16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh. Það er látið að því liggja, bæði í grg. og þegar talað hefur verið fyrir þessu frv., að hér sé í raun og veru ekki um svo mikinn vanda að ræða að draga línuna. Þetta liggi nokkuð ljóst fyrir, núna sé það Reykjavík og næsta nágrenni, ennfremur Akureyri og þar með punktum og basta. Það má vel vera, að núverandi valdhafar líti svo á, að þannig sé þetta nú í dag. En ég vil benda á það, að orðalag 9. gr. gefur fyllilega tilefni til þess að álíta, að hér geti orðið um matsatriði að ræða. 9. gr. hefst á þessa leið: „Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins innan þeirra svæða, þar sem eðlilegur markaður hefur skapazt fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu, sbr. reglugerð, er sett verður samkv. 11. gr., skal selja þegar í stað,“ o.s.frv.

Þar sem eðlilegur markaður hefur skapazt segir þar. Nú er það svo, sem betur fer, að það hefur verið og er eðlilegur markaður fyrir íbúðarhúsnæði á fleiri stöðum en í Reykjavík og næsta nágrenni og svo á Akureyri. Það hefur verið á nokkrum svæðum á Austurlandi um tíma enginn hörgull á því að selja húseignir á eðlilegu verði. Og mjög mikil eftirspurn og raunar vandræði eru þar með húsnæði. En á þessum sömu stöðum eru sömu vandkvæðin á um embættismennina eins og annars staðar, þar sem húsnæði er í minna verði, þannig að þetta getur verið töluvert mikið matsatriði. Það er að vísu rétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að þessi aðstaða getur verið tímabundin, hún getur verið breytileg, en það breytir hins vegar ekki því, að þarna getur oft og einatt verið um mikið matsatriði að ræða. Og með þessu frv., ef að lögum verður, þá er sú breyting gerð, að í staðinn fyrir, að ríkið hafi vissar skyldur varðandi húsnæðismál embættismanna, þá er valdið lagt í hendur einstakra ráðh. Hér er verið að opna leið fyrir óeðlilegt reiptog um þessi mál.

Ég get ekki fallizt á það, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., að með þessu frv. sé vald Alþ. aukið á einhvern hátt. Ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi átt við ákvæði 4. gr. frv., þar sem segir: „Óheimilt er að byggja eða kaupa nýtt íbúðarhúsnæði samkv. lögum þessum, nema fé sé til þess sérstaklega veitt á fjárl. og fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi ráðh. um að í byggingu eða kaup skuli ráðizt.“ En ég hefði nú haldið, að það þyrfti fjárveitingar á fjárl. í embættismannabústaði nú þegar. Nei, þvert á móti er valdið yfir þessum málum tekið frá löggjafanum með frv. og lagt í hendur einstakra ráðh.

Þetta tel ég rangt. Og þar sem ekki liggja fyrir beinar tillögur um skiptingu í svæði, þá legg ég til að vísa málinu frá með dagskrá.