21.02.1967
Neðri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr: og félmn. hefur haft til athugunar frv. það til l., sem hér liggur fyrir um breytingu á tekjustofnalögum sveitarfélaganna, en frv. er fram borið til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 13. maí 1966. Við 1. umr. kom fram brtt. frá tveimur hv. þm., þeim Skúla Guðmundssyni, 1. þm. Norðurl. v., og Sigurði Ágústssyni, 2. þm. Vesturl. Hljóðar brtt. þeirra svo með leyfi forseta:

„Við frv. bætist svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði: Fyrir reglulegt Alþ. 1967 skal ríkisstj. undirbúa þær breytingar á lögum, að aðstöðugjöld samkv. III. kafla verði lögð á eftir sama gjaldstiga í öllum sveitarfélögum og að heimild til hækkunar á útsvörum verði takmörkuð verulega frá því, sem er í 2. mgr. 34. gr.

Frv. ásamt fram kominni brtt. var sent til umsagnar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og hefur umsögn þess nýlega borizt og er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Á fundi sínum hinn 23. þ.m. tók stjórnin erindi yðar til fullnaðarafgreiðslu og gerði um það svofellda bókun:

Lagt fram að nýju bréf heilbr: og félmn. Nd. Alþ., dags. 29. nóv. s.l., þar sem stjórnin er beðin að veita umsögn um frv. til l. nr. 67 21. maí 1965, um breyt. á l. nr. 51 10. júní 1964, um tekjustofnalögin. Frv. er til staðfestingar brbl. Stjórnin er meðmælt frv. Enn fremur er óskað umsagnar um brtt. við frv. frá Skúla Guðmundssyni og Sigurði Ágústssyni á þskj. 80 um samræmingu aðstöðugjalda o.fl. Stjórnin telur ekki ástæðu til að skerða það frelsi, sem sveitarfélögin hafa að lögum í þessum efnum, og getur því ekki mælt með brtt. þm.

Heilbr.- og félmn. varð sammála um að mæla með frv., en hins vegar ekki með fram kominni brtt., en einstakir nm. áskildu sér þó rétt til þess að fylgja fram kominni brtt. og þeim brtt. öðrum, sem kynnu fram að koma.