09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það eru fyrst nokkur orð utan dagskrár í tilefni af þeirri fsp., sem ég bar hér fram varðandi þá grein, sem var í Alþýðublaðinu í morgun, að tvær ríkisstofnanir hefðu heldur tekið tilboði frá erlendum verktaka en innlendum, þó að í a.m.k. öðru tilfellinu væri um lægra tilboð að ræða.

Hæstv. viðkomandi ráðh. svöruðu því, að þeir mundu bregðast þannig við að senda um þetta mál grg. til blaðanna. Það er að sjálfsögðu gott, svo langt sem það nær. En ég hefði nú talið heppilegra og eðlilegra, þar sem fsp. um þetta er borin fram hér á Alþingi, að skýrslur ráðh. væru einnig lagðar fram þar og þær þá ræddar, ef ástæða þætti til eða menn teldu að málavextir væru þannig, að það væri ástæða til að ræða það nánar á þessum vettvangi, en það mundi ég hiklaust telja, ef málavextir yrðu eins og Alþýðublaðið skýrir frá, því að ég vil láta það koma alveg greinilega fram, að ég tel, að þá hafi verið rangt að farið af viðkomandi ríkisstofnunum og ráðh. og þar sé um svo alvarlegan verknað að ræða, að það væri ástæða til þess að ræða um það mál á Alþ. Ég vildi þess vegna fara þess á leit við þessa hæstv. ráðh., ef þeir sæju sér fært, að þeir létu koma fram grg. um þetta mál hér á Alþingi þannig að það gæfist þá kostur á að ræða nánar um það.

Vegna þess, að ég tala um þetta mál utan dagskrár og tími minn er takmarkaður, skal ég ekki fara um það öllu fleiri orðum að sinni, en sem sagt, ég legg áherzlu á það, að skýrsla um þetta mál verði gefin hér í þinginu.

Hæstv. fjmrh. svaraði því til í sambandi við athugun á undanþágu á bótum almannatrygginga, en um það gaf hann það loforð í fyrra, að það mál skyldi sérstaklega tekið til athugunar fyrir næsta þing, að hann hefði snúið sér til Sambands ísl. sveitarfélaga og óskað eftir áliti þess. Ég held, að það hafi nú verið óþarft, vegna þess að það álit lá fyrir í fyrra, og maður gat vel skilið, hver afstaða þess er. Og þegar lofað var sérstakri athugun á þessu máli á þinginu í fyrra, reiknuðu menn almennt með því, að málið yrði tekið upp í ríkisstj. og því ráðið til lykta þar. En það hefur hvað eftir annað komið fram, a.m.k. í flokksþingssamþykktum og miðstjórnarsamþykktum Alþfl., að hann er því fylgjandi, að bætur almannatrygginga séu undanþegnar bæði útsvörum og tekjuskatti, og þess vegna bygg ég, að þm. hans hafi knúið fram þessa yfirlýsingu til athugunar í ríkisstj. en mér skilst, að það hafi ekki verið gert, heldur hafi verið látið nægja að leita álits stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um málið. Við því er ekkert að segja. Það hefur aðeins komið í ljós, að það hefur ekki verið staðið við það fyrirheit, sem var gefið hér á þinginu í fyrra. Nú er málið komið hér aftur fyrir og nú er að taka afstöðu til þess, og ég vænti, að það komi þá í ljós, að Alþfl. standi við þær yfirlýsingar, sem bæði þing hans og miðstjórnarfundir hafa gefið um þetta mál. Það, sem ég vildi svo segja um þetta efni að lokum, er það, að mér finnst, að það leiði það mjög greinilega í ljós, að það er orðið meira en tímabært að endurskoða öll þessi mál í heild, tekjustofna sveitarfélaganna, og að það sé eiginlega útilokað að búa við það fyrirkomulag til frambúðar, sem nú er í þessum efnum. Það hefur lengi verið mín skoðun, að það ætti að sameina tekjuskattinn og útsvarið og gera það að einum tekjustofni. Mér finnst að þetta sé eiginlega hrein kleppsvinna að vera að leggja þessa skatta á í tvennu lagi og reikna þá út í tvennu lagi, því að það kostar gífurlega mikla vinnu, og það er náttúrlega eitt af þeirri hagræðslu, sem á að koma, að þessir skattar tveir séu sameinaðir. Og það má vel hugsa sér það, að sveitarfélögin verði alveg látin búa að þessum tekjustofni. En ef til vill er hann of ríflegur til þess að eiga ekki að sinna víðtækari verkefnum en þau hafa í dag, en ég álít, að það komi mjög til greina, að með auknum tekjum verði sveitarfélögunum líka ætlað að annast fleiri verkefni heldur en þau gera nú, og mundi að ýmsu leyti telja það til bóta, þannig að ekki dragist allt í hendurnar á þessu stóra ríkisbákni, sem hefur verið að vaxa í landinu á undanförnum árum, heldur verði þessu meira dreift, og það tel ég að verði gert m.a. með þeim hætti, að sveitarfélögunum verði betur séð fyrir tekjustofnum heldur en gert er í dag. Verkefni þeirra þá kannske eitthvað aukin, en aftur á móti dregið úr þeim verkefnum, sem ríkið sjálft hefur annazt. En ég held, að það sé ljóst af allri þeirri ringulreið, sem hefur verið í sambandi við þetta mál í báðum d. þingsins, — og þó erum við ekki að fjalla nema um útkantinn á því — að þörfin fyrir heildarendurskoðun á þessum málum sé orðin næsta brýn og það eigi ekki að líða enn langur tími, þangað til málið allt verður tekið til heildarendurskoðunar og gerbreytingar og þá m.a. með það fyrir augum, eins og ég sagði áðan, að sameina þessa tvo tekjustofna, tekjuskattinn og útsvarið, vegna þess að það er raunverulega ekkert orðið annað en kleppsvinna að vera að fást við þetta svona í tvennu lagi með öllum kostnaði, sem því fylgir.