05.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þetta verða aðeins fáein orð. Hæstv. ráðh. telur, að hið nýja fasteignamat verði svo hátt, að hér muni bændur fá mjög viðunandi verð fyrir jarðir sínar. Í hverju liggur það, að þetta væntanlega fasteignamat verði svo hátt, umfram það, sem verðgildi peninganna hefur rýrnað? Í l. nr. 70 frá 1945 um fasteignamat eru fyrirmæli um það, hvernig skuli meta jarðir, og það er grundvöllurinn að því fasteignamati, sem nú er á jörðum. Þar segir, að fasteign skuli metin sanngjörnu söluverði, m.ö.o. það er þetta gangverð. Þannig var mælt fyrir í l., sem núverandi fasteignamat er byggt á. En auk þess skal hafa hliðsjón af tekjum af fasteign, leigumála, söluverði nágrannafasteigna, virðingum til lántöku og brunabóta. Svona voru l., sem núverandi fasteignamat er byggt á. En l., sem nú eru í gildi og hið væntanlega fasteignamat á að byggjast á, sem hæstv. ráðh. telur að muni verða svona hátt? Þar segir: Mat á fasteignum skal miða við það gangverð, sem líklegt er að þær myndu hafa í kaupum og sölu: Gangverð. M.ö.o. alveg það sama og stendur í frv. Það er gangverð þessara jarða, gangverð óseljanlegra eyðijarða, sem er höfuðreglan. Svo á að hafa til hliðsjónar, segir í þessum l., sem gilda fyrir væntanlegt fasteignamat, upplýsingar um kostnaðarverð mannvirkja, virðingar í fasteign til lántöku, virðingar á mannvirkjum til brunabóta o.s.frv. Þetta eru hér um bil nákvæmlega sömu fyrirmælin í hvorum tveggja l.

Ég get þess vegna ekki séð á hverju það er byggt, að væntanlegt fasteignamat verði miklu hærra en áður, að óbreyttum gæðum jarðanna, nema þá sem nemur rýrnun peningaverðs. Af þessu dreg ég þá ályktun, að fasteignamat á eyðijörðum geti aldrei orðið ýkja mikið hærra. Það getur vel verið, að það verði 50% hærra en það er núna, kannske 100%, en hverju ætli þeir væru nú bættari, þessir bændur í sveitarfélaginu, sem ég nefndi um daginn, þar sem meðalfasteignamatið er tæpar 6 þús. kr. á jörð á einum 14 jörðum í einum hreppi, þó að það tvöfaldaðist? Við skulum hugsa okkur það. Það er þó búið á þessum jörðum núna, en ef þær færu nú í eyði og bændurnir vildu fá eitthvað fyrir jarðirnar um leið og þeir verða að neyðast til að hverfa frá búskap, bjóða þeir Jarðeignasjóði ríkisins jarðirnar. Og þá segir hann: Jú, ég er til með að kaupa, en ekki hærra verði en þessi jörð myndi nú verða seld á frjálsum markaði og það er núll, og í öðru lagi aldrei fyrir ofan fasteignamat og fasteignamatið á að fara eftir þessu gangverði. Hvað kemur út úr þessu fyrir aumingja mennina? Ég held, að ég mundi bara alls ekki reyna að selja jarðirnar með þessum kjörum. Ég væri jafnefnaður hér um bil eftir sem áður, og nú segir hæstv. ráðh.: Þetta er ekki kjarni þessa máls. Hvað er þá kjarni þessa frv., ef ekki það, að bændur hafi eitthvert gagn af því? Og þetta frv. snýst aðallega um eyðijarðirnar, því að það þarf ekki að bjóða Jarðeignasjóði jarðir, sem seljast á annað borð á frjálsum markaði. Þær mundu þá seljast hærra en fasteignamatsverð og kæmu ekki til greina. Það fer enginn að bjóða Jarðeignasjóði jörðina sína, ef hann getur selt hana á frjálsum markaði fyrir sæmilegt verð, því að Jarðeignasjóðurinn mundi ekki kaupa hana fyrir það verð. Nei, þetta er einmitt kjarni frv. Þetta snýst fyrst og fremst um eyðijarðir og ennþá hefur hæstv. ráðh. engu svarað um það, hvað verður um jarðirnar, ef á þeim hvílir eitthvað hærra lán en fasteignamatsverðið er. Hann hefur engu svarað þessu enn og ég skil það mjög vel. Hann sér það alveg eins vel og ég, að þær koma ekki til greina, Jarðeignasjóður kaupir enga slíka jörð, og þá er nú komið skarð í frv. að mínum dómi.