12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

74. mál, verðstöðvun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég ætlaði einmitt að beina því til flm. till., hvort það væri ekki rétt að bera þessa till. undir n. Meiningin var nú, að það færi ekki atkvgr. hér fram fyrr en á morgun af sérstökum ástæðum, og ég mundi telja, að það væri rétt, að þetta tilvik væri nánar skýrt fyrir n. og lögfróðir menn fengnir til að athuga, hvort þetta ákvæði stenzt eða með hverjum hætti hægt sé að gera það þannig úr garði, að það verði talið í lögformlegu horfi. Þá mundi ég efnislega ekki hafa á móti því, ef það er talið hægt að takmarka það svo, að ekki verði úr því endalaus eltingarleikur, sem ég geri mér ekki grein fyrir á þessu stigi, hvort unnt er að gera. En mér finnst, að það þurfi að athuga þetta tilvik, sem hv. tillögumaður talar um, og fá lærða lagasmiði til að athuga, hvort hægt sé að fella þetta allt saman. Út úr hinu, sem hann spurði um varðandi það, sem Vísir segir, er það auðvitað, ef það er svo, að ekki hafi verið tekið gjald fyrir þessa þjónustu hingað til, er tvímælalaust óheimilt að taka það, eftir að heimild laganna er beitt.