21.03.1967
Neðri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Sverrir Hermansson:

Herra forseti. Til viðbótar því, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði um þá ömurlegu staðreynd, að skipin héldu til útlanda til þess að fara í slipp og fá viðgerðir, vegna þess að það væri ódýrara, er því að bæta, að sú vinna, sem þar er innt af hendi, er yfirleitt miklu betri en sú, sem fæst hér.

Það voru nokkur atriði í ræðu hv. 5. þm. Austf. hér í gær, sem gerðu það óhjákvæmilegt fyrir mig að standa hér upp að nýju og fara þar um nokkrum orðum, án þess þó að ég vilji sérstaklega lengja þær umr., sem orðnar eru um málið, frá því, sem nú er. Þessi hv. þm., — mér þykir mjög leitt, að hann skuli ekki vera viðstaddur hér í dag, — sagði, að í tíð vinstri stjórnarinnar hefði verið lagður grundvöllur að þeirri nýsköpun í sjávarútvegi, sem við hefðum byggt á síðan. Hann sagði enn fremur, að í tíð vinstri stjórnarinnar hefði verið lagður grundvöllur að þeim síldariðnaði, sem byggt hefði verið á siðan. Það var mikið, að þessi hv. þm, sagði ekki og fullyrti, að sá fjárhagsgrundvöllur, sem við höfum búið við undanfarin ár, inn á við og út á við, — það var mikið, að hann fullyrti ekki, að hann hefði verið lagður og treystur í tíð þessarar makalausu stjórnar. Þetta hlýtur að hafa verið gleymska hjá þessum hv. þm., eða þessum mikla endurskoðunarsinna hefur þótt of skammt umliðið, síðan forsrh. vinstri stjórnarinnar gaf út sína uppgjafaryfirlýsingu, þannig að það væri nokkuð snemmt að koma með sögulega endurskoðun á þessu atriði nú þegar. En hvað skyldu útgerðarmenn, skipstjórnarmenn og sjómenn segja, þegar þeir fá að heyra þessa fullyrðingu þessa hv. þm.? Þeim er ekki of gott nú í þessari ótíð og aflaleysi að hafa eitthvað til þess að skemmta sér við.

En hvað segja tölulegar upplýsingar í þessu efni? Hv. þm. fullyrti, að það tæki 2–3 ár að byggja skip, frá því að um það væri samið. Staðreyndin er hins vegar sú, að þetta er nokkuð misjafnt, en þetta er yfirleitt frá 9 mánuðum upp í ár, upp í 11/2 ár í mesta lagi. Í upphafi vinstri stjórnarinnar, eins og ég gat um hér í gær, var fjöldi skipa yfir 100 smál. að stærð 50 og brúttórúmlestafjöldi 7829. Í lok stjórnartímabils vinstri stjórnarinnar hafði þessum skipum fækkað um 1 og rúmlestatala minnkað um nærfellt 300. Ef við gerum ráð fyrir, að um ár liði, frá því að samið sé um skip, þar til það verður skráð og hefur veiðar, skulum við gera ráð fyrir því, að skip, sem komu til landsins á árinu 1959, um þau hafi verið samið, sem líklegt er, í tíð vinstri stjórnarinnar. Í árslok 1959 hafði skipum fjölgað um 12. Þá voru þau 61 að tölu, skip yfir 100 rúml. að stærð, og rúmlestatala þeirra samtals 13845. Enn getum við sagt, að einhver hluti þeirra skipa, sem komu á árinu 1960, um þau hefði verið samið í tíð vinstri stjórnarinnar. Skip í árslok 1960, því fer fjarri, að um öll þau skip hafi þá verið samið. Árið 1960 voru þau orðin 86, þessi skip. En um síðustu áramót hefur þessum skipum fjölgað upp í 184 og rúmlestatalan nálæga þrefaldazt. Þetta eru óyggjandi tölur, sem hægt er að ganga úr skugga um, og þær sýna sannarlega ekki neinn sérstakan fjandskap núv. hæstv. ríkisstj. í garð þessa atvinnuvegar.

Þá er fullyrðing þessa hv. þm. um, að vinstri stjórnin hefði lagt grundvöll að þeim síldariðnaði, sem við búum við í dag. Við skulum athuga, hvernig þessum málum er háttað á Austfjörðum. Í árslok 1958 voru afköst síldarverksmiðja, svo að við tökum þær eingöngu, en sleppum öllum síldarsöltunarstöðvum, sem að meginhluta hafa verið byggðar síðan þetta var, þá voru afköst síldarverksmiðjanna 1190 lestir á sólarhring. Um síðustu áramót voru afköst síldarverksmiðjanna á Austurlandi 4315 lestir á sólarhring og aukningin því um 260% frá því, sem var um það leyti, sem vinstri stjórnin vék frá eða gafst upp öllu heldur. Fyrirsvarsmönnum vinstri stjórnarinnar tjóar ekki í neinu tilfelli að ætla að fara að halda því fram, að þeir hafi lagt drög að og verið búnir að semja um allan þennan aukna verksmiðjukost, sem síðan hefur risið.

Hv. 5. þm. Austf. hafði með framíköllum haldið því fram, að ábyrgðargjald vegna þeirra ábyrgða, sem bankar ganga í við töku erlendra lána, hefði ekki verið greitt í tíð vinstri stjórnarinnar, og mér heyrðist, að hv. 4, þm. Reykn. tæki undir það framíkall. Þetta er alrangt, þetta var auðvitað borgað þá. Ég hafði mínar upplýsingar frá ábyrgðadeild Útvegsbanka Íslands, og þetta ábyrgðargjald hefur verið borgað í áratugi. Hv. 5. þm. Austf. ætlaði síðan að snúa sig út úr þessu máli með því að segja, að engin erlend lán hefðu veríð tekin til skipakaupa, sem fram hefðu farið á tímabili vinstri stjórnarinnar. Ég hef engar upplýsingar um það, að svo hafi verið, en mjög ólíklegt þykir mér, að svo hafi ekki verið. Hann sagði, að hann hefði séð í reikningum einhvers skips, að allt að 500 þús. kr. hefðu runnið til þessa ábyrgðargjalds. Mér er næstum því að segja óskiljanlegt, hvernig hægt er að halda slíku fram eins og þessu. Ábyrgðargjaldið er 1%. Lántaka erlendis fer aldrei yfir 67% af heildarverði skips. Ef ábyrgðarþóknunin ætti að ná 500 þús. kr., þyrfti slíkt fiskiskip að kosta allt að 75 millj. kr. Ég gat a.m.k. ekki skilið hv. þm. á annan veg en þennan.

Þess vil ég geta hér, að ábyrgðarþóknun sú, sem norskir bankar taka vegna erlendrar ábyrgðar þar í landi, ábyrgðarþóknunin þar er 1.5% eða allverulega miklu hærri en hér tíðkast.

En þessi hv. þm. lét því alveg ósvarað, hvernig hann og á hvaða hátt hann hefði beitt sér fyrir því sem bankaráðsmaður í Útvegsbanka Íslands að fá þessu ábyrgðargjaldi breytt eða það afnumið. Því sleppti hann alveg, enda hefur enginn heyrt þar í þeim banka því nokkru sinni hreyft, að það stæði til.

Hv. 5. þm. Austf. hélt því fram, að starfandi togarar um s.l. áramót hefðu verið 16 að tölu. Loftur Bjarnason skýrir frá því í yfirlitsgrein um áramót, formaður Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, að skipin hafi verið 22. Þarna munar aðeins réttum tæpum 30% hjá þessum hv. þm., og má kannske eftir atvikum kalla vel sloppið. Hann hélt því fram og margítrekaði það, að erfiðleikar togaraútgerðarinnar stöfuðu ekki fyrst og fremst af aflaskorti, það væri fyrst og síðast fjandskapur ríkisstj. í garð þessa atvinnuvegar. En hvað segja skýrslur aftur á móti? Skýrslur segja, að á Íslandsmiðum hafi afli á tímabilinu frá 1958, frá því er hann setti sínar reglur um togveiði í íslenzkri landhelgi, frá því 1958 til 1964 hefur afli togara minnkað úr 16.6 lestum á veiðidag í 11.5 lestir eða um rétt 30%. Á Vestur-Grænlandsmiðum hins vegar hefur veiðidagsafli minnkað úr 26 lestum á veiðidag í 17.2 lestir eða um 34%, Það munar um minna en um og yfir 30% minni veiði á hvern veiðidag, eins og hér er greint frá. En þessi hv. þm. hélt því fram, að þetta skipti engu máli. Það, sem að væri, væri fjandskapur stjórnarflokkanna og hæstv. ríkisstj. í garð þessa atvinnuvegar.

Síðan ræddi þessi hv. þm. í löngu máli um það, sem ég hafði haldið fram í sambandi við rýmkanir veiðiheimilda innan landhelgi. Að vísu tók ég það mjög skýrt fram, að um slíkt gæti ekki verið að tefla, nema undir mjög auknu og ströngu vísindalegu eftirliti. Ég ætla í þessu tilefni að leyfa mér að vitna í Þjóðviljann, í þann mann, sem hefur þar með höndum að skrifa um fiskimál og heitir Jóhann J. E. Kúld. Hann segir svo, — og það, sem tilgreint verður hér, hrekur að flestu leyti það, sem hv. þm, hefur haldið fram í þessu efni, og ýmsar þær skoðanir, sem þar koma fram, mundi ég gjarnan vilja gera að mínum, — ég vil leyfa mér að vitna til þess arna í nokkrum greinum, með leyfi hæstv. forseta. Greinina, sem ég vitna til, er að finna í Þjóðviljanum, í málgagni hv. 5. þm. Austf., þriðjudaginn 25. okt., og nefndist „Hagnýting íslenzku landhelginnar og ímyndaðir stjórnmálahagsmunir“:

„Á undanförnum árum hef ég skrifað grein eftir grein, þar sem ég hef sýnt fram á það með rökum, að knýjandi nauðsyn sé á því að setja reglur um hagnýtingu íslenzkrar landhelgi, þar sem í það minnsta miðunum undan Suður- og Suðvesturlandi væri á vetrarvertíð skipt niður í veiðisvæði á milli veiðiaðferða. Ég hef ekkert farið dult með þá skoðun mína, að setja bæri reglur um togveiðar innan núverandi fiskveiðilögsögu sem og aðrar veiðar.“

Ég þarf ekki að taka það fram, að þetta eru ekki mín orð, þó að ég vilji gjarna gera þau að mínum, en þetta er orðrétt lesið upp úr Þjóðviljanum eftir sérfræðing hans í þessum málum, Jóhann J. E. Kúld. Hann heldur svo áfram, með leyfi forseta:

„Þar sem fjallað hefur verið um nauðsyn þessa máls, svo sem í útgerðarráði Bæjarútgerðar Reykjavíkur og á öðrum þeim stöðum, þaðan sem togveiðar eru stundaðar á landinu, veit ég ekki betur en fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum hafi verið sammála um, að ríkisstj. bæri að láta setja reglur um togveiðar á svæðinu innan 12 mílna landhelginnar. Hins vegar hefur dagblaðið Tíminn, ef marka má leiðara blaðsins 15. þ.m.,“ þ.e. októbermánaðar, — „og aftur í grein þann 16. þ. m. tekið afstöðu gegn togveiðum innan 12 mílna markanna. Ýmsir spyrja því í dag, hver sé afstaða Framsfl. til þessa máls. Er hún sú, sem fulltrúar flokksins hafa markað ásamt öðrum, eða er hún sú, sem Tíminn heldur nú fram, að ekkert eigi að gera í þessu máli og alls ekki að leyfa neinar veiðar með botnvörpu innan landhelgi, þar sem það mundi veikja okkar málstað til frekari sóknar á alþjóðavettvangi? Framsfl. mun fljótt reka sig á, að í þessu máli þýðir ekki að ætla sér að leika tveimur skjöldum eða tala eins og hver vill heyra. Ef menn vilja banna allar veiðar með togveiðifærum innan landhelginnar, verða menn líka að vera tilbúnir að segja, á hvaða hátt þeir vilja hagnýta landhelgissvæðið, þannig að fiskveiðar á svæðinu geti komið þjóðinni fyllilega að notum og séð fiskiðnaðarstöðvum fyrir hráefni meginhluta úr árinu.“

Og sérfræðingur Þjóðviljans heldur áfram, með leyfi hv. forseta: „Ég held, að þetta sé ekki framkvæmanlegt, nema togveiðar séu leyfðar að einhverju leyti innan þess landhelgissvæðis, sem við ráðum yfir. Mér er heldur ekki kunnugt um, að aðrar þjóðir, sem tekið hafa upp 12 mílna landhelgi, hafi byrjað á því að útiloka allar togveiðar eigin þegna, þótt þær hafi bannað veiðar erlendra skipa í landhelgi. Það er því mikill misskilningur hjá Tímanum, þegar hann heldur því fram, að það mundi veikja rétt okkar til frekari útfærslu, ef við settum nú reglur um togveiðar svo og aðrar veiðiaðferðir innan landhelginnar.“

Og hann spyr í fyrirsögn: „Til hvers færum við út landhelgina? Við gerum það vegna þess, að við álitum, að slíkt sé nauðsynlegt vegna okkar eigin fískveiða. Enn fremur lítum við svo á, að íslenzka þjóðin ein eigi réttinn til fiskveiða á miðunum umhverfis landið, að landgrunnið, sem fer hallandi út í djúpálana, sé hluti af landinu sjálfu, þótt þetta svæði sé sævi hulið. Þetta er alveg óviðkomandi því, hvaða veiðar við leyfum á því hafsvæði, sem við höfum helgað okkur. Það er okkar einkamál.“

Og enn segir hann, með leyfi forseta: „Togveiðar eru frekar ódýrar veiðar, en gefa hins vegar miklu betra og verðmætara hráefni en t.d. veiðar með þorskanetum. Nú er svo komið fyrir löngu og á allra vitorði, sem vilja vita, að togveiðar vélbátaflotans eru stundaðar í mjög stórum stíl innan landhelginnar, án þess að um þessar veiðar hafi verið settar nokkrar reglur eða þær leyfðar. Hér hefur skapazt óforsvaranlegt ástand, sem er hættulegt. Það er tvennt ólíkt að setja lög og reglur um togveiðar sem og aðrar veiðiaðferðir innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu og framfylgja síðan settum reglum. Það er annað að afmarka veiðisvæði og leyfa veiðar innan þessa afmarkaða svæðis en að banna allar togveiðar innan fiskveiðimarkanna, en láta síðan hvern veiða þar sem honum sýnist með botnvörpu þrátt fyrir gildandi lagaákvæði um algert bann, eins og nú hefur verið staðfest, að gert er frá einni allra stærstu fiskveiðistöð landsins.“

Hann segir hér og lýkur nú brátt tilvitnunum, með leyfi forseta: „Er hægt að tryggja áframhaldandi þróun fiskveiða án togveiða?“ spyr hann, sérfræðingur Þjóðviljans um fiskimál. „Okkur liggur meira á að svara þessari spurningu en geta okkur til um, hvernig útlendingum líki fiskveiðar Íslendinga á okkar eigin lögsögusvæði, því að það er algerlega okkar einkamál eða ætti í það minnsta að vera það. Hitt er aftur á móti rétt, að til þess að hljóta virðingu svo af þessu máli sem öðrum málum þurfum við að hafa til þess manndóm að skipa þeim einvörðungu út frá íslenzkum hagsmunum og það þótt útlendingum mundi líka önnur skipan betur. Það er nefnilega fyrst og fremst manndómur, sem þarf til þess að geta verið sjálfstæð þjóð.“

Ég vil svo að lokum vitna til eftirfarandi orða, með leyfi forseta: „Af þessum sökum,“ segir hann, „er ég ekki í nokkrum vafa um, að það sé beinlínis skylda okkar að tryggja áframhaldandi jákvæða þróun í íslenzkum fiskiðnaði, og það verður ekki gert, nema við höfum manndóm til þess að hagnýta þann möguleika íslenzkrar landhelgi, að við getum tryggt nægjanlegt aðstreymi af hráefni til fiskiðjuveranna meginhluta úr árinu. Þetta er kjarni málsins. Leiðin til þess að geta þetta er tvímælalaust skynsamleg hagnýting landhelginnar tryggð að lögum, þar sem togveiðar eru ekki frekar útilokaðar heldur en veiðar með þorskanet og þorsknót. Þarna verður að tryggja hverri veiðiaðferð ákveðinn rétt, um leið og settar verða reglur til tryggingar því, að miðin séu ekki eyðilögð.“

Svo mörg voru þau orð, og eins og ég sagði, vil ég að flestu leyti undir þau taka og gera þær skoðanir, sem þar fram koma, að mínum.