27.02.1967
Neðri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu á málinu. Ég er ekkert sannfærður um, að brtt. hv. n. séu til bóta. En þær eru alls ekki til hins verra, e.t.v. til nokkurra bóta, og þess vegna get ég fallizt á þær.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) vill, að þetta frv. verði sent búnaðarþingi til umsagnar. Að sjálfsögðu getur búnaðarþing sagt sitt álit á þessu máli, og mér er sagt, að það sé ákveðið í að gera það, og að sjálfsögðu munum við heyra, hvað hv. búnaðarþing hefur um málið að segja, en ég tel enga ástæðu til þess að tefja málið í þessari hv. d., enda þótt við viljum hlusta á búnaðarþing, því að jafnvel þótt til þess kæmi, að fallizt væri á einhverja breyt. á frv. eftir ábendingu búnaðarþings, eftir að málið væri komið í hv. Ed., hefur nú annað eins skeð og það, að mál færi einu sinni á milli deilda. Ég mun þess vegna leggja áherzlu á, að málið verði látið ganga áfram, um leið og sjálfsagt er að hlusta á, hvað búnaðarþing segir í þessu máli.

Formaður Búnaðarfélags Íslands taldi í sinni setningarræðu, þegar búnaðarþing var sett, að frv. væri gallað, en fagnaði eigi að síður tilkomu þess. Formaðurinn fór ekkert út í það nánar í hverju gallarnir væru fólgnir, og má það teljast eðlilegt, því að tími hans var vitanlega takmarkaður þar. Hins vegar er það ekki alveg rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að Búnaðarfélagið hefði ekkert með þetta mál haft að gera. Ég man ekki betur en varastjórnarmaður Búnaðarfélags Íslands hafi tekið þátt í að semja þetta frv. ásamt formanni Stéttarsambands bænda. En um það ætla ég ekkert að ræða. Ég vil segja það, að ég vil hlusta á, hvað búnaðarþingsmenn og búnaðarþing hefur út á þetta mál að setja, en ég vil, að málið verði eigi að síður látið ganga áfram tafarlaust til hv. Ed.