11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, var við merkingu framboðslistanna við kosningarnar í vor hérna í Reykjavík mjög djúpstæður ágreiningur um túlkun gildandi kosningalaga, þar sem úrskurðir yfirkjörstjórnar í Reykjavík annars vegar og landskjörstjórnar hins vegar gengu gersamlega í gagnstæðar áttir. Ég ætla ekki hér að rifja upp rök þessara kjörstjórna, hvorki yfirkjörstjórnarinnar í Reykjavík, sem merkti lista Hannibals Valdimarssonar I, né heldur rök landskjörstjórnar, sem merkti þennan sama lista bókstöfunum GG, enda hefur það þegar verið gert að nokkru, og sem fskj. með kjörbréfum þm. eru þessir úrskurðir og öllum að sjálfsögðu auðvelt að kynna sér þá. En af þessu, sem hér hefur fram komið, er vitanlega augljóst mál, að full þörf er á þeirri lagfæringu kosningalaganna, sem hæstv. menntmrh. og nú hæstv. dómsmrh. boðuðu. Enda fer vel á því, að hv. stjórnarflokkar lagi ágalla þeirra l., sem þeir settu 1959 um kosningar til Alþingis. Það segir sína sögu um þá smíð, að sjálfir höfundar laganna treysta sér ekki til að greiða atkv. um ágreiningsmál, sem risið er út af túlkun þessara laga.

En að öðru leyti vil ég af þessu tilefni aðeins segja þetta: Við fulltrúar Framsfl. í 3. kjördeild greiddum atkv. með samþykkt kjörbréfs Steingríms Pálssonar, 8. landsk, þm., á þeim forsendum, að landskjörstjórn hafði fyrir kosningar ákveðið að merkja lista borinn fram af Hannibal Valdimarssyni o.fl. í Reykjavík Alþb., þ.e. með bókstöfunum GG. Meðmælendur listans báru hann fram í nafni Alþb. og verður að ætla, að kjósendur hans hafi viljað, að atkv. þeirra kæmu þeim flokki til góða.