18.10.1966
Sameinað þing: 4. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1967

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar 1. umr. um frv. til fjárlaga fer fram að þessu sinni, eru nærri 7 ár liðin frá því, er núverandi stjórnarflokkar tóku upp það nýja efnahagskerfi, sem þjóðin hefur búið við síðan og er að koma framleiðsluatvinnuvegunum í þrot eftir samfellt góðæri og aflahlaup allan þennan tíma. Þegar stjórnarflokkarnir framkvæmdu þær stórfelldu breytingar á efnahagskerfinu, gáfu þeir þjóðinni fögur fyrirheit um stöðvun verðbólgunnar, og því var lýst sem einu höfuðverkefni ríkisstj. að koma atvinnuvegunum á traustan og heilbrigðan grundvöll. Og þá var enn fremur gefið veigamikið loforð um verðlagsmál, sem vert er fyrir almenning að rifja upp nú. Það hljóðaði svo orðrétt í grg. ríkisstj. með frv. um efnahagsmálin:

Ríkisstj. telur, að með þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem þetta frv. felur í sér, muni nýtt viðhorf skapast. Útflytjendur verða framvegis að sæta ríkjandi gengi og geta ekki fengið aukinn launakostnað endurgreiddan í hækkuðum útflutningsbótum. Þá er það einnig ætlun ríkisstj. að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana. Með þessu móti getur því aðeins skapazt grundvöllur fyrir launahækkunum, að um sé að ræða aukningu framleiðslutekna, sem launþegi njóti góðs af fyrir sitt leyti í hækkuðu kaupi. Það er líka aðeins með þessu móti, sem launahækkanir geta orðið launþegum til raunverulegra hagsbóta.“

Og þáverandi hæstv. forsrh, tók svo til orða um þetta atriði í framsöguræðu fyrir frv.: „Það er þess vegna meginstefna ríkisstj. að beita sér fyrir því, að almennt kaupgjald verði óbreytt, þangað til aukin framleiðsla og bætt afkoma atvinnuveganna gerir það kleift að hækka laun, án þess að því fylgi verðhækkanir.“

Og enn fremur sagði hann: „Atvinnurekendurnir verða sjálfir að taka ábyrgðina á rekstri fyrirtækja sinna og telji þeir sig geta fallizt á kauphækkun, verða þeir sjálfir að geta greitt hana af afrakstri fyrirtækja sinna án hækkunar verðlags.“

Þetta voru loforðin, þegar verið var að hrinda af stað þeirri stjórnarstefnu, sem eftir lengsta samfellt góðæri í sögu þjóðarinnar, að því er varðar aflamagn og viðskiptakjör, er að koma veigamiklum þáttum undirstöðuatvinnuveganna í þrot og hefur haft af verkamönnum allan þeirra hlut af auknum þjóðartekjum, svo að kaupmáttur tímakaups þeirra er lægri í dag eftir allt góðærið og uppgripaaflann en hann var 1959 eftir 15 ára samfellt síldarleysistímabil. Þetta hafa ríkisstjórnarflokkarnir m.a. gert með því að svíkja frá upphafi það fyrirheit sitt að tryggja, að launahækkunum yrði ekki mætt með verðhækkunum. Þeir hafa þess í stað afnumið svo til með öllu allt verðlagseftirlit og gefið þannig lausan tauminn í verðlagsmálum. Þótt fyrir hendi hafi verið á þessu tímabili einmitt þær aðstæður, sem stjórnarflokkarnir hafa talið nauðsynlegan grundvöll, til þess að um raunhæfar kauphækkanir ætti að vera að ræða, þ.e.a.s. aukna þjóðarframleiðslu, auknar þjóðartekjur, hefur ríkisstj. með stefnu sinni séð til þess, að kauphækkanirnar væru hirtar aftur með verðlagshækkunum.

Fulltrúar Alþb. héldu því fram þegar í upphafi, að ráðstafanir ríkisstj. mundu stórlega skerða hlut almennings með stórfelldri gengislækkun og þeim grundvallarbreytingum á skattheimtu að lækka þá skatta, sem miðast við launatekjur manna og eigur, en taka margfalt hærri upphæð í ríkissjóð í staðinn með sköttum á algengustu neyzluvörum, eftir þeirri reglu, að stærstu fjölskyldurnar greiða mest, auk þess mundu þessar ráðstafanir síður en svo tryggja jafnvægi í efnahagskerfinu, heldur auka verðbólguna og kippa grunninum undan rekstri sjávarútvegsins. Allt er þetta nú að koma á daginn. En það er engu líkara en forkólfar viðreisnarstefnunnar hafi trúað því sjálfir, að þær beinu verðbólguráðstafanir, sem þeir voru að framkvæma, yrðu til þess að skapa efnahagslegt jafnvægi, sem m.a. mundi koma fram í því á næstu árum eftir höfuðaðgerðirnar í efnahagsmálunum, að tekjur ríkissjóðs, álögur á almenning, þyrftu ekki að hækka sem neinu næmi ár frá ári, og hæstv. núv. fjmrh. sagði við afgreiðslu fjárl. 1961, en hann var þá form. fjvn., þegar hann var að mála upp glansmyndina af væntanlegu viðreisnartímabili efnahagslegs jafnvægis, - hann sagði:

„Jafnvægi í efnahagskerfinu innanlands og viðskiptum við útlönd mun skerða mjög hina óeðlilegu árlegu aukningu ríkistekna undanfarin ár, og tekjuaukning ríkissjóðs hlýtur því á næstunni að ákvarðast af aukningu þjóðartekna og þjóðarframleiðslu.“

Þegar viðreisnarstjórnin framkvæmdi höfuðaðgerðina í efnahagsmálum þjóðarinnar með stórfelldri gengislækkun, stórhækkun söluskatts og öðrum afdrifaríkum ákvörðunum, ollu þær ráðstafanir hækkun á fjárlögum ársins 1960 um 350 millj. kr., en þar með áttu slíkar hækkanir frá ári til árs að verða úr sögunni og viðreisnarstefnan að tryggja, að eftirleiðis breyttist upphæð skatta og tolla aðeins í samræmi við breytingu á þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu. En hver hefur reynslan orðið? Hvernig hefur staðizt sú framtíðarmynd, sem hæstv. núv. fjmrh. dró upp í upphafi viðreisnarinnar? Hver hefur reyndin orðið? Hún hefur orðið sú, að niðurstöðutölur fjárlaga voru árið 1960 500 millj. kr., en þess frv., sem hér liggur fyrir, 4652 millj. kr., og eiga þó án efa eftir að hækka enn í meðförum Alþingis, þ.e.a.s. hækkunin nemur a.m.k. yfir 200%. Áætlað er, að þær tekjur, sem ríkissjóður innheimtir af landsmönnum á næsta ári, hækki um ríflega 850 millj. kr. frá núgildandi fjárlögum, — 850 millj. kr. hækkun á einu ári eða hækkun sem svarar til 4500 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Þessi hækkun á álögum á landsmenn á næsta ári er á annað hundrað millj. kr. meiri en öll útsvör og aðstöðugjöld í Reykjavík á þessu ári. Og um leið og þetta plagg er lagt fyrir á hv. Alþingi, segir hæstv. forsrh.: „Nú ríður á, að verkafólk hækki ekki kaupið.“ Það gildir nefnilega áfram regla viðreisnarstjórnarinnar: „Allt má hækka nema kaupið.“

Það er því önnur mynd, sem blasir við nú, þegar fjárlög eru afgreidd, og hefur blasað við undanfarin ár, en sú, sem hæstv. núv. fjmrh. og félagar hans voru að reyna að mála upp fyrir þjóðinni í upphafi viðreisnarstefnunnar. Að sjálfsögðu hefur reynslan sýnt, að ríkisstj. hefur mistekizt að stöðva verðbólguna með ráðstöfunum, sem hafa verið hreinar verðbólguráðstafanir: gengislækkanir, vaxtahækkanir, söluskattshækkanir og afnám verðlagshafta, enda hefur þessi stefna ríkisstj. valdið slíkri óðaverðbólgu, að hækkun á fjárlögum það ár, sem stjórnarflokkarnir voru að framkvæma sjálfar höfuðbreytingarnar á efnahagskerfinu, og átti að vera hækkun í eitt skipti fyrir öll, hækkun, sem tryggði framtíðarjafnvægi, — sú hækkun, þegar sjálf aðgerðin var framkvæmd, er ekki nema brot af árlegum hækkunum fjárlaga, eftir að viðreisnarkerfið var farið að verka í efnahagslífinu. Hið normala ástand undir viðreisnarstjórn, þegar engar slíkar stóraðgerðir, sem raska öllum tölum, eru framkvæmdar, veldur þannig meiri þenslu, en jafnvel sjálf grundvallarbreytingin í upphafi. Það liggur því ljóst fyrir, hvaða afleiðingar þær ráðstafanir, sem viðreisnarstjórnin hefur staðið að, hafa haft á ríkisbúskapinn og atvinnulífið í landinu.

Fjárlagafrv. fyrir næsta ár mótast af þeirri stefnu, sem átti að koma í veg fyrir árlega útgjaldaaukningu ríkissjóðs, og er meira en 2000 millj. kr. hærra en það fjárlagafrv, var, sem verið var að afgreiða, þegar núv. hæstv. fjmrh. var að lýsa því fyrir þjóðinni, hve glæsilegt jafnvægistímabil væri fram undan í efnahagslífinu, eftir að alþýðan hefði tekið á sig þær byrðar, sem ríkisstj. var þá að spenna á bök hennar. Í fjárlagaræðu sinni þá eyddi þáv. fjmrh.,. Gunnar Thoroddsen, verulegum hluta af ræðutíma sínum til þess að boða þjóðinni stórfelldan sparnað á einstökum rekstrarliðum fjárlagafrv., en hæstv. núv. fjmrh. ætlar sýnilega ekki að brenna sig á sama soðinu, og hefur hann þá eflaust í huga örlög sparnaðarfyrirheitanna og fyrirrennara síns, því að hvort tveggja hvarf af sviðinu, efndirnar á fyrirheitunum og höfundur þeirra, og þess vegna ráðlegast að lofa sem minnstum sparnaði á einstökum greinum nú. Hins vegar halda þeir liðir áfram að hækka, sem mestum sparnaði var lofað á.

Kostnað við ríkisskattanefnd og skattstofur átti t.d. að lækka með afnámi skattanefnda, en tilkomu nýrra skattstjóraembætta í hverju skattumdæmi. En þrátt fyrir öll fyrirheitin hefur kostnaður verið áætlaður í fjárlögum 1963 8.5 millj., 1964 15.5 millj., 1965 21 millj., 1966 27.5 millj., og á fjárlagafrv. fyrir næsta ár, sem lagt er fram með yfirlýsingu um, að nú þurfi að stöðva allar hækkanir, fer kostnaðurinn úr 27.5 millj. núna í 35.5 millj., eða nálega 340% hækkun á 4 árum. Venjulegur skrifstofukostnaður hefur venjulega verið ráðgerður sem nemur 20–25% hærri en í gildandi fjárlögum, segir í athugasemdum við frv. Ferðakostnaður innanlands hefur á hinn bóginn hækkað nokkuð meir, eða um 25–30%, segir enn fremur í sömu athugasemdum. Útgjöld borgardómaraembættisins í Reykjavík eru áætluð 41.5% hærri en á núgildandi fjárlögum, hækkun um tæpar 2 millj. kr. á ári. Kostnaður við borgarfógetaembættið hækkaði um 37.6% á einu ári, kostnaður við saksóknaraembættið 29.7%. Kostnaður við lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli hækkar um ríflega 40%. Það er ekki furða, þótt hæstv. forsrh. tali um, að verkafólk ætti nú að hafa vit á því að stöðva hækkanir á launum sínum. Allt má auðsýnilega hækka nema kaupið. Fjárveiting almannavarna hækkar um 46.6%, rekstrarkostnaður tollstjóraembættisins um 36.1% eða tæplega 4 millj. kr. á einu ári. Kostnaður við tollgæzlu utan Reykjavíkur hækkar um 53.6%. Þetta eru dæmi um nokkra rekstrarliðina. Hins vegar eru framlög til hafnarmála, skólabygginga, sjúkrahúsbygginga og annarra verklegra framkvæmda óbreytt að krónutölu, sem þýðir að sjálfsögðu beinan samdrátt í framkvæmdum, og bætist það ofan á 20% beinan niðurskurð, sem ríkisstj. hefur áður framkvæmt.

Að þessu leyti er fjárlagafrv. sama marki brennt nú og undanfarin ár: stórfelldar hækkanir á rekstrarliðum, en árlegur samdráttur í nauðsynlegustu verklegum framkvæmdum. Afleiðingunum af verðbólgustefnu sinni hefur ríkisstj. annars vegar mætt á þann hátt að auka skattheimtu við setningu hverra fjárlaga til að standa undir hækkuðum rekstrarkostnaði og hins vegar með því að draga úr nauðsynlegum verklegum framkvæmdum. Eftir að þeirri stefnu hefur verið beitt um svo langt skeið, er svo komið, að til stórfelldra vandræða horfir í sambandi við uppbyggingu í skólamálum, hafnarmálum, sjúkrahúsmálum, vegamálum og á öðrum þeim sviðum, sem varða landsmenn alla. Eindæma góðæri og ný. aflamet á hverju ári undanfarið valda því, að aldrei í sögu þjóðarinnar hafa boðizt slík tækifæri til að gera stórátök einmitt í þessum framkvæmdum, sem allri þjóðinni eru nauðsynlegastar: Stórfelldur vöxtur þjóðartekna ætti að vera eðlilegur grundvöllur fyrir stórframkvæmdum á þessum sviðum. En það er einn skýrasti dómurinn um stjórnarstefnuna og sýnir bezt, hverra hagsmuna stjórnarvöldin hafa gætt, að nauðsynlegustu framkvæmdir til þjónustu við almenning í landinu hafa markvisst verið dregnar saman, en einkaaðilum gefnar sem frjálsastar hendur til að fjárfesta verðbólgugróðann, stjórnlaust og skipulagslaust, án tillits til þarfa þjóðarinnar. Slíkar framkvæmdir, sem miða við skjóttekinn verðbólgugróða einkaaðila, hafa verið látnar sitja í fyrirrúmi, samtímis því sem dregið er úr opinberum framkvæmdum og framleiðsluatvinnuvegirnir búa við hina hörðustu lánsfjárkreppu.

Stefnumið ríkisstj. hafa verið annars vegar að gefa einkaaðilum, sem aðgang hafa að fjármagni, algerlega frjálsar hendur um fjárfestingu verðmætanna með eigin gróðahyggju að leiðarljósi og hins vegar frelsi fyrir verzlunarstéttina til innflutnings á hverju því, sem getur gefið henni gróða í aðra hönd, og frelsi til að ráða verðlagningunni í landinu að eigin geðþótta. Við þessi tvö markmið hefur stefnan verið miðuð undanfarin ár, en öll viðleitni til að hamla gegn verðbólgunni lögð á hilluna. Þvert á móti hefur þessi stefna kynt undir verðbólguna. Sú stefna að gefa þeim, sem bezta hafa aðstöðuna til að nota verðbólguna sér til gróðamyndunar, lausan tauminn um stjórnlausa og skipulagslausa fjárfestingu og algert frelsi til verðlagningar á vörum og þjónustu er í eðli sínu andstæð allri viðleitni til að vinna bug á verðbólgunni. Þessi stefna hefur valdið því, að hin mestu góðæri, sem þjóðin hefur lifað um aflabrögð og viðskiptakjör, hafa verið látin liða hjá, án þess að aðstaðan væri notuð til þess að gera stórátök í þeim framkvæmdum, sem almenningi í landinu eru nauðsynlegastar. Svo langt hefur öfugþróunin gengið, að viðreisnarstjórnin hefur gripið til beins niðurskurðar á framlögum til verklegra framkvæmda. Þetta gerist í mestu góðærum í sögu þjóðarinnar og samhliða sívaxandi skattheimtu af þjóðinni. Þannig tapast gullin tækifæri til að ná stórum áföngum fyrir framtíðina í þeim málum, sem þjóðarheildina varða mestu, en þess í stað hrúgast upp óleyst verkefni, svo að til stórvandræða horfir nú þegar: Við setningu hverra nýrra fjárlaga undanfarin ár hafa blasað við verðbólguáhrifin af fyrri skatta- og tollahækkunum ríkisstj. Þeim vanda hefur verið mætt með nýjum verðbólguskatti í mynd gengislækkunar eða endurteknum hækkunum á söluskatti, og þrátt fyrir að launþegar væru um langt skeið sviptir vísitölubótum á laun, réð viðreisnarstjórnin ekki við afleiðingarnar af gerðum sínum, sífellt aukinn braða verðbólgunnar.

Sumarið 1964 gerðu verkalýðssamtökin úrslitatilraun til að koma viti fyrir stjórnarflokkana, úrslitatilraun til þess að fá tekna upp farsælli stefnu í þjóðmálum. Þrátt fyrir rýrnandi kaupmátt launa í mestu uppgripaaflaárum, sem þjóðin hafði lifað, féllu verkalýðssamtökin frá réttlátum kröfum um verulegar kauphækkanir og sömdu um mjög óverulegar breytingar á töxtum í trausti þess, að gerðar yrðu tryggar ráðstafanir til að halda verðlaginu í skefjum. Þá kórónaði ríkisstj. óhappaferil sinn við setningu fjárlaga um haustið, en einmitt setning þeirra fjárlaga hlaut að skera úr um vilja hennar til þess, að samkomulagið, sem gert var við verkalýðsfélögin, skyldi móta efnahagsþróunina og leysa verðbólgustefnuna af hólmi eða draga a.m.k. úr henni. Þá tilraun alþýðustéttanna gerði ríkisstj. að engu með því að hækka skatta og tolla meir víð setningu þeirra fjárlaga en nokkru sinni fram til þess tíma, með sérstakri hækkun á söluskatti, og svipti þar með þjóðinni út í eina hækkanakollsteypuna enn.

Þrátt fyrir þetta eyðileggingarstarf stjórnarvaldanna voru þær beinu kauphækkanir, sem verkalýðsfélögin sömdu um næsta sumar á eftir, sumarið 1965, svo vægar, að jafnvel hæstv. viðskmrh. hélt því opinberlega fram, að hverri tilraun til þess að hækka verðlag eftir þá kjarasamninga yrði að mæta með harðvítugu verðlagseftirliti. Þau loforð reyndust ámóta mikils virði og þau, sem viðreisnarstjórnin gaf í upphafi um, að hún mundi engar þær verðhækkanir leyfa, sem byggðar voru á hækkun launa. Þrátt fyrir linnulausa verðbólgustefnu ríkisstj. undanfarin ár blossar jafnan upp áhugi hjá stjórnarflokkunum á stöðvun,

þegar verkalýðsfélögin ætla með nýjum kjarasamningum að bæta kjör félagsmanna sinna og gera tilraun til að endurheimta þann hluta af auknum þjóðartekjum, sem verkafólk hefur farið varhluta af.

Það er ekkert nýtt, sem heyrist þessa dagana frá stjórnarflokkunum um feiknaáhuga þeirra á stöðvun. Þetta gerist fyrir hverja kjarasamninga, en lengur stendur sá áhugi aldrei. Og reynslan hefur margsýnt, að þegar kjarasamningum er lokið með vægri hækkun á krónutölu kaups, er öllu verðlagi sleppt lausu. Á loforðum og fyrirheitum þessarar ríkisstj. geta launþegar ekkert mark tekið nú fremur en endranær, það margsannar reynslan.

Þrátt fyrir loforðin í upphafi og þrátt fyrir loforðin í sambandi við hverja nýja kjarasamninga hefur verðlagið stöðugt verið hækkað og verðbólgan magnazt, svo að nú hriktir í stoðum atvinnulífsins. Þeir, sem ráða fjármagninu, hafa undanfarin ár fengið að ráðstafa því eftir gróðahvötinni einni saman, og fjármagnið hefur eðli sínu samkvæmt sótt þangað, sem gróðinn hefur verið fljótteknastur, í þá þætti verzlunar, sem mestan gróða gefa, og í byggingarbrask. Verzlunin og þjónustustarfsemin hefur þannig sogað til sín um 40% af nýju vinnuafli þjóðarinnar, og þangað hefur meira af lánsfjáraukningunni farið en í aðra atvinnuvegi samanlagt. Þeir, sem hafa ávaxtað fé sitt í íbúðarbyggingabraski, hafa á þessum tíma haft yfirburði fram yfir framleiðsluatvinnuvegina að ná til sín vinnuaflinu. Á sama tíma hefur stöðugt þrengzt hagur framleiðsluatvinnugreinanna, sem búið hafa við skipulagða lánsfjárkreppu stjórnarvaldanna. Flóð af hömlulausum innflutningi hvers kyns erlends iðnaðarvarnings, sem verzlunarstéttin hefur séð sér ágóðavon í að flytja inn, hefur leikið innlendan iðnað svo grátt, að fjölmörg fyrirtæki hafa gefizt upp og sum hafa séð sér það helzt til bjargar að hefja innflutning á sams konar iðnvarningi og þau hafa sjálf framleitt, en dregið úr framleiðslu þeirra vara að sama skapi. Það þóttu t.d. á sínum tíma merkir atburðir, þegar Vinnufatagerð Íslands og Raftækjaverksmiðjan í Hafnarfirði hófu göngu sína og juku á fjölbreytni íslenzks atvinnulífs. En nú er svo komið, að þessi fyrirtæki selja að verulegu leyti fullunnar erlendar iðnaðarvörur. Fjölda iðnfyrirtækja hefur verið lokað, og ískyggilegar horfur eru um rekstur annarra, og er ekki sjáanlegt annað en alvarleg kreppa sé að hefjast hjá innlendum iðnfyrirtækjum. En samdráttur í framleiðslu þeirra bitnar að verulegu leyti á starfsfólki, sem ekki á margra kosta völ á vinnumarkaðnum. Vegna stjórnarstefnunnar undanfarið er nú svo komið í sjávarútveginum, að aðeins þau fyrirtæki, sem njóta hins óhemjumikla síldarafla, standa upp úr, en togaraútgerð og útgerð minni vélbáta er með öllu að stöðvast, með þeim afleiðingum, að frystihúsin eru að komast í þrot og sumum hefur þegar verið lokað. Að sama skapi blómgast hagur þess eina frystihúss, sem ríkisstjórnarflokkarnir virðast hafa velþóknun á, Seðlabankans, sem frystir það lánsfé, sem atvinnureksturinn skortir. Afleiðingarnar eru þær, að atvinnuhorfur víða á stöðum, sem ekki njóta síldaraflans, eru orðnar hinar uggvænlegustu, ekki sízt þegar haft er í huga, að kaupmáttur tímakaups verkamanna er ekki meiri en svo, að einungis þrotlaus eftir-, nætur- og helgidagavinna hefur fært verkafólki þær tekjur, að það geti komizt af og staðið undir kostnaði af því húsnæði, sem það býr í. Þó að ekki kreppi meira að en svo, að eftir- og næturog helgidagavinna falli niður, kemur í ljós, hver þau kjör eru, sem verkafólk í raun og veru býr við, og sannast, hve fölsk og yfirborðskennd er sú velmegun, sem reynt er að básúna út, að íslenzkur almenningur búi við. Ef verðbólgustefna og lánsfjárkreppa viðreisnarstjórnarinnar leiðir nú til þess, að atvinna dregst saman í ríkari mæli og atvinnuástandið kemst í það horf, sem þykir eðlilegt í öðrum löndum, þ.e.a.s. að verkafólk hafi það„ sem telst fullur vinnudagur án yfirvinnu, þá er um leið horfin sú yfirborðsvelgengni, sem mest hefur verið auglýst undanfarið, þegar stjórnarvöldin eru að reyna að telja launþegum trú um, að þeir búi við betri launakjör en annars staðar þekkist og skuli því falla nú frá öllum frekari kröfum. Staðreyndin er nefnilega sú, að þrátt fyrir meiri aflasæld og betri viðskiptakjör um langt árabil en nokkru sinni hefur áður þekkzt hér á landi er kaupmáttur tímakaups verkamanna frekar lægri en hærri en hann var, þegar núv. stjórnarflokkar tóku við völdum 1959. Allt tal um, að kaupmáttur tímakaupsins hafi hækkað síðan, er blekking. Þegar stjórnarvöldin hafa haldið fram þeirri staðhæfingu, bera þau fyrir sig skýrslu frá Efnahagsstofnuninni, en auk þess sem grundvöllur þeirra útreikninga er hæpinn, þá er þar miðað við kaupmátt tímakaups, ekki þegar núv. stjórnarflokkar tóku við völdum, heldur árið 1960, þegar þeir höfðu þegar lækkað kjörin.

Sá boðskapur stjórnarflokkanna hefur löngum hljómað í eyrum almennings, að óraunhæft sé að gera kröfur um bætt lífskjör, nema fyrir hendi sé aukning þjóðartekna á mann í landinu, þannig að kaup geti því aðeins hækkað, að meira sé til skipta en áður; en ef þær aðstæður séu fyrir hendi, fái launþegar réttar til sín raunhæfar kjarabætur á silfurdiski. Þá er að vísu litið fram hjá þeirri staðreynd, áð skipting þjóðartekna innbyrðis er ekki föst og óumbreytanleg. En hvað sem því líður, er rétt fyrir verkafólk að gera sér grein fyrir því, að nú um margra ára skeið hafa launþegar búið við þessar aðstæður, sem þeim hefur jafnan verið sagt að bíða eftir, en kjarabæturnar hafa ekki verið réttar að launþegum. Vegna stóraukningar aflamagns á ári hverju og bættra viðskiptakjara hefur vísitala þjóðartekna á mann breytzt sem hér segir miðað við 100 árið 1959: Árið 1960 99.8, 1961 103.3, 1962 110.2, 1963 115.9, 1964 123.5, 1965 132.2. Og á því ári, sem nú er að liða, mun meðalverð útflutningsafurða verða hærra en 1965 og enn nýtt aflamet sett á síldveiðum. Þessar tölur sýna, hversu sífellt hefur komið meir og meir til skipta hjá þjóðinni, hvernig sífellt hefur styrkzt grundvöllurinn fyrir því að hækka raunveruleg laun, ekki aðeins að krónutölu í samræmi við hækkað verðlag, heldur að auknum kaupmætti tímakaupsins. En hver hefur þá veríð hlutur launþega af þessari stóraukningu þjóðartekna? Ef tekin er til samanburðar vísitala kaupmáttar tímakaups miðað við neyzluvöruvísitölu og 3. taxta Dagsbrúnarkaups og vísitala kaupmáttar sett 100 1959, kemur í ljós, að kaupmátturinn hefur verið lægri allt þetta tímabil og hefur hinn 1. okt. s.l. enn ekki náð kaupmættinum 1959, á sama tímabili og þjóðartekjur á mann hafa hækkað um 32.2%. 1959 var kaupmátturinn 100, 1960 90.6, 1961 85, 1962 83.7, 1963 84, 1964 85.3, 1965 91 og 1. okt. 1966 99.6. Nokkurn veginn það sama kemur út, ef miðað er við tímakaup í fiskvinnu. Þessa skerðingu kaupmáttar tímakaups, sem verið hefur veruleg um langt skeið, allt þetta tímabil, hafa launþegar reynt að bæta sér upp með þrotlausri yfirvinnu. Þess vegna hafa ráðstöfunartekjurnar, þ.e.a.s. heildartekjur án tillits til vinnutíma, breytzt á þessu tímabili, tímabilinu frá 1959–1964, sem hér segir miðað við 100 1959: 1960 99.4, 1961, 90.7, 1962 100.7, 1963 108.8 og 1964 112.7. En þótt ráðstöfunartekjurnar hafi þannig vegna aukinnar eftir-, næturog helgidagavinnu komizt í það að verða 12.7% hærri 1964 en 1959, hafa ekki einu sinni ráðstöfunartekjurnar aukizt til jafns við aukningu þjóðartekna á mann á þessu tímabili. Og ef borin er saman afstaða ráðstöfunartekna til þjóðartekna á mann og það hlutfall sett 100 1959, er það hlutfall komið niður í 91.9 árið 1964. Það eru því alrangar staðhæfingar, að verkafólk hafi fengið sinn hlut af auknum þjóðartekjum undanfarinna ára.

Hvort sem litið er á kaupmátt tímakaups eða á heildartekjur án tillits til vinnutíma, skortir mikið á, að verkafólk hafi haldið sínum hlut. Samtímis því, sem kaupmáttur tímakaups hefur lækkað, hafa þjóðartekjur á mann aukizt, og ef athuguð er afstaða kaupmáttar tímakaups verkamanna til hreinna þjóðartekna á mann, kemur í ljós, hve mjög hefur verið gengið á hlut verkafólks á stjórnartíma viðreisnarstjórnarinnar. Ef miðað er við 3. taxta Dagsbrúnar og afstaða milli kaupmáttar tímakaups og þjóðartekna á mann sett 100 1959, er 1960 90.7, 1961 82.3, 1962 76, 1963 72.5, 1964 69.1 og 1965 58.8, þ.e.a.s. þetta hlutfall hefur breytzt um 31.2% verkafólki í óhag á þessu tímabili.

Það er því sama, hvernig á málið er litið, hvort sem miðað er við kaupmátt tímakaupsins eða kaupmátt heildarlauna verkafólks án tillits til vinnutíma, borið saman við aukningu þjóðartekna á mann, þ.e.a.s. þann afrakstur, sem vinnandi fólk hefur skilað þjóðarbúinu, kemur í ljós, að hlutur verkafólks hefur rýrnað á þessu tímabili. Kaupmáttur tímakaupsins er minni en 1959 og hlutur verkafólks af þjóðartekjunum hefur stórlega minnkað.

Nú, þegar að því hlýtur að draga, að verkalýðssamtökin beiti samtakamætti sínum, til þess að verkafólk fái sinn hlut óskertan af þjóðartekjunum og leiðréttingu á málum sínum, er sérstök herferð hafin í áróðursmálgögnum ríkisstj., annars vegar til þess að leiða athyglina frá því, að kreppan, sem er að setja mark sitt á atvinnulífið, er bein afleiðing stjórnarstefnunnar, og hins vegar til þess að fá verkafólk til þess að falla frá kröfum um, að hlutur þess verði réttur. Í þessari herferð, sem hefur þennan tvíþætta tilgang, útmála stjórnarvöldin fyrir almenningi, að lækkun hafi orðið á verði útflutningsvöru. Undanfarin ár hefur verð á útfluttum sjávarafurðum farið hækkandi með ári hverju og lækkun nú frá þeim hæsta verðtoppi, sem náðst hefur, þýðir ekki það, að verðið sé ekki eftir sem áður hærra en svarar til þess hlutar, sem verkafólk hefur fengið af þjóðartekjunum. Auk þess kemur hér á móti meira aflamagn á síldveiðum en nokkru sinni fyrr.

Það er fróðlegt að athuga, hver hefur orðið hækkun á sjávarafurðum undanfarin ár, þegar hlutur verkafólks af þjóðartekjum hefur stórlega rýrnað. Á árunum 1963–1965 hækkaði verð á eftirtöldum útflutningsvörum sem hér segir í prósentum: Saltfiskur óverkaður 31.4%, skreið 9.5%, fryst síld 20.2%, fryst fiskflök 21.5%, þorskalýsi hreinsað 26.6%, þorskalýsi óhreinsað 90.5%, saltsíld 11.4%, síldarlýsi 118.8%, fiskmjöl 5.2% og síldarmjöl 10.0%.

Þetta eru hækkanirnar síðustu árin, og þrátt fyrir einhverja lækkun síðari hluta árs 1966 verður meðalverð á þessu ári fremur hærra en lægra en meðalverð 1965, og varðandi þjóðartekjurnar bætist þar á ofan, að aflamagn á síldveiðum hefur stóraukizt. Hér ber því allt að sama brunni um það, að þau kreppueinkenni, sem tekin eru að marka atvinnulífið, verða ekki rakin til óhagstæðra ytri aðstæðna né heldur til þess, að verkafólk hafi fengið of mikið í sinn hlut. Hér er stjórnarstefnan sjálf að verki, og verðlækkanir á afurðum verða hvorki notaðar til þess að kenna um ófarnaðinn eða til þess að halda fyrir verkafólki réttmætum hlut þess úr þjóðartekjunum, og það verður ekki samrýmt neinni skynsemi að gera kröfu til launafólks nú, að það afsali sér rétti til hærra kaupmáttar tímakaups, en leggja um leið fram fjárlagafrv., sem gerir ráð fyrir aukinni skattheimtu, sem nemur 850 millj. kr. á einu ári, og miðar við 20–30 og yfir 40% hækkanir á rekstrarliðum, þverneita þannig á sama tíma að hverfa frá þeirri verðbólgustefnu, sem er að koma framleiðsluatvinnuvegunum í þrot. Þrátt fyrir góðæri, aflamet á ári hverju og þrátt fyrir minni hlut þeirra af auknum þjóðartekjum eru óheillaáhrif stjórnarstefnunnar svo afgerandi á framleiðsluatvinnuvegina, að góðærið og aflahlutir duga ekki til mótvægis. Ráðamenn víðreisnarstjórnarinnar hafa siglt þjóðarfleyinu eftir rangri stefnu og eru að sigla í strand í blæjalogni og blíðviðri. Það eru ekki ytri áföll, sem hafa borið þjóðarskútuna af leið. Stefnan hefur frá upphafi verið röng, og henni verður að breyta, ef ekki á verr að fara. Þeirri kreppu, sem nú fer að í atvinnulífinu, verður ekki bægt frá með því að ganga enn á hlut launþega, eins og ríkisstj. undir forustu Bjarna Benediktssonar ætlar sér að leggja alla áherzlu á að gera. Sú fyrirætlun fer ekki milli mála í þeirri áróðursherferð í sambandi við markaðsverðið, sem ég áðan minntist á, en hún fer enn síður leynt í eftirfarandi orðum úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 25. sept. s.l., en þau hefur hæstv. forsrh. efalítið ritað, en þar segir:

„Vegna þess, hve ríflegur hlutur launþega hefur orðið, eiga atvinnurekendur hins vegar í vök að verjast, jafnskjótt óg á móti blæs.“

Það má segja, verkamenn, að gjafir eru ykkur gefnar. Ykkar hlutur hefur verið svo ríflegur, að þið eruð að koma atvinnuvegunum á vonarvöl, og ætlunin er að rétta hlut þeirra á ykkar kostnað. Þó að kaupmáttur tímakaups verkafólks hafi lækkað og hlutur þess úr þjóðartekjunum minnkað enn meir í góðærunum undanfarið, er hann að dómi Sjálfstfl. samt of stór, og það er það, sem sá flokkur telur að þurfi að leiðrétta í efnahagslífinu. Hæstv. forsrh. er ekki í vafa um, hverjir eiga að fórna núna, þegar hann sér fram á þrot viðreisnarstefnunnar.

En verkafólk veit bezt allra, að það hefur ekki fengið sinn hlut af auknum þjóðartekjum undanfarin ár. Verkafólk hefur horft upp á gróðaliðið í Reykjavík skófla til sín verðbólgugróðanum. Það hefur séð, hvernig farið er með þann gjaldeyri, sem almenningur skapar með vinnu sinni, hvernig hann hefur verið og er til frjálsrar ráðstöfunar fyrir innflytjendur til þess að eyða honum í það, sem gefur þeim mestan gróða að flytja inn. Verkafólk hefur séð þann grundvallarþátt í stjórnarstefnunni í framkvæmd, að þeir, sem fjármagninu ráða, geti fest féð í þeim byggingum og fyrirtækjum, sem geta skapað þeim mestan persónulegan gróða, algerlega án tillits til þarfa þjóðarheildarinnar, á sama tíma og opinberar framkvæmdir eru skornar niður. Almenningur hefur séð olíufélögin byggja sölustöðvar fyrir millj. kr. hlið við hlið um land allt og heimta síðan verðhækkanir vegna hækkaðs dreifingarkostnaðar. Olíu- og benzínbifreiðarnar frá öllum þessum fyrirtækjum elta hver aðra og þræða sveitavegina til þess að skila sams konar olíu og benzíni hver á sinn sveitabæinn. Ný bankaútibú eru opnuð í hverjum mánuði, og hvers kyns milliliðir og afætur baða sig í verzlunarfrelsinu.

Í Indlandi er talið, að 67 millj. nautgripa fái að ráfa um eftirlitslaust og éta mat, sem mundi duga til viðurværis 9 millj., á allri leið sinni um landið. Þetta þykir okkur furðulegur búskapur. En við eigum okkar heilögu kýr, þá milliliði og gróðabraskara, sem ríkisstj. heldur sérstakri verndarhendi yfir. Þessar heilögu kýr okkar eru að vísu snöggt um færri en í Indlandi, en það fóður, sem þær hafa vanizt undanfarið; er þeim mun dýrara.

Í vaxandi mæli sér almenningur, að hér verður að skipta um stefnu. Það er í hróplegri mótsögn við hagsmuni vinnandi fólks, að blind gróðahvötin sé látin vera hið ráðandi afl í þjóðlífinu, eins og verið hefur í tíð viðreisnarstjórnarinnar. En hún hefur mótað alla þætti þjóðlífsins í ríkari mæli, jafnt atvinnumálum, innflutningsmálum sem húsnæðismálum. Almenningur hefur nú um langt skeið horft upp á rangsleitni stjórnarstefnunnar, stjórnleysið, skipulagsleysið, braskið, bruðlið og sóunina og séð öngþveitið aukast á uppgripaárum, en kjör verkafólks rýrna. Og sízt af öllu mun verkafólk fórna hagsmunum sínum fyrir áframhald þessarar stefnu, eins og ríkisstjórnarflokkarnir fara nú fram á. Sú krafa fær æ dýpri hljómgrunn, að horfið verði frá þessari óheillastefnu, sem hefur blinda gróðahyggju einstaklinga að leiðarboða, en þess í stað tekin upp bein stjórn á öllum þáttum þjóðarbúskaparins, þar sem hagsmunum fjáraflamanna, sem öllu hafa ráðið síðastliðin ár, verði vikið til hliðar fyrir hagsmunum þjóðarheildarinnar. Þau umskipti þurfa launþegar að tryggja við alþingiskosningarnar næsta sumar með eflingu Alþýðubandalagsins. Í bæjarstjórnarkosningunum s.l. vor sneri verulegur hópur kjósenda baki við Sjálfstfl., forustuflokknum í viðreisnarstjórninni, en Alþb. fékk að sama skapi aukið fylgi. Nú er aðeins rúmlega hálft ár til alþingiskosninga, sem munu ráða mestu um afkomu alþýðuheimilanna næstu árin. Þann tíma þurfa launþegar um allt land að nota vel til þess að tryggja með auknum áhrifum Alþb. nýja, jákvæða stjórnarstefnu að kosningum loknum. — Góða nótt.