21.03.1968
Efri deild: 73. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

14. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil sem einn af nm. að þessu nál. aðeins láta í ljós þá skoðun varðandi frv. eins og það lá fyrir, að ég var á móti þeim tón, sem þar kom fram, en hann var, almennt séð, í þá átt að stytta undirbúningstíma hjá skipstjórum, einmitt á þeim tíma, þegar fleiri og flóknari tæki koma til og þegar meiri þekkingar er krafizt til þess að fara með það, sem sett er í skipin. Það finnst mér alveg öfug þróun. Það breytir engu þó að hv. skólastjóri Sjómannaskólans hafi verið aðili að frv. og ágætir fulltrúar með honum. Ég tel rangt að skerða þann undirbúningstíma, sem settur var í lög og talinn hefur verið nauðsynlegur undanfarið til þess að öðlast þá þekkingu og hæfni, sem skipstjórnarmanni er nauðsyn að hafa til að vera öruggur í sínu starfi. Það hefur komið fram, bæði hér á Íslandi og annars staðar, að sú aukna þekking, sem þarf, vegna fleiri tækja í bátunum, kostar falsvert og það tekur tíma að afla hennar.

Við vorum sammála í n. um það, að það væri ekki rétt stefna að sinni að skerða þann undirbúningstíma svo mikið sem frv. gerði ráð fyrir, en hins vegar vorum við á því, að það mætti miða við yngri aldur viðkomandi persónu en verið hafði, þ.e. fara úr 16 árum niður í 15 ár. Þetta vildi ég, að kæmi fram, og eins það, að í sambandi við það að talað er um að fella niður stýrimanninn á bát allt að 60 rúmlestum, ræddum við um það öryggi, sem því fylgir að hafa hæfa menn sem víðast, þrátt fyrir þá staðreynd, að í dag eru undanþágur allt of almennar. Það er auðvitað ástand, sem þarf að ráða bót á, en bót getur ekki falizt í því að strika út þá þekkingu, sem nauðsynleg er til að stjórna skipi, vegna þess að þrátt fyrir allt er auðvitað mannslífið það verðmætasta, síðan er báturinn, skráður á ákveðnu krónuverðmæti, og við megum ekki slaka á nema tilneyddir og að vissu marki.

Þetta er mín skoðun, og þetta er held ég sú almenna skoðun, sem á hljómgrunn víða, að við komumst ekki hjá því að hafa visst aðhald. Hins vegar eru ýmsar orsakir til þess, að þetta hefur þróazt upp í of almenna undanþágu, því miður. Það þyrfti að rannsaka sérstaklega, hvað liggur á bak við slíka þróun, og fráleitt er, ef það er orðin féþúfa að veita slíkar undanþágur upp á 1500 kr. á mann. Mér finnst mjög undarlegt, að þessar undanþágur þurfi að kosta svona mikið, og ég tel varhugavert að fara til baka að frv., eins og það lá fyrir, og skerða það, sem nauðsynlegt er, þ.e.a.s. þekkingu til þess að geta stjórnað skipunum sem allra bezt og veitt öllum sem mest öryggi.