28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. nr. 101 8. des. 1966 um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl., sem hér er tekið til 2. umr. í hv. Ed., hefur landbn. rætt á fundi í gær og varð sammála um að leggja til, að frv. yrði samþykkt og samþykkt óbreytt, eins og nál. á þskj. 88 ber með sér. Ég þarf ekki að fjölyrða svo mjög um þetta frv. Það er flutt í samráði við fulltrúa bænda og neytenda í Sexmannanefnd, eins og hæstv. landbrh. tók fram í framsöguræðu með frv. hér í hv. Ed. í gær. Einnig hefur formaður yfirdóms um verðlagningu landbúnaðarvara haft samband við nefndina og tjáð sig samþykkan frv. og óskað eftir því, að málinu yrði hraðað eins og föng væru á. Frv. felur í sér, að að þessu sinni skuli verðlagsgrundvöllur sá, er ákveða skal á þessu hausti, gilda aðeins í eitt ár, en gildandi lög gera ráð fyrir, að verðlagsgrundvöllur til ákvörðunar afurðaverðs gildi fyrir 2 ár í senn. Því hefur áður verið lýst við umr. um þetta frv., hverjum annmörkum það er háð að hafa þann hátt á að þessu sinni, svo ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, en ég vil, herra forseti, ítreka það, að landbn. leggur það til einróma, að frv. verði samþykkt óbreytt.