09.04.1968
Neðri deild: 96. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja þessar umr. Þær eru nú búnar að taka nokkuð langan tíma. Ég óskaði eftir því við 2. umr. málsins hér í dag, að meiri hl. heilbr.- og félmn. tæki aftur brtt. sína á þskj. 479, þ.e.a.s. fyrri lið brtt. Þetta hafa þeir gert, og ég vil leyfa mér að þakka þeim fyrir það. Frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. var nú dálítið kvíðafullur í sambandi við það að taka aftur þessa till. og óttaðist það, að þau sveitarfélög, sem verst væru sett, mundu jafnvel gjalda þess, að prósentunni yrði breytt úr 20% í 15%, en ég held, að hann þurfi nú engu að kvíða í því sambandi. Ég held, að þetta sé til bóta og þessi ósk mín, sem ég flutti hér úr ræðustól, var samkv. eindregnum óskum sveitarstjórnarmanna, og ég held, að þeir hafi vitað, hvað þeir voru að syngja í þessum efnum. Svo ætla ég ekki að orðlengja frekar um það, en ég þakka meiri hl. þann skilning, sem hann hefur sýnt í þessu máli.

Brtt., sem 5. þm. Norðurl. e. flutti hér um það, að aðstöðugjald á tilbúnum áburði yrði það sama og á rekstri fiskiskipa og flugvéla, finnst mér mjög sanngjörn, og ég mun styðja hana við atkvgr. Sömuleiðis vil ég segja það hér, að þó að ég sé eindreginn styrktarmaður sveitarfélaganna og talsmaður þeirra þann litla tíma, sem ég hef verið á þingi, þá vil ég nú segja það í sambandi við fjáraflanir sveitarfélaga og löggjöf þar að lútandi, að mér finnst ekki ósanngjörn þessi brtt. hv. 4. þm. Vestf. Mér finnst það ekki ósanngjarnt, að þeir, sem reka atvinnufyrirtæki og verða fyrir skakkaföllum, verða fyrir taprekstri, séu lögverndaðir þannig í þessu tilfelli í tekjustofnalögunum, að það sé lögákveðið, að þeir fái að skipta tapinu á milli ára. Nú er það þannig og mér finnst rétt, að það komi hérna fram, að þetta er mjög víða og sveitarfélögin hafa mjög gáð að því, að ekki brotni óheillabrim á þessum félögum í sambandi við álagninguna, þannig að þetta er nú ekki eins hættulegt kannske og 4. þm. Vestf. sagði. En mér finnst það engu spilla, þó að það sé tekið í lög, að það sé heimilað í sambandi við útsvarsálagningar, að tap á fiskiskipum og útgerð verði fært á milli ára. Ég held, að hér verði ekki eins mikill munur á eins og tveir síðustu ræðumenn hafa látið í veðri vaka.