16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af því, sem hæstv. menntmrh. sagði. Við höfum áður deilt um þetta mál hér, og mér þykir mjög leitt, að hann skuli nú gefa þá yfirlýsingu, að það eigi að fara að setja n. til þess að athuga um breytingar á þessu máli. Ég álít, að það sé nauðsyn á því, að við séum ákaflega íhaldssamir í þessum málum. Ef við eigum einir allra þjóða í Evrópu að geta haldið við þá gömlu hefð, að menn kenni sig við feður sína eða mæður, þurfum við að gæta að okkur. Við tókum eftir því strax í kringum 1920, hvernig straumurinn var þá, að Íslendingar vildu sjálfir fá að breyta þarna um, og það var í raun og veru hreint happ, að Bjarni frá Vogi fékk því komið í gegn, þegar stjórn Jóns Magnússonar var mynduð, að gömlu lögin, sem ákváðu, að Íslendingar mættu taka sér ættarnafn, voru afnumin. Nú vita menn, að það hefur gengið ósköp erfiðlega að fá þau lög framkvæmd, sem þá voru samþ. En það var þá a.m.k. stöðvað, að fleiri Íslendingar færu að taka sér ættarnöfn.

Núna sækja 53 um íslenzkan ríkisborgararétt. Það er talað um, að það séu ýmsir fleiri, sem mundu vilja fá hann. Ég álít, að við eigum að segja alveg ákveðið: Það kostar þetta að fá að verða íslenzkur ríkisborgari, að menn taka upp þá hefð, sem hér hefur viðgengizt frá alda öðli. Við erum ekkert að amast við hinum, sem ekki kæra sig um að verða ríkisborgarar, þeir mega gjarnan fá að halda sínum nöfnum, skandinavískum eða hverjum sem er, og búa hér. En ef þeir ætla að gerast Íslendingar eða ef þeir ætla að gerast íslenzkir ríkisborgarar, kostar það þetta.

Núna koma hér menn alls staðar að úr heiminum, alla leið sunnan úr Afríku, og þeir ætla að fá að halda sínum ættarnöfnum hérna. Hvernig haldið þið, að það mundi verða í næstu kynslóðum, þegar við getum ekki einu sinni látið Íslendinga sjálfa breyta um sín ættarnöfn? Ætli þau mundu ekki haldast? Ætli það mundi ekki verða sami erfiði slagurinn, sem við höfum ekkert getað gert í í 40 ár? Við verðum að taka það hart á þessu frá upphafi að knýja menn til þess að breyta þarna um, þegar þeir verða ríkisborgarar. Við erum ekkert að biðja þá um það, þeir eru að sækjast eftir þessu. Annars stöndumst við ekki í þessari ásókn, sem hérna verður. Þess vegna held ég, að ég verði að gefa hæstv. menntmrh. það ráð að vera verulegur íhaldsmaður í þessum efnum og reyna að sjá um að bjarga þó því, sem hægt er að bjarga, en hleypa ekki nýjum straumi hér inn yfir okkur.