17.04.1968
Efri deild: 93. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hæstv. fjmrh. upplýsti hérna. Hann sagði fyrst, að það hefði ekki verið hægt að leggja þessa áætlun fram fyrr en gert var, m.a. vegna þess að taka þurfti út af fjárl. 62 millj. kr. vegna þeirra breytinga, sem urðu á því góða plaggi. Hefur ekki breytingin aðallega verið sú út af þessu, að erlenda lánsheimildin var hækkuð? Það er nú fljótunnið verk að hækka hana. Það liggur fyrir, að þetta lán hefur ekki verið tryggt enn þá. Það er ekki vitað, í hvaða gjaldeyri lánið verður tekið, og mér sýnist, að þetta hefði mátt láta sig gera. Allavega hefði þetta getað komið jafnsnemma til Alþ. eins og til bankanna, og ég tel, að það sé engin ókurteisi við bankastjóra, þó að fjmrh. afli heimildar ríkisstj. fyrst til þess að taka innlend lán eins og hann gerir, þegar hann tekur erlend lán. Ég sé ekki muninn á því. Ég hefði ekkert móðgazt fyrir mitt leyti, þó að Alþ. hefði ákveðið að freista þess að taka lán hjá bönkunum upp á 50 millj. kr. á þessu ári, ef það lán hefði fengizt, alveg á sama hátt og ég sé, að gert er með erlend lán, sem ráðgerð eru. Það er líka aflað heimildar til þess að taka lán hjá almenningi í landinu, án þess að spyrja hann að því áður, hvort hann vilji leggja fé fram í þessu skyni. Þetta eru engin rök, hvorki til né frá.

Svo vikið sé að þessum mismun, sem er á lánsheimildum og ráðstöfun, get ég vel tekið það til greina, að hann geti átt sér stað, og sýnir það þá, að ekki er búið að semja um lánið endanlega, en að vel geti komið til greina, að lántökukostnaður og fyrirfram greiddir vextir geti numið þessari fjárhæð. Ég trúi því, þegar það er upplýst, en það er ágætt að fá þær upplýsingar.

Ég viðurkenni það, sem hæstv. fjmrh. sagði, enda hygg ég, að ég hafi sjálfur bent á það, að skipting lánanna úr fjárfestingarlánasjóðunum er ekki mál Alþ. Mér er ljóst, að það er með sérstökum lögum falið stjórn sjóðsins. En það, sem ég vildi vekja athygli á með þessum fáu orðum, sem ég sagði áðan, er það, að það skiptir vitanlega höfuðmáli og það er vandaverk að ákveða það, hvaða atvinnuvegir eigi að búa við innlent lánsfé og hverjir eigi að hlíta því að taka erlent lánsfé með þeim áhættum, sem því fylgir. Og það er alls ekki sama, hvernig það verk er unnið. En ef það liggur ekki fyrir frá stjórn framkvæmdasjóðs, eins og hæstv. fjmrh. sagði, þá ætla ég ekki að gera það að frekara umtalsefni.

Eins og vænta mátti, samþykkti hæstv. fjmrh. það, að búast mætti við nokkurri spariskírteinasölu vegna endurnýjunar eldri spariskírteina á þessu ári. Hann upplýsti, að það hefði orðið að innleysa 61 millj. á s.l. ári, og ég get vel ímyndað mér eða látið mér detta það í hug. (Fjmrh.: Má ég skjóta fáum orðum inn í hjá hv. þm., til þess að ég þurfi ekki að tala aftur? Ég átti ekki við, að það hefði verið innleyst í fyrra 61 millj., heldur að gert hafi verið ráð fyrir því í áætluninni þá, að heimildar væri aflað fyrir 61 millj. Hvað af því raunverulega var innleyst, er mér ekki kunnugt um). — Hér virðist eitthvað fara á milli mála, því að ég tek það svo, að þessar 50 millj., sem við erum að tala um núna, séu tekjur áætlunarinnar, þ.e. til þess að mæta útgjöldum, sem þessi framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir. Það er til þess að mæta framkvæmdasjóðstillaginu, það er til þess að mæta 330 millj. kr. framkvæmdum. Það er ekki til þess að mæta endurgreiðslu á spariskírteinum. Hér virðist enn eitthvað bera á milli, og þetta þyrfti að athuga vel í n., og ég skal ekki tefja tímann á því að vera að ræða það frekar.

Að endingu vil ég svo aðeins segja það, að ég er mjög ánægður yfir því, að hæstv. fjmrh. er sömu skoðunar og ég um það, að afnema þurfi þessa framtalsskylduundanþágu á spariskírteinum og jafnvel ganga lengra, að gera spariféð allt framtalsskylt. Ég hygg, að þessi undanþáguákvæði hafi upphaflega verið sett á spariféð til þess að örva sparnað, en ég harma það að hæstv. fjmrh. skuli ekki sjá sér fært að gera þetta núna. Einhvern tíma þarf að byrja á þessu og hvers vegna þá ekki núna, þegar á að fara að gefa út nýjan flokk af ríkistryggðum skuldabréfum, sem auðvelt væri að hafa með þessu ákvæði og taka það þá upp. Það þarf ekki nema einfalda lagabreytingu til að taka það upp varðandi þau skírteini, sem gefin eru út til endurnýjunar þeim, sem innleyst kunna að verða. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.