21.02.1967
Efri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

5. mál, fávitastofnanir

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Af tilefni þeirrar brtt., sem fram er komin, og ræðu hv. síðasta ræðumanns, 9, þm. Reykv., vil ég segja hér nokkur orð.

Ég hef leitað mér upplýsinga hjá formanni þeirrar nefndar, sem frv. samdi, einmitt varðandi þetta atriði. Mér er tjáð, að það hafi verið af ráðnum hug, að n. leggur ekki til, að lögfestar verði menntunarkröfur að því er snertir forstöðumann og yfirlækni, því að, eins og hv. þm. sjá, eru í 2. mgr. 1. gr., þar sem ræðir um yfirlækni, ekki gerðar neinar kröfur um sérmenntun umfram læknismenntun. Mun n. hafa haft þetta þannig vegna þess, að hún taldi, að það gæti orðið til óþæginda að binda ráðningu um of við menntunarkröfur, þar sem ekki væri víst nema heppilegustu einstaklingar, sem völ væri á á hverjum tíma í þessa stöðu, útilokuðust vegna lögákveðinna krafna um menntunarskilyrði. Þó að ekki sé að vísu gert ráð fyrir því í frv., er vel líklegt, að því er formaður n. hefur tjáð mér, að að því gæti rekið, að það yrði talið ákjósanlegt, að yfirlæknir aðalhælisins yrði jafnframt forstöðumaður, að sjálfsögðu þá með auknu starfsliði vegna forstöðumannsstarfsins, og yrði þá að sjálfsögðu ekki um að ræða kröfur um sérmenntun í uppeldismálum. Einnig gæti mjög komið til greina, eins og hv. 9. þm. Reykv. vék að í sinni ræðu, að forstöðumaður yrði valinn með tilliti til menntunar og kunnáttu í hagrænum rekstri stofnana. Þá taldi og n., að með tillögurétti landlæknis væri fengin veruleg trygging fyrir því, að hæfir einstaklingar veldust í starfið á hverjum tíma.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að forstöðumanni eru skv. frv. falin mikil ábyrgðarstörf, en ég ætla, að ákvæði frv. varðandi aðalhælið verði yfirleitt að skoðast í ljósi þess, að þarna sé um að ræða samstarf þeirra sérfræðinga, sem við stofnunina starfa, og hlytu því ákvarðanir og niðurstöður að byggjast á áliti þessa samstarfshóps sérfróðra aðila, þó að forstöðumanninum, sem er stjórnandi hins daglega reksturs á hælinu og ber á því aðalábyrgð, sé í frv. falið að kveða upp úr um ýmis atriði, sem um ræðir t.d. í 11. gr., eins og hv. þm. benti á. Þar segir, að umsóknir um hælisvist, sem allar eiga að berast aðalfávitahælinu, skuli úrskurðast af forstöðumanni, hann skuli úrskurða á hvaða stofnun skuli vista umsækjanda að undangenginni fullnægjandi rannsókn, eins og þar segir. Ég vil benda á það, að rannsókn á umsækjendum hlýtur að þurfa að vera svo margþætt, að það er varla hugsanlegt, að einn og sami aðili geti framkvæmt hana að öllu leyti. En að sjálfsögðu verður forstöðumaður í þessu tilviki að byggja á umsögn og niðurstöðum sérfræðinganna. Ég verð nú að segja t.d. í þessu tilviki, að ég sé ekki, að forstöðumaður yrði miklu færari til en aðrir að úrskurða þetta atriði, þó að hann hefði t.d. kennarapróf.

Varðandi hitt atriðið, sem hv. þm. vék að, að forstöðumanni er skv. 15. gr. frv. ætlað að vera skólastjóri þess skóla, sem rekinn er við hælið til þess að sérmennta fólk til fávitagæzlu, held ég nú, að það beri nánast að líta á skólastjóra þessarar stofnunar sem framkvæmdastjóra, en ekki sem skólastjóra í venjulegum skilningi þess orðs. Það er beint tekið fram, að hann skuli undanþeginn kennsluskyldu og honum ekki ætlað að hafa með höndum neina kennslu í skólanum. Ég geri ráð fyrir, að hið sérmenntaða starfslið stofnunarinnar muni að verulegu leyti annast kennsluna hver í sinni grein, en þarna er um að ræða mjög litla skólastofnun með algerlega sérhæft nám. Í 15. gr. er sagt, að um stjórn skólans, námsefni, prófkröfur og annað, sem varðar starfsemina, skuli ákveðið í reglugerð. Ég sé nú ekki, að það ætti að vera bein nauðsyn, að sá maður, sem gegnir skólastjórastarfinu, hafi menntun á sviði uppeldismála eða sé reyndar sérfróður um uppeldismál, sem er nú auðvitað býsna fljótandi hugtak. Það má í þessu sambandi t.d. benda á annan sérskóla með algerlega sérhæft nám, þar sem er ljósmæðraskólinn. Ég ætla, að yfirlæknir fæðingardeildarinnar sé skólastjóri þess skóla, og að sjálfsögðu er hann ekki sérmenntaður um uppeldismál. Munu menn þó telja, að sú skipan, sem þar er höfð á, megi í alla staði teljast eðlileg, þó að e.t.v. væri hægt að hugsa sér að skipa því á annan veg.

Ég sé nú ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa brtt. En með tilliti til þeirra upplýsinga, sem ég hef fengið frá formanni þeirrar n., sem frv. samdi, og röksemda hans fyrir því, að ekki eru gerðar ákveðnar menntunarkröfur til forstöðumanns og yfirlæknis, get ég ekki fallizt á brtt. og mun greiða atkv. gegn henni.