24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er till. um að selja eitt prestssetur, Setberg við Grundarfjörð.

Ég er nú ekki vel að mér í sögu þess staðar. Líklega hefur þetta verið prestssetur lengi. En það má gera ráð fyrir því, sýnist mér, að búskapur presta í sveitum verði þá og þegar úr sögunni, og það finnst mér eðlilegt, að svo verði, svo að þá gæti maður búizt við því, að fleiri frv. af þessu tagi kæmu fyrir Alþ. og e.t.v. áður en langt um líður. En ég tel það ekki heppilega leið að selja þessi gömlu prestssetur í sveitum. Yfirleitt eru þetta öndvegisjarðir. Prestarnir fengu oft beztu jarðirnar í viðkomandi sveitum til ábúðar. Og þarna hafa verið áður fyrr mikil fyrirmyndarheimili og mikill búrekstur og oft voru þetta hlunnindajarðir og eins og ég sagði, kostajarðir. Mér þætti það leiðinlegt, ef ríkið færi að selja þessar jarðir, þó að prestarnir hættu búskap, og þær lentu svo í braski. Ég teldi þetta óheppilegt og leiðinlegt, og ég tel, að það eigi að hafa annan hátt á þessu. Þó að prestar hætti búskap, geta þeir oft setið á þessum sömu stöðum, þar sem þeir hafa verið áður í sveitunum. Ef þar eru viðunandi húsakynni fyrir þá, geta þeir verið þar áfram, þó að jörðin sé leigð á erfðafestu einhverjum bónda, og ríkið þarf ekki að kosta neinu til framkvæmda á þeim jörðum, sem það á og leigir á erfðafestu. Það lætur aðeins leyfi til þess, að bændur fái lán til umbóta, húsabóta og annarra umbóta á jörðunum úr stofnlánadeild landbúnaðarins, eins og nú tíðkast um leigujarðir í opinberri eign. Þetta teldi ég miklu farsællegra og skemmtilegra að ráðstafa þessum gömlu höfuðbólum með þessum hætti heldur en fara að selja þetta hverjum, sem hafa vill, og eiga á hættu, að þau lendi í braski. Ég skal ekki segja, hvernig ástatt er um Setberg, ég er ekki svo kunnugur því. En þetta vildi ég segja almennt um þetta mál.