09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er nú þarflaust út af fyrir sig að vera að efna til mikilla umr. um þetta mál. Það liggur tiltölulega einfalt fyrir. Ég harma það, að hv. 5. þm. Reykv. getur ekki fallizt á að draga till. sína aftur, og hlýt af þeirri ástæðu að leggja áherzlu á að hv. þd. felli hana, ekki vegna þess að hún eigi ekki að mörgu leyti við rök að styðjast, en hún á ekki við nægileg rök að styðjast til þess að verða samþ., vegna þess, eins og hér hefur verið bent á af ýmsum, að þá er ekkert sérstakt réttlæti í því að slá því föstu sem afdráttarlausri reglu, að allar bætur almannatrygginga og einnig fjölskyldubætur séu undanþegnar gjaldaálaginu. Það er ótvírætt mál og augljóst öllum, að í mörgum tilfellum getur verið um fólk að ræða, sem hefur minni tekjur. Það væri þá raunverulega aukinn gjaldþungi á því fólki, sem hlýtur að koma til, því að sveitarfélögin verða að sjálfsögðu að ná sínum tekjum, og eins og þau hafa sjálf bent á í sinni umsögn, telja þau varhugavert að gera slíka breytingu, án þess að málið sé athugað nánar, og það er í þeim anda, sem ég lagði til, að að þessu máli yrði unnið.

Til þess að forðast allan misskilning varðandi yfirlýsingu mína áðan, átti ég ekki við það, að þetta yrði látið bíða heildarendurskoðunar á tekjustofnamálum sveitarfélaga, heldur fól yfirlýsing mín í sér, að það yrði hlutazt til um, að þetta mál sérstaklega yrði athugað fyrir næsta þing. Og varðandi það að ætla t.d. að fara að gera nú veigamiklar breytingar á tekjustofnal., þá er vert að benda hv. þm. á, að samkv. verðstöðvunarlögum mega sveitarstjórnir ekki hækka álagningarstiga útsvara, þannig að ef kemur til nú veruleg breyting á hlutföllum varðandi tekjur manna eða það verða undanþegnar verulegar fjárhæðir frá því, sem áður var, hlýtur það að leiða til mikilla vandræða fyrir ýmis sveitarfélög.

Það eru því margar ástæður, sem valda því, að það er nauðsynlegt að skoða þetta mál nánar, og ég vænti þess, að hv. þd. geti því fallizt á, úr því að hv. flm. vill ekki ganga til móts við mínar óskir í þessu efni á þann veg, að málið verði tekið til sérstakrar meðferðar milli þinga, að fella þá þessa till. eins og hún liggur fyrir.