16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

14. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er til umr., er komið frá Ed., og hefur sjútvn. d. haft málið til athugunar á nokkrum fundum og kynnt sér þær umsagnir, sem lágu fyrir, þegar málið kom til þings, og einnig þær mörgu umsagnir, sem borizt hafa til Alþ. síðan, en eins og segir í nál. frá sjútvn., hafa mjög veigamiklar mótbárur verið bornar fram gegn frv. í þeirri mynd, sem það var borið fram í byrjun, og eins reyndar gegn því, eins og það kemur frá Ed. Sjútvn. Nd. hefur tekið til greina margar af þessum mótbárum, sem hafa m.a. borizt frá Skipstjórafélagi Íslands, Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi á Suðurnesjum, frá aðalfundi Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar, frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Ægi, Slysavarnafélagi Íslands og frá nokkrum siglingafræðikennurum við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Þá hafa einnig borizt munnleg mótmæli frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Bylgjunni á Ísafirði, og auk þess hefur n. fengið upplýsingar, sem falla í sama farveg, frá forstöðumanni lögskráningarskrifstofunnar hér í Reykjavík.

Eins og segir í nál., er höfuðáherzlan lögð á það í þessum mótmælum, að um mikla afturför sé að ræða, þegar segir í þessu frv., að eigi skuli þurfa að hafa stýrimann á landróðrarbátum undir 60 rúmlestum að stærð í stað 30 rúmlesta samkv. gildandi lögum, og enn fremur, að það sé vafasamt að stytta siglingatímann, sem þarf til þess að öðlast réttindi, bæði sem skipstjóri og stýrimaður, svo og að lækka aldursmarkið, sem siglingatíminn er miðaður við, úr 16 árum í 15 ár.

Við höfum ekki orðið algerlega sammála kollegum okkar í Ed. um siglingatímann. Við erum að vísu sammála þeim um það, að rétt sé að fallast á nýmælið um að telja hann frá 15 ára aldri, en við erum þess fullvissir, að margir þeirra, sem mótmælt hafa þessum ákvæðum, hafi ekki gert sér grein fyrir því, að fyrir aðeins tveim árum var samþ. hér á Alþ. ný löggjöf um Stýrimannaskólann í Reykjavík, og reyndar er enn styttra síðan sambærilegar breytingar voru gerðar á l. um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, en með þeim lagabreytingum var námstími til undirbúnings fyrir öll próf, sem tekin eru í stýrimannaskólunum, lengdur mjög. Og þegar haft er í huga, að þessi lenging á skólanámstímanum hefur fyrst og fremst verið notuð til þess að auka þekkingu nemenda á helztu raf- og radíótækjum, sem notuð eru í skipum, ekki aðeins við veiðarnar sjálfar, heldur og við siglingu skipanna, en notkun þeirra hefur farið stórlega í vöxt nú á síðustu árum, og þegar vitað er, að það hefur síður en svo verið dregið úr kennslu í verklegri sjómennsku, frekar hefur hún verið aukin, þá teljum við, að sá aukni skólatími, sem nú liggur til grundvallar menntun þessara manna, vegi fullkomlega upp á móti styttingu siglingatímans sjálfs.

Við höfum hins vegar fallizt á rök aðila, sem við n. hafa rætt, þ. á m. nokkurra kennara úr Stýrimannaskólanum, um það, að ekki væri rétt, um leið og leyfilegt væri að miða upphaf svokallaðs siglingatíma við lægri aldur en áður, að lækka þá einnig aldursmarkið sem tilskilið er til að fá stýrimannsatvinnuskírteini í hendur og taka til starfa sem stýrimaður, heldur eigi að hækka það nokkuð. Þykir mörgum aldursmarkið vera býsna lágt þrátt fyrir það, þegar haft er í huga, að stýrimenn með meira fiskimannapróf frá stýrimannaskólunum geti komizt í það að stjórna 60–70 manna hóp og jafnvel að taka við skipstjórn á togskipum með þennan fjölda manna, þótt þau séu ekki fyrir hendi hjá okkur í dag. Það sé því nokkuð mikill ábyrgðarhluti að láta yngri menn en tvítuga fá þessi réttindi, stýrimannsréttindi á slíkum skipum. Við höfum þess vegna viljað verða við þessum óskum og leggjum til, að þessi aldursákvæði verði hækkuð nokkuð.

Ég mun nú fara lauslega í gegnum þær brtt., sem sjútvn. leggur til að gerðar verði á frv., eins og það kom frá hv. Ed. Ég vil taka það fram, að hv. þm. Sverrir Júlíusson skrifar undir nál. með fyrirvara gagnvart þeim lið, sem ég hef þegar minnzt á, að í stað 60 rúmlesta komi 30 rúmlestir í 21. gr., en er að öðru leyti samþykkur þeim brtt., sem við leggjum til, að gerðar verði á frv.

Þrjár fyrstu brtt. eru nánast leiðrét2ingar, en í b-lið 3. brtt. leggur n. til, að aftur sé tekið upp í lögin ákvæði um það, að til þess að fá vottorð um lægstu réttindi, sem skipstjórnarmönnum heimilast hér á landi, þurfi þeir að koma með vottorð um sundkunnáttu. Við vitum, að víða um land er erfitt að fullnægja lögbundnum skilyrðum um sundkunnáttu, en við teljum nauðsynlegt, að það sé bundið með lögum, að a.m.k. einn maður á slíku skipi sé syndur. Fyrir aðra, sem þessi lög fjalla um, þarf ekki að taka þetta fram, vegna þess að nemendur úr sjálfum Stýrimannaskólanum fá ekki sitt prófskírteini frá skólanum fyrr en slíku vottorði er skilað, en við leggjum sem sagt til, að þetta sé tekið aftur upp í frv., en þetta er nú í gildandi lögum. Þá gerum við till. um það að breyta e-lið 8. gr. í það horf eins og ég hef þegar nokkuð drepið á, að sá einn geti fengið hið minna stýrimannaskírteini á fiskiskipi, sem sé minnst 19 ára að aldri, í stað 18 ára, eins og segir í frv.

Ákvæðum 10. og 12. gr. breytum við aftur í sama horf og var í frv., þegar það var lagt fram hér á Alþ. á haustmánuðum, og við breytum einnig aldursákvæðum fyrir stýrimenn, sem fá hið meira stýrimannsskírteini á fiskiskipi, úr 19 í 20 ár.

Við 14. gr. leggjum við til, að inn komi nýr liður. Margir aðilar, og þá sérstaklega skipstjórnarmenn á verzlunarskipum, hafa mótmælt því, að niður væru felld ákvæðin um það, að skipstjórnarmenn eða skipstjórar á verzlunarskipum þyrftu að öðlast reynslutíma eða siglingatíma sem stýrimenn á verzlunarskipum í utanlandssiglingum. Sjútvn. hefur fallizt á röksemdir þessara aðila, enda er það ekki minnsta atriðið í sambandi við stjórn á slíkum farartækjum að kunna að meðhöndla farminn, bæði við losun og lestun og eiga þau viðskipti við erlenda aðila, sem nauðsynleg eru. Við leggjum til, að inn í þessa gr. frv. komi nýr liður þess efnis, að þessir stýrimenn þurfi, áður en þeir fái skipstjóraréttindi, að hafa verið af þeim siglingatíma, sem talinn er í b-lið gr., a.m.k. 6 mánuði stýrimenn á verzlunarskipi í utanlandssiglingum.

Í 16. gr. eru sambærilegar breytingar gerðar á siglingatímanum eins og ég hef þegar getið um, en í 18.gr. er umbreytingu að ræða,sem ekki hafði verið rædd í Ed. á sínum tíma, en fjallar um þá menn, sem hlotið hafa takmörkuð atvinnuréttindi eftir 2. stigs farmannapróf, sem tekið var upp við þær breytingar, sem gerðar voru á l. um stýrimannaskóla, en til farmannaprófs er nú þriggja vetra nám. Þessum mönnum hefur verið gefin heimild til þess að öðlast atvinnuskírteini í 6 mán., eftir að þeir ljúka þessu prófi, og hefur þá verið reiknað með, að þeir hyrfu til skólans aftur að hausti. Nú höfum við fallizt á þau rök kennara Stýrimannaskólans, sumra hverra a.m.k., að þannig geti staðið á hjá einstaka nemanda, að hann eigi þess ekki kost að hverfa til skólanáms að hausti, af fjárhagsástæðum og öðrum ástæðum, en muni kannske vilja koma aftur ári seinna,og teljum við þá ekki nema sjálfsagt að hann haldi atvinnuréttindum á meðan svo stendur á, en viljum þó ekki veita þau lengur, þótt ég persónulega álíti það galla á þessari löggjöf, að þessir menn fái engin réttindi út úr sínu námi, sem jafnast þó fullkomlega á við það nám, sem krafizt er til fiskimannaprófs hins meira, að þeir fái ekki önnur réttindi en minni stýrimannsréttindi á fiskiskipi. Þetta er að vísu ekki eina gatið í þessari löggjöf, heldur eru þau vissulega fleiri, og hefði verið æskilegt að hafa lengri tíma til þess að skoða þau nánar.

Að síðustu leggur meiri hl. n. til, að sú breyting verði gerð á síðustu mgr. 21. gr., að í stað „undir 60 rúmlestum“ komi: undir 30 rúmlestum. Við, sem fylgjum þessari till., teljum, að þetta sé nauðsynlegt vegna öryggis áhafnar og skips. Það kemur skýrt fram í öllum þeim mótmælum frá skipstjórnarmönnum, sem borizt hafa alls staðar að af landinu, að þarna sé verið að hverfa frá því öryggi, sem verið hefur, og ég tel alls ekki rétt að miða við tímabundinn skort á stýrimönnum á þessi skip, sem verið hefur, en það hefur sannarlega mjög breytzt hin síðustu misserin.

Við, sem höfum stundað sjó, bæði á fiskiskipum og farskipum, vitum, að mannekla á hinum ýmsu tegundum skipa er mjög tímabundin og fer eftir því, hvernig gengur með þessa og þessa veiðiferðina hverju sinni. Við erum þess vegna andvígir því, að þetta tímabundna ástand verði lagt til grundvallar því, að þessi skip þurfi ekki að hafa stýrimenn. Auk mótmæla skipstjórnarmanna, sem þekkja þetta auðvitað manna bezt, er þessu atriði einnig mótmælt af Slysavarnafélagi Íslands. Þeir, sem þar starfa, þekkja nokkuð til þessara mála líka, og þeir telja, að þetta að taka stýrimenn af landróðrarbátum allt að 60 rúmlestum að stærð, snerti öryggi sjófarenda, og þeir mótmæla frv. í meginatriðum á þeirri forsendu.

Í mótmælum Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Ægis segir alveg réttilega, með leyfi forseta: „Í síðustu málsgr. 21. gr. eru fiskiskip undir 60 rúmlestum undanþegin skyldu til að hafa stýrimann, ef þeim er ætlað að leggja afla á land daglega. Vér leyfum oss að benda hinu háa Alþ. á, að hér er vegið freklega að öryggismálum skipa og skipshafna, og við teljum, að forðast verði allt það, sem á nokkurn hátt geti rýrt öryggi sjófarenda frá því, sem nú er. Þess hefði mátt vænta, að hin hörmulegu sjóslys, sem orðið hafa að undanförnu, hefðu orðið hvatning til þess að auka og bæta öryggismálin og láta einskis ófreistað í því efni. Það ber að harma, að frv. felur í sér hið gagnstæða.“

Þetta var úr umsögn Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Ægis. Ég held, að þeir, sem til þekkja, verði að viðurkenna það, að þeir menn, sem hafa lokið siglingafræði- og sjómennskunámi frá Stýrimannaskólanum, séu betur hæfir til þess að gegna stýrimannsstöðu heldur en hinir, sem hafa því miður of oft á undanförnum árum fengið undanþágu til þess að rækja þetta starf. Allt útlit er fyrir, að sú breyting verði á, að það fáist nógir menn á þessa tegund skipa, eins og raun ber nú vitni um á yfirstandandi vertíð. Þó að ekki sé algerlega búið að fullnægja þeim óskum, sem komið hafa fram um að fá slíka menn, hefur orðið stór breyting þar á, eins og ég segi, og við verðum að telja það, sem til þekkjum, að þetta sé það stór liður í öryggi þeirra skipshafna, sem hafa slíka menn um borð hjá sér, að við viljum ekki láta hjá líða að reyna að fá þessu ákvæði breytt, og ég held, að það sé samdóma álit allra þeirra, sem hafa látið heyra í sér um þetta mál.