02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

1. mál, fjárlög 1967

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hóf störf sín og athugun á fjárlagafrv. þegar á fyrstu dögum þingsins. Segja má, að n. hafi unnið sleitulaust við afgreiðslu málsins síðan og því æðimikið mætt á nm. undanfarnar vikur. Alls hefur n. haldið 34 fundi, en auk fjárlagafrv. hefur hún haft til athugunar og afgreiðslu fjöldamörg erindi, sem til hennar hafa borizt. Hefur n. leitazt við að setja sig inn í mál þessi, eftir því sem kostur hefur verið á.

Í mörgum tilfellum er hér um fjárbeiðnir að ræða, sem ætlaðar eru til stuðnings góðum málefnum og framkvæmdum, sem eiga fyllilega rétt á sér. Samt sem áður hefur n. eigi séð sér fært nú frekar en áður að verða við umræddum fjárbeiðnum nema að takmörkuðu leyti. Hefði n. vissulega óskað að geta verið ríflegri í till. sínum um auknar fjárveitingar, en nú sem fyrr er í mörg horn að líta, og hefur n. fyrst og fremst haft að leiðarljósi, hvað hún taldi óhjákvæmilegt og ekki yrði á frest skotið, um leið og hún að sjálfsögðu lagði sig fram um að koma til móts við óskir manna, eftír því sem n. sá sér fært og ástæður leyfa.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka meðnm. mínum öllum fyrir gott samstarf í n. Ég vona, að enda þótt afgreiðsla málsins af hendi meiri hl. n. hafi skipazt nokkuð á annan veg en fulltrúar minni hl. í n. hefðu kosið, telji þeir sig ekki hafa verið órétti beitta í sambandi við vinnubrögð í nefndinni.

Fjárlagafrv. það, sem hér um ræðir, er hið fyrsta, sem samið er á vegum þeirrar fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem sett var á stofn innan fjmrn. fyrr á þessu ári. Enda þótt frv. sé í meginatriðum óbreytt frá því, sem verið hefur, hvað uppbyggingu snertir og þær breytingar, sem stofnunin telur æskilegar við undirbúning og samningu fjárl., bíði næsta árs og komi þá til framkvæmda í samræmi við nýsett lög um ríkisreikning og fjárlög, er það álit meiri hl. n., að fjárveitingar til ríkisstofnana eða rekstrar þeirra séu að þessu sinni í meira samræmi við raunverulegar þarfir stofnananna en oftast hefur tíðkazt. Þetta álit meiri hl. n. er byggt á þeim upplýsingum, sem n. hefur aflað sér og fram hafa komið í viðræðum n. við forsvarsmenn hinna ýmsu ríkisstofnana.

Að þessu sinni hefur hagsýslustjóri ríkisins, Jón Sigurðsson, starfað að nokkru leyti með n., veitt henni margvíslegar upplýsingar, og hefur það auðveldað n. störfin og flýtt fyrir afgreiðslu málsins. Þá hafa nm. á sama hátt og áður skipt með sér verkum og unnið að athugun einstakra málaflokka milli funda. Hefur það einnig flýtt fyrir afgreiðslu málsins í heild.

Eins og fram kemur í nál. um málið, náðist ekki samstaða innan n. um afgreiðslu þess í heild. N. hefur þó leyft sér að flytja brtt. á þskj. 92 sameiginlega, þó með þeim fyrirvara af hendi fulltrúa Framsfl, og fulltrúa Alþb. í n., að till. n., sem fluttar eru á umræddu þskj., njóti ekki allar stuðnings þeirra og þeir hafi óbundnar hendur um að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við þær eða einstaka liði frv. Brtt. við tekjubálk frv. eru hins vegar fluttar af meiri hl. n. á þskj. 93. Eru þær byggðar á nýjum upplýsingum, sem n. fékk frá Efnahagsstofnun ríkisins. Hefur komið í ljós við endurskoðun á tekjum ríkissjóðs fyrir árið 1966 varðandi suma tekjuliði fjárlagafrv.; að gera má ráð fyrir, að tekjur ríkisins á árinu 1967 verði eins og fram kemur á fyrrnefndu þskj.

Svo sem kunnugt er, beitti ríkisstj. sér fyrir því á s. l hausti að greiða niður hækkun á búvöruverði, sem ella hefði komið til framkvæmda í septembermánuði s.l. Síðan hefur komið til framkvæmda hækkun á fjölskyldubótum og frekari niðurgreiðslur. Allar þessar ráðstafanir eru til þess ætlaðar að koma í veg fyrir verðhækkanir innanlands og skapa grundvöll að almennri verðstöðvun. Af þessu leiðir, að gera verður breytingar á 17. og 19. gr. fjárlagafrv. varðandi þá gjaldaliði, sem þessar ráðstafanir snerta. Nú hefur ríkisstj, lagt fyrir Alþ. frv. um verðstöðvun. Að öðru leyti eru sumir þessara þátta enn í athugun hjá ríkisstj. N. hefur því frestað afgreiðslu þeirra til 3. umr.

Önnur mál, sem n. hefur enn ekki lokið athugun sinni á og frestaði til 3. umr., eru m.a. skipting á fé til nýrra skólabygginga og skólastjóraíbúða, enn fremur brtt. við 18. gr. og nokkur erindi önnur, sem n. mun taka til frekari athugunar og afgreiðslu á milli umr. Þá mun samvinnunefnd samgöngumála skila till. um styrki til flóabáta og vöruflutninga sem jafnan áður.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl., eru brtt. við 2. gr. frv. byggðar á nýjum upplýsingum frá Efnahagsstofnun ríkisins um tekjuáætlun ársins. Er þá lagt til grundvallar, að tekjuhækkunin milli áranna 1965 og 1966 nemi 18% , einnig, að skattvísitalan verði ákveðin 18% hærri en hún var 1966.

Síðan fjárlagafrv. var samið, liggja fyrir tölur um álagða skatta í öllu landinu. Kemur þar í ljós, að álagðir skattar reyndust nokkru hærri en reiknað hafði verið með. Hækkar því áætlunin fyrir 1967 að sama skapi, þar sem aðrar forsendur eru óbreyttar. Þá er í þessari nýju áætlun reiknað með hærri innheimtuprósentu, en það er samkv. reynslu ársins 1965. Heildarupphæð tekju- og eignarskatts er því áætluð 643 millj. kr. En þar frá dragast 40 millj. samkv. 17. gr. til húsnæðismála samkv. 4. gr. l. nr. 19 1965, og verður því nettóupphæðin á 2. gr. frv. 603 millj. kr. eða 7 millj. kr. hærri en frv. gerir ráð fyrir.

Varðandi aðflutningsgjöldin virðist ekki ástæða til breytinga að dómi Efnahagsstofnunarinnar, en þar er reiknað með 6200 millj. kr. innflutningi cif. og lagt til grundvallar, að meðaltollurinn verði 29.5%.

Aukatekjur eru nú áætlaðar 60 millj. kr. eða um 5 millj. kr. lægri en í frv. Er það samkv. nýrri áætlun Efnahagsstofnunarinnar.

Varðandi till. meiri hl. n. um áætlaða hækkun tekna af söluskatti, þá er gengið út frá áætluninni um álagðan söluskatt 1966, reiknað með 5% aukningu hreinnar veltu milli ára 1966 og 1967, og þá er einnig tekið tillit til þeirra verðhækkana, sem komnar voru inn 1. okt. s.l., en að öðru leyti ekki reiknað með frekari verðhækkunum. Samtals verða því tekjur af söluskatti 1328.2 millj. kr., þar af til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkv. lögum 106.3 millj., og nettó verður upphæðin því 1221.9 millj. kr., sem er 43,7 millj. kr. hækkun frá því, sem er í frv.

Þá er samkv. till. meiri hl. lagt til að hækka 10. tölulið 2. gr., leyfisgjald af bifreiðum, um 4.5 millj. kr. Er þá lagt til grundvallar, að áætlað meðal-fob.- verð á innfluttum bifreiðum á yfirstandandi ári hefur reynzt hærra en áætlað var, en bifreiðainnflutningurinn að öðru leyti óbreyttur frá fyrri áætlun.

Loks er lagt til, að tekjur samkv. 3. gr., þ.e. af rekstri Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins, hækki um 8 millj. 170 þús. kr. Samtals hækkar tekjubálkur fjárlagafrv. samkv. þessu um 63 millj. 370 þús. kr.

Á 3. gr. er lagt til, að gerðar verði nokkrar breytingar á tekjuliðum Pósts og síma. Í viðræðum, sem n. átti við Gunnlaug Briem póst- og símamálastjóra, kom það fram, að gera má ráð fyrir þeirri tekjuhækkun á rekstrarreikningi stofnunarinnar, sem hér er lagt til, eða samtals 32 millj. kr. Á móti kemur sama upphæð gjaldamegin og fært á áætlaða afskrift.

Mun ég þá víkja að gjaldabálki frv.

Við 10. gr. er aðeins ein till. Leggur n. til, að tekinn verði upp nýr liður til alþjóðaflóttamannasöfnunarinnar, 600 þús. kr. Þessari fjársöfnun var mjög vel tekið af þjóðinni allri með almennri söfnun. Alls munu hafa safnazt þannig um 1.2 millj. kr. Með þessu viðbótarframlagi verður upphæðin samtals 1.8 millj. kr. eða sem svarar 10 kr. á hvert mannsbarn þjóðarinnar.

Á 11. gr. er lagt til, að liðurinn til byggingar fangahúsa hækki um 200 þús. kr. Er ætlazt til þess, að upphæðin gangi til byggingar fangahúss í Hornafirði: — Til fangahjálpar er till. um 40 þús. kr. hækkun, en auk þess er nú ákveðið, að félagssamtökin Vernd hljóti 250 þús. kr. af heildarupphæðinni. til byggingar templarahallar er lagt til, að styrkurinn hækki um 600 þús. kr. og verði þá 1 millj. kr. Hæstv. dómsmrh. kom á fund n. og gerði grein fyrir erindi byggingarnefndar templarahallarinnar. Kemur þar fram, að nokkuð vantar á, að fé sé fyrir hendi, svo að unnt sé að ljúka við tvo samkomusali í húsinu. Er ætlunin að nota þá til unglingastarfsemi. Til viðbótar þessu framlagi ríkissjóðs, ef samþ. verður, mun borgarsjóður Reykjavíkur hækka sitt framlag til byggingarinnar að sama skapi, og ætti það að tryggja framkvæmdina. Með þessu ætti að nást mikilvægur áfangi í lausn á vandamáli, sem fram kemur í nýju frv. til l. um breyt. á áfengislöggjöfinni. — Samtals hækka fjárveitingar samkv. þessu á 11. gr. um 840 þús. kr.

Á 12. gr. kemur fyrst brtt. n. um framlag til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknisbústaða. Er lagt til, að liðurinn hækki um 2 millj. 849 þús. kr. Ætti sú fjárveiting að tryggja, að ríkisframlagið til bygginganna verði hlutfallslega það sama og á síðasta ári, þ.e. 118 hluti til sjúkrahúsa og 1/5 hluti af byggingarkostnaði til sjúkraskýla og læknisbústaða. N. tók inn nokkrar nýjar framkvæmdir, og er hækkunin aðallega í sambandi við þær. — Þá er lagt til, að liðurinn til námskeiða fyrir embættislækna hækki um 30 þús. kr. og liðurinn til námskeiða fyrir aðstoðarfólk í hjúkrun hækki um 25 þús. kr., en samtals eru till. um hækkun fjárveitinga á 12. gr. þá 2 millj. 904 þús. kr.

Á 13. gr. A er lagt til. að bætt verði við tveim nýjum liðum, samtals að upphæð 50 þús. kr., vegna rekstrar á snjóbifreiðum.

Á 13. gr. C hefur n. skipt fjárveitingu til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, en auk þess leggur n. til, að liðurinn hækki um 6 millj. 350 þús. kr. — Þá er till. um, að liðurinn X, til afgreiðslu á eftirstöðvum af lögboðnum hluta ríkissjóðsframlags til hafnarframkvæmda, lækki um 4.9 millj., en framlag til ferjubryggna hækki um 150 þús. — Till. n. eru því raunverulega um hækkun, sem nemur til hafnarframkvæmda og lendingarbóta 1.6 millj. kr.

Í áætlun vita- og hafnarmálastjóra eru ráðgerðar framkvæmdir í hafnarmálum á árinu 1967 að upphæð 227 millj. kr., en þar við bætast framlög til landshafnanna. Er þetta rúmlega 100 millj. kr. hærri upphæð en byggingarframkvæmdir námu á yfirstandandi ári. Að hve miklu leyti áætlun vita- og hafnarmálastjóra kemur til framkvæmda, v erður ekki séð, fyrr en gengið hefur verið frá framkvæmdaáætlun fyrir komandi ár. Mér þykir ósennilegt, enda þótt svo færi, að fé væri fyrir hendi til framkvæmdanna, að unnt væri af ýmsum öðrum ástæðum að ráðast í svo stóra áfanga í þessum efnum á einu ári, og kemur þar margt til.

Til hafnarmannvirkja og lendingarbóta var varið samkv. síðustu fjárl. samtals um 26.2 millj. kr. Á sama hátt eru í þessu frv. að viðbættum brtt. n. 37 millj. 650 þús. kr. En þar til viðbótar eru greiðslur af hafnarlánum vegna landshafnanna, sem eru að þessu sinni 19.8 míllj, kr. Að sjálfsögðu hefðu fjárveitingar til hafnarframkvæmda þurft að verða ríflegri en hér er lagt til. Hámark til hverrar hafnar verður 700 þús. kr. að þessu sinni. Eru þó rúmlega helmingi fleiri hafnir, sem hljóta þessa upphæð, en dæmi eru til um áður.

Á 13. gr. D. er lagt til, að liðurinn IV, aðrir flugvellir hækki um 100 þús. kr. Er það vegna nýrra flugvalla, sem rekstrarkostnaður hafði ekki að fullu verið áætlaður í frv.

Við 13. gr. E er ein brtt:, en það er við F-lið, 2. tölul.; aukavinna hækki um 75 þús. krónur.

Við 13. gr. í er till. um að hækka fjárveitingu til landmælinga, annan kostnað, um 144 þús. kr. Er það vegna hækkunar á húsaleigu fyrir stofnunina. Á sömu grein er lagt til að hækka fjárveitingu til sjómannaskólans í Vestmannaeyjum um 175 þús. kr. Komið hefur verið upp heimavist við skólann vegna nemenda utan af landsbyggðinni, og telur n. rétt að verða við þessari beiðni.

Á 14. gr. A eru fjárveitingar til menntamála. Eins og ég þegar hef tekið fram, bíða brtt. n. til 3. umr. varðandi fjárveitingar og skiptingu á fé til skólabygginga og skólastjóraíbúða. Nokkrar brtt. eru þó frá n. við þessa gr. Lagt er til, að til Handritastofnunar Íslands, liðurinn annar kostnaður, hækki um 30 þús. kr. — Til fræðslumálastjóraembættisins hækkar ferðakostnaður um 24 þús. kr. — Þá er lagt til; að teknir verði upp tveir nýir liðir: til kennaranámskeiða 250 þús. kr. og til skólaminjasafns 25 þús. Í frv. eru tveir liðir með fjárveitingu til kennaranámskeiða, undir XV 27. tölul. 100 þús. kr. og XVI 49. tölul. 125 þús. kr. Leggur n. til, að báðir þessir liðir verði felldir niður, og er því raunverulega um 25 þús. kr. hækkun að ræða til kennaranámskeiða. Þessi tilhögun á fjárveitingunni er gerð samkv. ósk fræðslumálastjóra. — Fjárveiting til skólaminjasafns var inni á fjárl. 1965, en hafði af vangá fallið niður í fjárl. 1966 og enn fremur í fjárlagafrv. nú. — Þá er lagt til, að hækkaðir verði kostnaðarliðir við menntaskólann á Akureyri samtals um 555 þús. kr. Er það vegna vanáætlunar í frv. — Til kennaraskólans er till. um 220 þús. kr. hækkun, en það er vegna nemendafjölgunar, sem ekki hafði verið reiknað með, og til íþróttakennaraskólans hækkar fjárveiting um 60 þús. kr. samtals. – Í fjárlagafrv. er fjárveiting til blindrastarfsemi 30 þús. kr., og er upphæðinni skipt til helminga á milli Blindrafélagsins og Blindravinafélagsins. Upphæð þessi hefur staðið óbreytt um margra ára skeið. Fjvn. leggur til, að styrkurinn verði hækkaður í 200 þús. kr. og skiptist til jafns milli félaganna, 100 þús. kr. til hvors. — Þá eru tillögur um nýja liði: Til Frjálsíþróttasambands Íslands 50 þús. kr. vegna landskeppni Íslendinga og Skota; til Skáksambands Íslands 75 þús. kr. vegna þátttöku í Ólympíuskákmóti á Kúbu og til Taflfélags Reykjavíkur 40 þús. kr. styrkur til húsakaupa fyrir starfsemi félagsins. — Samtals eru brtt. n. við 14. gr. A til hækkunar um 1 millj. 195 þús. kr.

Á 14. gr. B eru fjárveitingar til opinberra safna, bókaútgáfu, listastarfsemi o.fl. Við þessa gr. hefur fjvn. leyft sér að flytja nokkrar brtt. Kemur þar fyrst till. um að hækka tvo liði hjá þjóðminjasafni: 50 þús. kr. vegna launahækkunar gæzlukvenna og 60 þús. kr. til örnefnasöfnunar. — Til Listasafns Íslands hækkar liðurinn annar kostnaður um 35 þús. kr. — Þá eru till. um að hækka fjárveitingar til náttúrugripasafnanna í Vestmannaeyjum og á Akureyri um 25 þús. kr. til hvors og að inn komi nýr liður: Til Náttúrugripasafnsins á Norðfirði 50 þús. kr. — Styrkur til Hins ísl. náttúrufræðifélags er lagt til að hækki um 15 þús., en það er vegna hækkunar á útgáfukostnaði tímaritsins Náttúrufræðingsins. - Þá er lagt til, að liðurinn XXI, styrkur til ritstarfa og fleira, hækki um 30 þús. kr. — Til Norræna félagsins er till. um hækkun á fjárveitingu um 50 þús. kr., og er það vegna aukinnar starfsemi félagsins. — Þá flytur n. brtt. við liðinn: til tónlistarstarfsemi skv. lögum, er það um 250 þús. kr. hækkun. Verður liðurinn þá 4 millj. kr. Skv. lögum ber ríkissjóði að leggja fram 1/3 hluta af rekstrarkostnaði tónlistarskólanna, og taldi n. að fengnum upplýsingum, að þessa upphæð skorti á, að næg fjárveiting væri fyrir hendi. - Þá er lagt til að hækka fjárveitingu til Barnamúsíkskólans um 45 þús. kr. — Í fjárlagafrv. er að þessu sinni fjárveiting til Þjóðleikhússins um 1 millj. 750 þús. kr., sem er ætluð til þess að standa undir kostnaði við endurnýjun á áklæði á stólum leikhússins. Til viðbótar því taldi þjóðleikhússtjóri óhjákvæmilegt að fara fram á frekari fjárveitingu til viðhalds leikhússins. Í því sambandi fór þjóðleikhússtjóri sérstaklega fram á fjárveitingu vegna óhjákvæmilegra endurbóta á brunavörnum hússins. Fjvn. leggur því til, að veittar verði 275 þús. kr. í þessu skyni. — Leikfélag Reykjavíkur hefur um langan tíma haldið uppi allumfangsmikilli leiklistarstarfsemi. Hefur starfsemi félagsins auk starfsins hér í Reykjavík verið í því fólgin að halda fjölmargar leiksýningar víðs vegar úti um landsbyggðina. Um þessar mundir á Leikfélag Reykjavíkur 70 ára afmæli. Enda þótt n. beri ekki fram till. um sérstaka fjárveitingu til félagsins í þessu sambandi, taldi hún þó rétt að koma nokkuð til móts við óskir þess og leggur til, að fjárveiting til félagsins verði hækkuð um 200 þús. kr. – Þá er lagt til, að liðurinn: til minningarlunda og skrúðgarða hækki um 50 þús. — Nýir liðir, sem n: leggur til að teknir verði inn á 14. gr. B. eru: Til Norræna sumarháskólans á Íslandi 125 þús. kr., sem er fyrri greiðsla. Skv. upplýsingum, sem n. fékk hjá menntmrn., er ákveðið, að umræddur sumarháskóli verði haldinn hér á árinu 1968. — Þá er till, um að veita dr. Sigurði Jónssyni fjárveitingu að upphæð 50 þús. kr. til rannsókna á þörungagróðri hér við land. Er hér um sömu upphæð að ræða og dr. Sigurði Jónssyni var veitt á síðustu fjárlögum, en upphæðin hefur fallið niður úr fjárlagafrv. Hér er um verkefni að ræða, sem ekki er að fullu lokið, og því taldi n. rétt að taka upp umrædda fjárveitingu. — Til ritsins Iceland Review er lagt til að veittar verði 80 þús. kr. til útgáfu ritsins, en það er sama upphæð og nú er í fjárlögum. — Þá er lagt til að veita 25 þús. kr. styrk til minnisvarða um Svein Pálsson lækni, til myndlistarskóla í Neskaupstað 20 þús. kr. og til sýningar íslenzkrar alþýðulistar í Hamborg 35 þús. kr. Undirbúning að þessari listsýningu annast þjóðminjasafníð, það lánar munina og annast sendingu þeirra og annað, sem að þessari sýningu lýtur. Alls hækka fjárveitingar skv. 14. gr. B, ef till. n. verða samþykktar, um 860 þús. kr.

Á 15. gr. eru till. um fjárveitingar til kirkjumála: Er þar lagt til, að hækkaður verði við biskupsembættið liðurinn skrifstofukostnaður um 50 þús. kr. og liðurinn ferðakostnaður um 25 þús. kr. — Þá er till. um 140 þús. kr. hækkun á liðnum húsaleigustyrkur presta. Var það talið eðlilegt til leiðréttingar á því misræmi, sem nú á sér stað á milli þeirra presta, sem embættisbústaði hafa til afnota, og hinna, sem ekki eiga þess kost. — Loks er till. um breyt. á liðnum til kristilegs æskulýðsstarfs, 50 þús. kr. hækkun. — Alls hækka fjárveitingar á 15. gr., ef till. n. verða samþykktar, um 265 þús. kr.

Á 16. gr. eru fjárveitingar til atvinnumála og þá fyrst 16. gr. A. til landbúnaðar. Lagt er til, að fjárveiting til Búnaðarfélags Íslands hækki um 400 þús. kr. Helmingur upphæðarinnar er vegna hækkunar á húsaleigu. Að öðru leyti byggist hækkunin á öðrum kostnaðarliðum Búnaðarfélagsins, sem n. telur rétt að leiðrétta: — Til fyrirhleðslna og sjóvarnargarða hefur n. skipt upphæðinni, sem í fjárlagafrv. er, svo sem venja er. Vil ég í því sambandi vísa til þess, sem er á þskj. 92. Upphæðin er hækkuð um 30 þús. kr. skv. till. n. — Þá er lagt til, að liðurinn skrifstofukostnaður hjá landgræðslu hækki um 25 þús. kr. —Til skógræktar er lagt til að hækkaðir verði tveir liðir, þ.e. til skjólbelta 100 þús. kr. og liðurinn til skógræktarfélaga einnig um 100 þús. — Næst kemur liðurinn styrkir til fiskræktar. Þar leggur n. til, að fjárveiting verði tvöfölduð eða hækkuð úr 350 þús. kr. í 700 þús. Fyrir n. lágu nokkur erindi frá aðilum, sem á undanförnum árum hafa lagt út í kostnaðarsamar framkvæmdir og komið sér upp aðstöðu til nokkurrar fiskræktar. Einnig komu á fund n. fulltrúar fiskræktarfélaga, sem óskuðu eftir stuðningi ríkissjóðs til byggingar fiskstiga á Austurlandi. Var þar farið fram á jafnvel enn meira framlag af hendi hins opinbera til framkvæmdanna en núglidandi lög gera ráð fyrir, en það er 1/3 hluti kostnaðar. Sé um einhverjar framkvæmdir að ræða í þessum efnum, sem máli skipta, er hér um svo fjárfrekar framkvæmdir að ræða, að flestum er ofviða að leggja fram fjármagn, sem nægir. Hér er að vísu um atvinnurekstur að ræða, sem allt til þessa hefur gefið litla raun hér á landi. Sá árangur, sem fram kom í Kollafjarðarstöðinni á s.l. sumri, lofar þó nokkru í þessum efnum. Enda þótt gildandi lög heimili ríkissjóði að styrkja byggingu fiskeldisstöðva, fiskstiga og annað það, sem að fiskrækt lýtur, að 1/3 hluta, hlýtur styrkurinn hverju sinni að miðast við þá fjárveitingu, sem Alþ. ákveður. Fyrir Alþ. liggur nú frv. til l. um breyt. á 1. nr. 53 frá 5. júní 1957, um lax- og silungsveiði. Ekki eru í frv. þessu neinar till. um breyt. á þeim kafla laganna, sem veit að fiskrækt eða fiskeldisstöðvum. Vissulega væri þó ástæða til þess að taka þann hluta laganna til frekari endurskoðunar. Till. n. um 700 þús. kr. fjárveitingu nær að sjálfsögðu skammt, en hún er þó viðleitni til þess að koma til móts við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli. — Þá er næst till. um að hækka styrk til einstakra manna til að stunda dýralækningar að upphæð 25 þús. kr. Til Landssambands ísl. hestamannafélaga er till. um hækkun 25 þús. kr. og enn fremur til bændaskólans á Hvanneyri hækkun á tveim rekstrarliðum að upphæð samtals 65 þús. kr. Þá leggur n. til, að teknir verði upp tveir nýir liðir: Til félags áhugamanna um fiskrækt 25 þús. kr. og til landþurrkunar í Út-Hjaltastaðaþinghá 50 þús. kr. — Samtals hækkar 16. gr. A um 1195 þús. kr., verði till. n. samþykktar.

Við 16. gr. B er aðeins ein brtt.: Til reikningaskrifstofu sjávarútvegsins 35 þús. kr. hækkun.

Næst eru brtt. n. við 16. gr. E, til rannsókna í þágu atvinnuveganna. N. átti viðræður við alla forstöðumenn rannsóknastofnananna, og kom fram í þeim viðræðum, að ekki væri breytinga þörf nema hjá Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. N. leggur til, að annar kostnaður hjá Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins hækki um 200 þús. kr., og er það til þess, að fullnægt verði ákvæðum laga um mótframlag ríkisins til stofnunarinnar. — Til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins er lagt til, að tekinn verði upp nýr liður: til kalrannsókna 75 þús. kr., og enn fremur til jarðræktartilrauna, rekstrarkostnaður verði hækkaður um 100 þús. kr. Þá er lagt til, að annar kostnaður af fjárræktarbúinu á Hesti hækki um 100 þús. kr. og sami liður hjá tilraunastöðinni á Korpúlfsstöðum hækki um 50 þús. kr. — Samtals hækkar þá 16. gr. E um 525 þús. kr.

Á 17. gr. eru fjárveitingar til félagsmála. Lagt er til, að styrkur til Iðnnemasambands Íslands hækki um 50 þús. kr., að upp verði tekinn nýr liður: til sjúkraflugs á Vestfjörðum 125 þús. kr., og einnig til Svifflugfélags Íslands 100 þús. kr. — Til starfskvennaskóla Sumargjafar er till. um 40 þús. kr. hækkun. — Þá eru till. um skiptingu á fjárveitingum til byggingar dagheimila, og vísast til tillagna nefndarinnar á þskj. 92 þar um. — Til Geðverndarfélags Íslands er till. um 50 þús. kr. hækkun. — Til Bandalags ísl. farfugla er lagt til að hækka um 25 þús. kr., og er sú upphæð ætluð til starfsemi félagsins á Norðurlandi. Til æskulýðsnefndar Eyjafjarðar er till. um 25 þús. kr. fjárveitingu, sem er nýr liður. — Þá kemur till. n. um 1 millj. kr. fjárveitingu til byggingar elliheimilis á Ísafirði, en það er í tilefni af 100 ára afmæli kaupstaðarins, sem var á s.l. sumri. — Loks er till. um 25 þús. kr. hækkun til rekstrar sjómannaheimilis í Neskaupstað. - Samtals hækka fjárveitingar á 17. gr. um 1 millj. 390 þús. kr. skv. þessum brtt. nefndarinnar.

Við 20. gr. eru nokkrar brtt. Lagt er til, að tekinn verði upp nýr liður: til Kristneshælis til byggingar starfsmannahúss og til greiðslu kostnaðar við malbikun 1 millj. kr. — Til sjúkraflugvalla er lagt til, að liðurinn hækki um 200 þús. kr. — Til byggingar sjómannaskólans, þar leggur n. til, að fjárveiting hækki um 360 þús. kr. og verði samtals 1 millj. Er þá sérstaklega haft í huga að koma lóð skólans í viðunandi horf. — Þá er lagt til, að framlag til byggingar lögreglustöðvar á Akureyri verði hækkað um 200 þús. kr. og niður falli orðið „lokagreiðsla“. Vegna misskilnings var talið, að hér væri um lokagreiðslu að ræða, og leiðréttist það því hér með. — Loks er till. um 6 millj. kr. fjárveitingu til jarðeignasjóðs ríkisins. Hér er um framkvæmdaatriði að ræða, sem snertir það samkomulag, sem ríkisstj. gerði við fulltrúa bænda á s.l. hausti, þegar búvöruverðið var ákveðið. Varðandi þennan lið er gert ráð fyrir, að ákvæði verði sett um þetta með lögum, með frv., sem væntanlega verður lagt fyrir Alþ. innan skamms.

Við 22. gr. eru till. um heimildir til handa ríkisstj. Er þar fyrst um orðalagsbreytingu að ræða á 24. lið, fyrir „m/s Esja“ kemur: m/s Hekla og m/s Skjaldbreið. Svo sem kunnugt er varð það að ráði, að m/s Hekla var seld úr landi, en ekki Esja, eins og ætlað var í upphafi, og enn fremur er talið, að viðgerðarkostnaður m/s Skjaldbreiðar verði svo mikill, að ekki borgi sig að gera við skipið, og því rétt að afla heimildar til sölu, svo sem hér er lagt til. — Þá er lagt til, að upp verði teknir 3 nýir liðir: Að greiða hluta Íslands í kostnaði við flutninga aðalstöðva NATO frá Frakklandi. Að endurgreiða aðflutningsgjöld af kvikmyndasýningarvélum fyrir samkomuhús í kauptúnum með innan við 600 íbúa, þó ekki nema einni vélasamstæðu á hverjum stað. Að verja 30 millj, kr. af greiðsluafgangi ársins 1966 til framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Um þennan lið gegnir sama máli og 6 millj. kr. til jarðeignasjóðs á 20. gr., hann er einnig liður í því samkomulagi, sem gert var við bændur á s.l. hausti, og er ætlaður til hagræðingar í framleiðslu landbúnaðarins. Um hann verða einnig sett ákvæði í lögum, sem væntanlega verður lagt frv. um fyrir Alþ. innan skamms. Það er lagt til að verja þessari upphæð af tekjuafgangi ársins 1966 vegna þess, að upphæðin á að koma til útborgunar á yfirstandandi ári.

Verði brtt. fjvn. og meiri hl. hennar, sem ég hef nú lýst, samþ., leiðir það af sér, að á rekstraryfirliti 21. gr. hækkar rekstrarafgangur um 46 millj. 452 þús. kr. og á sjóðsyfirliti sömu gr. út hækkar liðurinn afborganir lána og til eignaaukningar um 7 millj. 740 þús. kr. Á rekstraryfirliti verður því greiðsluafgangur 427 millj. 518 þús. kr., en á sjóðsyfirliti greiðslujöfnuður að upphæð 189 millj. 482 þús. kr. Hver greiðslujöfnuður fjárlagafrv. endanlega verður, er ekki hægt að segja um að svo komnu máli. Fer það að sjálfsögðu að mestu eftir því, sem ég áður hef sagt varðandi viðbótarfjárveitingar vegna niðurgreiðslu á vöruverði og hækkunar fjölskyldubóta. Mun hvor tveggja þessara liða liggja fyrir við endanlega afgreiðslu málsins við 3. umræðu.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að ræða um brtt., sem nefndin hefur leyft sér að flytja við þessa umr. Till. n. og sú athugun, sem n. hefur gert varðandi afgreiðslu málsins, eru grundvallaðar á því sjónarmiði, að fjárlagafrv. beri að afgr. greiðsluhallalaust. Ég vænti þess, að þrátt fyrir þann ágreining, sem fyrir hendi kann að vera í einstökum atriðum um afgreiðslu málsins, þá séu allir alþm. sammála um þetta grundvallaratriði og nauðsyn þess fyrir þjóðarbúskapinn.

Ég vil svo, herra forseti, vænta þess, að till. n. hljóti samþykki og að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til 3. umr.