31.10.1966
Efri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

6. mál, almannavarnir

Alfreð Gíslason:

Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv. að sinni. Það er öllum kunnugt, að lög um almannavarnir voru á sínum tíma sett af hæstv. ríkisstjórn sem eins konar plástur á slæma samvizku. Hæstv. ríkisstj. getur sætt sig við herstöðvar og ýmiss konar önnur hervirki í landinu. Hæstv. ríkisstj. getur sætt sig við, að hér í þessu landi hreiðri um sig erlend þjóð, einhver herskáasta þjóð nútímans, með her. Vitað er, að meginhættan, sem að okkur Íslendingum steðjar, ef til ófriðar kæmi, er frá erlendu herstöðvunum í landinu. Þess vegna er það ekki út í hött, þegar á það er bent, að beztu almannavarnirnar hér á landi séu að leggja herstöðvarnar niður og láta hinn erlenda her fara. En hæstv. ríkisstj. fæst ekki til að hlusta á þessa góðu ráðleggingu, og svo kemur hún því til leiðar, að sett eru lög um almannavarnir. Á þau lög ber að líta, eins og ég segi, sem eins konar plástur á slæma samvizku hæstv. ríkisstj. Gallinn er sá, eins og fram kemur í grg. með frv., að almenningur hefur engan áhuga á þessu tiltæki hæstv. ríkisstj., og ég get ekki láð honum það. Það er erfitt, og hefur reynzt erfitt á þessum 4 árum síðan gildandi lög voru sett, að fá almenning til að anza því, sem þar er lögboðið. Og það er ekki nóg með það, að almenningur sé andvígur því að leggja út í þann kostnað og þá fyrirhöfn, sem framkvæmd þessara laga mundi hafa í för með sér, heldur eru allflest sveitarfélög landsins því brambolti andvíg líka. Það er aðeins hæstv. ríkisstj., sem virðist hafa virkilegan áhuga á lögunum eða ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi áhuga á þeim. Það má vera, að hæstv. ríkisstj. hafi fyrst og fremst áhuga á setningu laganna og gefi minna fyrir framkvæmdina. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. geti sætt sig við það, að þessi miklu lög séu sett, en að þau séu og verði pappírslög, eins og þau hafa verið síðustu 4 árin, frá því að þau voru sett. Þetta má vel vera. En annars hefði ég haldið, að ekki væri ólíklegt, að hæstv. ríkisstj. hefði áhuga á framkvæmd laganna. Það er eitt, sem getur skorið úr um það með öðru, hvort hæstv. ríkisstj. hafi nokkurn áhuga á, að lögin séu framkvæmd, og nú langar mig til að bera upp fsp., sem snertir þetta atriði, Í mörgum greinum laganna um almannavarnir er gert ráð fyrir því, að ráðh. setji nánari reglur um ákvæði viðkomandi greina. Það er gert ráð fyrir því, að ráðh. setji reglugerðir um eitt og annað, sem tiltekið er í lögunum. Nú vil ég spyrja:

1) Hefur hæstv. dómsmrh. sett þessar reglur? Það eru 4 ár síðan lögin öðluðust gildi. Eru þessar reglugerðir til? Ég spyr, ég veit ekki, hvert svarið er. Það getur vel verið, að þetta hafi verið gert, og þá upplýsist það. Hefur dómsmrh. t.d. sett reglur um starfsskyldur manna í þágu almannavarna og um hámarkstíma fyrir skyldunám og æfingar skv. 14. gr. laganna? Um þetta vildi ég spyrja í fyrsta lagi.

2) Hefur ráðh. gefið út reglugerð með nánari ákvæðum um einkavarnir, svo sem lagt er fyrir í 19. gr. laganna?

3) Ég vildi mega spyrja: Hve mörgum atvinnufyrirtækjum hafa borizt fyrirmæli frá almannavarnanefndum um öryggisráðstafanir á vinnustað í því skyni að draga úr afleiðingum tjóns vegna hernaðaraðgerða, sbr. 15. gr.?

4) Hvað hafa almannavarnanefndir ákveðið um skyldur húseigenda til að hafa í húsi sínu nauðsynleg björgunar- og eldvarnatæki?

5) Hefur ráðh. sett reglur um áætlun á framkvæmd brottflutnings manna af hættusvæðum, sbr. 20. gr.? Um allt þetta á að setja reglur, og flestar þær reglur á hæstv. dómsmrh. að setja eða hafa sett. Loks er það tiltekið í 26. gr., að dómsmrh. skuli setja reglugerðir skv. lögum þessum. Hafa þær reglugerðir verið settar? Hve mikið af þessu hefur þegar verið framkvæmt af hæstv. ráðh. og öðrum, og hve mikið er enn ógert? En eitt er víst, að til framkvæmda hefur ekkert af þessum atriðum, sem ég nefndi hér, komið. Húseigendum hafa t.d. ekki borizt neinar tilkynningar um ráðstafanir í húsum sínum. En þetta veit hæstv. ráðh. betur en ég, og það er heldur ekki svo, að ég sé að áfellast neitt, á meðan ég veit ekki, hvert svarið verður.

Þær breyt., sem um er að ræða hér í þessu frv. frá gildandi lögum, eru góðar að mínum dómi, en það er þó vert að athuga málið nánar í sambandi við þær. Það er sérstaklega þetta. Hér á landi er mjög öflugt slysavarnafélag, Slysavarnafélag Íslands, sem hefur deildir um allt land. Við höfum enn fremur Rauða kross Íslands með sínum deildum um allt land. Starfsemi þessara samtaka beggja er öflug og lífræn, enda skilin og studd af almenningi í stórum stíl með frjálsu framlagi fyrir utan lítils háttar styrk frá ríkinu. Nú er til þess ætlazt skv. lögunum, að almannavarnir gangi inn á svið þessara samtaka að verulegu leyti. Ég vil sérstaklega benda á, að það er eitt af hlutverkum Rauða kross Íslands hér á landi og um allan heim að vera við því búinn að veita hjálp, ef náttúruhamfarir valda tjóni. M.ö.o., skv. þessum lögum eiga almannavarnir að ganga inn á verksvið tveggja stórra og öflugra samtaka, sem fyrir eru í landinu. Hvað segja þessi samtök við þessu? Hefur verið haft samráð við stjórnir þeirra, þegar þetta frv. var samið eða hugsað? Ég vil ekki tjá mig samþykkan þeim breyt., sem felast í þessu frv., fyrr en ég veit svar við þessu. Auk þess verður að athuga það mjög vandlega, hvort rétt er á þessu stigi málsins, að ríkið með sínum almannavörnum fari að ganga mjög inn á svið þeirra stóru félagssamtaka; sem ég nefndi áðan. Hvort um einhvers konar samvinnu geti verið að ræða, veit ég ekki, en hefur það mál verið kannað við viðkomandi félög? Þetta finnst mér ástæða til að benda á þegar í upphafi málsmeðferðar hér á Alþ. Er meiningin að hafa þessa slysahjálp í þrennu lagi? 1) Almannavarnir ríkisins, 2) Rauða kross Íslands, 3) Slysavarnafélag Íslands? Fyrir svo utan það, að það eru enn fleiri félagasamtök, sem vinna að svipuðum málum. Hjálparsveitir skáta eru vel skipulagður hópur, sem vinnur í svipuðum anda og hér er um rætt. Flugbjörgunarsveitir, sem eru til víðs vegar um land, eru einnig þjálfaðar til þess starfs, sem hér gæti verið um að ræða. Það má segja, að með þessu frv. sé verið að bæta nýjum aðila við. Að vísu, eins og fram kemur í aths. við frv. og hv. ráðh. tók fram, er ætlazt til einhvers konar samvinnu við þessa aðila, en hvernig er sú samvinna hugsuð? Og hver er afstaða félaganna til þeirrar samvinnu? Væri kannske rétt að leggja niður Slysavarnafélag Íslands og leggja allt undir almannavarnir og víkka hlutverk almannavarna enn meir, eða væri rétt að leggja niður Rauða kross Íslands og láta almannavarnir taka við þeirri starfsemi allri? Með því móti tel ég ekki útilokað, að gera mætti almannavarnir sæmilega vinsælar í landinu. Ég held, að þetta, sem hér er um að ræða nú, sé eingöngu komið til af því, að almannavarnir í sinni núverandi mynd eiga engan hljómgrunn hjá þjóðinni. Þetta kemur raunar mjög skýrt fram í fskj., álitsgerð skrifstofu almannavarna, þar er kvartað yfir áhugaleysi almennings. Orsakir eru taldar ekki hvað sízt vera efi um nauðsyn framkvæmda. Þetta held ég, að sé nú ekki rétt. Ég held, að það sé miklu frekar efi um gagnsemi framkvæmda, sem er orsök til áhugaleysisins. Ég held, að almenningur hafi opin augu fyrir því, að þetta, sem hér er um að ræða, er kák, og það eina, sem gera bæri, væri að leggja herstöðvar niður í landinu. Það yrðu beztu almannavarnir, sem hægt væri að gera, og það mundi almenningur skilja.

Ég held ekki, að ég þurfi að hafa um þetta fleiri orð á þessu stigi málsins, en ef til vill gefst tilefni til að ræða þetta nánar síðar.