framleiðslukostnaðinn, gera einhverjar raunhæfar ráðstafanir. Það er það, sem ríkisstj. hefur bara ekki gert í sinni stjórnartíð.

Ég skal játa, að aðstaðan hefur að ýmsu leyti verið örðug. Það hafa verið miklar sveiflur í atvinnulífinu. Þessi mikla síldveiði gerði þetta örðugt. Aðrar stéttir heimtuðu meira og meira, allir vildu búa við svipuð kjör. Ég skal játa það, að hluti af síldargróðanum hefur runnið út til bændanna. Bændur eru í raun og veru ekkert sanngjarnari í sínum kröfum en aðrir menn. Það er eins og allir vilji fá sem mest og kunna sér þá kannske ekki hóf, þegar vel árar. En að mínu áliti er það, sem gera þarf núna, að lækka rekstrarkostnaðinn. Vextirnir höfðu sitt að segja. Þeim var hleypt af stað. Þeir voru hækkaðir. Hitt er rétt, að miðað við það, að krónan hefði haldið verðgildi sínu, voru þeir of háir. En miðað við það, að verðgildi hverrar krónu lækkar um 10–12% á ári, eru þeir náttúrlega of lágir, það er skaði að eiga peninga. En það er það, sem þarf að keppa að, að ríkið verndi það sparifé, sem þjóðfélagið felur því, og hafi vextina skaplega.

En það er ekki hægt að gera tvennt í einu, það gerir engin þjóð. Forsrh. hefur oft spurt að því, hvað hafi verið gert hér annað en aðrar þjóðir geri, hvaða ráðstafanir til að stöðva verðbólgu. Það var bara gert það í einu að fella gengið lengra en það raunverulega stóð og hækka vextina um leið. En það bara gera aðrar þjóðir yfirleitt ekki, að gera hvort tveggja í einu, stórfella gengi og hækka vexti. Það verkar hvort á móti öðru.

Við skulum bara taka landbúnaðinn. Það virðist vera komið í ljós, að það sé hægt að lækka fóðurbætinn um svona 1500 kr. hvert tonn, — það er ekki lítil lækkun, — bara með hagkvæmari verzlunarviðskiptum. Þau hafa ekki verið frjáls. Þau hafa verið bundin. En þetta hefur sitt að segja. Ef það væri hægt að taka áburðinn sömu tökum, hefði það líka mikið að segja. Það er algerlega einokun á honum. Væri vitlaust að gefa hann frjálsan? Það litla frelsi, sem var, var í gegnum áburðareinkasöluna. Það var tekið. Nú er þetta alger einokun. Bændur verða að kaupa þær áburðartegundir, sem réttar eru að þeim, ekkert frelsi. Það er alls ekki ólíklegt, að það væri hægt að gera svipaðar ráðstafanir viðvíkjandi áburðinum og er verið að gera við fóðurbæti. Þetta eru tveir aðalkostnaðarliðir bóndans. Þriðji liðurinn er viðhald véla. Það væri vafalaust hægt að gera eitthvað í því, t.d. að lækka innflutningstolla. Það hefur nú verið gert nokkuð og er e.t.v. hægt meira og ýmislegt að gera í því að gera þá þjónustu eins ódýra og mögulegt væri. Ef ráðstafanir eru gerðar svipaðar og þessar, væri hægt að lækka landbúnaðarafurðir, í staðinn fyrir að þær hafa flogið upp.

Ég hef heyrt landbrh. sjálfan halda því fram, að það gerði bændum ekkert til, þó að vextir væru hækkaðir á landbúnaðarlánum, það kæmi fram í afurðaverðinu. En það bara kemur fram í verðlaginu til neytenda og eykur dýrtíðina eða niðurgreiðslur ríkissjóðs. Annað er það, að það væri hægt að haga landbúnaðarframleiðslunni skynsamlegar en gert hefur verið. Má vera, að það sé verið að reyna það núna eða réttara sagt, að bændurnir séu sjálfir komnir inn á þá leið. Það er ekkert vit í því að framleiða miklu meiri mjólk en landsmenn þurfa að neyta. Það er allt í lagi með svona 10% , það er ekki hægt að gera við því, en þegar það er gert í stórum stíl, þarf náttúrlega að stinga við fótum, og það er verið að gera núna, bara gert of seint.

Ég skal játa, að það eru ískyggilega háar upphæðir, sem varið er til niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum og útflutningsuppbóta, og það væri ákaflega æskilegt, ef hægt væri að breyta því. Það er hægt að breyta því með tvennu móti. Það er hægt að lækka rekstrarkostnað landbúnaðarins og það á að framleiða þær tegundir vöru, sem hagkvæmast er að framleiða fyrir þjóðarbúið í heild. Þetta þarf hvort tveggja að gera, og hefur ekki verið gáð nógu vel að. Það er ekki nóg að hækka alltaf og hækka til bændanna, það fer að miklu leyti í kostnað. Aðalatriðið er, að búin séu rekin þannig, að um einhverjar nettótekjur sé að ræða. Ég játa það, að ég hef aldrei borið landbrh. það á brýn að vilja ekki bændum vel og hafa ekki unnið vel fyrir þeirra málstað. En hitt er annað mál, að mér virðast hans störf hafa miðað meira að því að fá sífelldar hækkanir en að gera reksturinn ódýran.

Sama er að segja um sjávarútveginn. Ef á að gera eitthvað raunhæft, á að reyna að lækka rekstrarkostnaðinn. Kemur þá margt til greina. Það eru nú t.d. ýmis útgjöld, ég tók sumt af þeim áðan. Ég get bent á fleira. T.d. nú er atvinnuleysistryggingasjóður orðinn 900 millj. Vextir af því eru sennilega, — ég veit ekki nákvæmlega, hverjir vextirnir eru, ætli þeir séu ekki 80–90 millj. á ári? Ríkissjóður leggur fram 79 millj. núna, bæjarfélög og atvinnufyrirtæki jafnmikið. Þarna er tekið af þjóðinni svona um 160 millj., sem er lagt í þennan sjóð, sem er alveg orðinn nógu stór, þó að maður bæti bara við vöxtunum, ef verðgildi peninganna héldist eitthvað svipað og það er, sem er aðalatriðið með svona sjóðssöfnun.

Það er ekki til neins fyrir okkur, sem erum í minni hl., að koma með brtt. viðvíkjandi fjárl., vegna þess að þetta er allt bundið í lögum. Það er ekki hægt, nema það sé meirihlutastjórn, sem getur framkvæmt löggjöfina um leið. Þó að ég vildi koma með brtt. t.d. um þetta, það væri ekki hægt, þetta er lögbundið. Það eru ýmsir, sem liggja okkur á hálsi fyrir það, að við komum ekki með brtt. til lækkunar á fjárl., en það er bara yfirleitt ekki hægt fyrir minni hl., vegna þess að þetta er yfirleitt bundið í lögum, nema verklegar framkvæmdir, sem sízt eru í mörgum tilfellum of miklar.

Það má líka leita að ýmsum leiðum. Við getum tekið rafmagnið til frystihúsanna. Það er ekki athugað nógu vel. Einn útgerðarmaður, sem rekur stórt frystihús hér í bænum, sagðist verða að borga 200 þús. á mánuði fyrir rafmagn. Ég veit, að úti á landsbyggðinni er þetta alveg gífurlegur liður. Væri ekki hægt að athuga þennan lið, ef hægt væri að gera það eitthvað ódýrara? Og svona er ótal margt fleira. Það þarf sem sagt að reyna að leita að hagkvæmari leiðum viðvíkjandi rekstrinum til að geta gert hann ódýrari.

Hv. 5. þm. Austf. talaði hér um sjávarútveg töluvert áðan. Hann var að tala um, að útgerðarmenn þyrftu 1 kr. meira, jafnvel 1.75 kr. meira fyrir fiskinn. Vitanlega er alltaf hægt að gera svona kröfur. Satt að segja hefur það nú alltaf gengið þannig, að útgerðarmenn hafa sagt, að ekki bæri sig framleiðslan hjá þeim. Og það er ekkert nýtt. En ég hygg, að núna sé aðstaðan töluvert erfið fyrir þá samt sem áður. Ég hef heyrt, að þeir hafi áætlað sjálfir, að þeir muni þurfa um 500 millj. í aðstoð. Ég reikna nú tæpast með því, að það þurfi, en vafalaust eitthvað, nema hægt sé að gera reksturinn ódýrari. Þá þurfum við bara að reyna að leita að öllum mögulegum leiðum til að lækka þennan kostnað, því að það gefur auga leið, að ef þarf að bæta upp sjávarafurðirnar um 500–600 millj. kr., er gengið ekki rétt skráð. Þá erum við komnir inn á sömu leiðina og var. Gengið var ekki rétt skráð 1959, og ég hef alltaf viðurkennt það og ég viðurkenni alltaf, að það var rétt að lækka það sem nam því að gera það rétt, því að það er óhyggilegt að búa við rangt gengi til lengdar. Hinu hef ég ekki trú á, að hæstv. forsrh. geti staðið við það, þó að hann lýsi því hér yfir áðan, og má vera, að hann hafi gert það alveg í fullri einlægni, að þeir, sem græddu á gengislækkuninni, skyldu borga, af því að það ei hreinlega ekki framkvæmanlegt. Krónan er fallin, þegar gengið er leiðrétt og það er ótalmargt, sem kemur inn í það, að það er útilokað að láta þá aðila borga, sem græða á gengislækkun, ef á að kalla það gróða. Það er hægt að reyna það á einhvern hátt, en það mun ævinlega verða sú útkoman, að það er óframkvæmanlegt. Yfirleitt er gengi ekki fellt nema út úr ýtrustu nauðsyn. Hitt skil ég vel, að það gerir engin stjórn fyrir kosningar að fara að segja það, að gengið muni verða fellt eftir kosningarnar. Það er bara mannlegt og eðlilegt. Ég vona, að það verði ekki. Ég vona, að það verði teknar þær leiðir, sem skynsamlegri eru. Það er að reyna að reka atvinnuvegina af meiri hagkvæmni, svo að það þurfi ekki að fella gengið. En það út af fyrir sig, þó að ríkisstj. sé gefin einhver heimild til þess að stöðva verðlag hvar sem er, leysir ekki vandann, alveg eins og hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Austf., tók fram, af því að við erum þegar komnir lengra en það. Viss hluti af sjávarútveginum er hættur að bera sig.

Svo er eitt viðvíkjandi sjávarútveginum. Það er ekkert vit annað en að reyna að skipuleggja rekstur frystihúsanna betur en gert er, bæði að þau séu rekin af meiri hagkvæmni og ef um takmarkað hráefni er að ræða, að starfrækja þá ekki öll húsin. Það er þá miklu betra að reyna að styrkja þau, þannig að það sé ekki gengið að þeim, sem er lokað í bili, því að starfræksla hvers frystihúss kostar stórfé. Það er svo ótal margt í kringum það. Og í smákauptúnum, þar sem eru kannske tvö frystihús að vinna úr aflaverðmæti, sem eitt getur leikið sér að, það er náttúrlega að kasta verðmætum á glæ, og því ættu útgerðarmennirnir ekki síður að hafa áhuga á, að fiskvinnslustöðvarnar séu reknar með hagkvæmni, vegna þess að eftir því sem þær eru verr reknar, eftir því verður fiskverðið lægra og erfiðara að fá það innheimt, sem er ekkert aukaatriði.

Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta miklu lengur. En ég sé ekki, að það sé nein ástæða til þess að deila á okkur fyrir það, þó að við förum hér upp og ræðum málefnalega um þetta mál, eða kalla okkur trúða af þeim sökum, vegna þess að þetta er í raun og veru stórmál, og ég kom hér upp til að gera grein fyrir minni afstöðu. Ég vil á engan hátt spilla fyrir, að þetta geti orðið að sem allra mestu gagni, þetta frv. ríkisstj., og skal ekki gera það, hvorki í orði né verki, en það er mín skoðun, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, sé ekki nema nokkurs konar leiksýning. Ég vona, að það verði gerðar raunhæfari aðgerðir, ríkisstj. geri það og á e.t.v. hægara með það núna en hún hefur oft átt áður, og ég vona, að það verði gert, og það er eina ráðið til þess að hindra það, að verðbólgan haldi áfram. En þetta frv. getur ekki skapað nein tímamót í verðbólgumálum, það er alveg útilokað. Það verður að gera eitthvað róttækara og meira. Vera má, að það verði gert, og ég sé ekki, að það sé neitt við það að athuga, þó að við segjum okkar skoðun, og sé óþarfi að deila á okkur sérstaklega fyrir það að segja okkar skoðun á hlutunum og allra sízt, eins og ég hef nú reynt, að benda é viss atriði, sem ég held, að væri hægt að gera, sem einmitt miðuðu að því að hindra það, að verðbólgan yrði meiri en hún er núna, og jafnvel væri hægt að lækka. Ef hægt væri t.d. að lækka verðlagið í landinu, þá lækkaði kaupið, þá lækkuðu öll útgjöld ríkissjóðsins. Svo er það mál fyrir sig, að ég álít, að það væri hægt að gera margt viðvíkjandi fjármélum þjóðarinnar, sem gæti verið til bóta, og það þyrfti stórrar endurskoðunar, en eins og ég tók fram áðan, getur minni hl. ekki gert það, vegna þess að það þarf að breyta lögum í flestöllum tilfellum. Þó að við færum að koma með einhverjar brtt., yrði það í flestum tilfellum ekki í samræmi við lög, þannig að það er ekki hægt með réttu að deila á okkur, þó að við gerum það ekki. Það eina, sem við getum gert, er að halda ræður og benda á, hvað hægt væri að gera.