17.01.1968
Neðri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég blanda mér ekki í þær lítils háttar deilur, sem hér hafa orðið út af þessu ekki svo stóra frv., en það er rétt, sem fram hefur komið, að það hefur oft sýnzt sitt hverjum hér á Alþ., þegar um hefur verið að ræða að selja ríkisjarðir, eins og hér liggur fyrir. Það var hins vegar eitt atriði, sem innt var eftir sérstaklega og sem fram kemur í nál., þ.e. að væntanlegt sé frv. um embættisbústaði. Það stendur þannig á um það mál, að við höfðum nú álitið, að við kæmum því fram nú strax og þingið kom saman, en það hefur staðið nokkuð á viðræðum milli hæstv. fjmrh. og mín, sem við höfum bara ekki komið við, en ég geri ráð fyrir því, að það verði lagt fyrir þingið allra næstu daga. Ég sé ekki neina ástæðu til þess, að þess vegna þurfi að fresta framgangi þessa máls út af fyrir sig. Það er kannske sú ein meginstefna að hverfa frá því, sem verið hefur, að ríkið eigi embættisbústaði í þéttbýlinu. Það hefur verið ýmsum örðugleikum háð. Það var unnið í fyrra, já, og reyndar hitteðfyrra, að athugun þessa máls af embættismönnum á vegum þeirra rn., sem embættisbústaðir heyra undir og undir forystu fjmrn. Það frv. mun koma nú á næstunni fyrir þing, og skal ég ekki víkja frekar að því, en af því að innt var eftir, vildi ég láta þessar upplýsingar fram koma.