19.04.1968
Efri deild: 99. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. hefur óskað eftir því, að þessu máli verði frestað af ástæðum, sem ég satt að segja ekki skil, vegna þess að sú brtt., sem hann fann helzt að eða það ákvæði þessa frv., sem hann fann helzt að, var sett inn í frv. hér í hv. Ed. og þannig var það samþ. héðan, en var ekki sett inn í Nd. Þar var aðeins bætt við tveimur smáatriðum, sem ég skil ekki í, að valdi neinum deilum í þessu máli, annars vegar að bæta við smáspildu — að heimila það, að tekin verði smáspilda úr prestssetrinu Hálsi í Fnjóskadal vegna brúargerðar á Fnjóská, og er þar gert ráð fyrir, að um landskipti verði að ræða. Það er þýðingarmikið að hafa þá heimild og í annan stað að heimila að selja eigendum Ærlækjar í Öxarfirði smáspildu úr prestssetrinu Skinnastað, sem stafar af því, að eigendum Ærlækjar mun verða gert að láta af hendi allverulegt land vegna miðskóla í Lundi, íþróttavallar og annarrar aðstöðu í sambandi við þann skóla.

Hvorug þessi heimild verður að sjálfsögðu notuð án þess að rætt verði við viðkomandi aðila um það. Að vísu er nú enginn prestur á Skinnastað, þannig að það er ráðuneytisins mál, hvað í því verður gert og auðvitað ekkert, sem hindrar það lögformlega, að slíkt sé hægt að gera, ef heimild Alþ. fæst fyrir því. Þetta er mikið sanngirnismál, enda skildist mér, að það væri í rauninni ekki ástæða til þess að hv. þm. hefði á móti málinu, þó að hann tilfærði það sem orsök, að það hefði verið bætt inn í það þessum breytingum í Nd. Varðandi það mál, sem mér skilst kjarni hans andmæla, afhendingu á landi úr landi jarðarinnar Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd, þá er það að segja, að þetta land hefur þegar verið afhent, og BSRB bréflega tilkynnt, að það fái þetta land til umráða og þessi ákvörðun var tekin í samráði við alla þingflokka hér á Alþ., þannig að mér finnst það gegna nokkurri furðu, að slík tilmæli skuli koma hér fram. Þetta hefur verið rætt, áður en til kom að afhenda landið, við prestinn í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann hafði viss andmæli gegn því, en þau andmæli voru ekki þess eðlis, að rn. teldi ástæðu til að taka þau til greina, dóms- og kirkjumrn., þannig að þau andmæli öll hafa verið skoðuð. Og það mundi þess vegna ekki breyta neinu um þá afstöðu, þó að farið væri að fresta málinu nú.

Mér er kunnugt um það, að BSRB hefur látið í ljós þá skoðun, að bandalagið geti gjarnan hugsað sér að fá land annars staðar, þ.e. í nágrenninu uppi í Skorradal. Það er einnig umdeilt mál. Þar er búið að afhenda land vissum aðilum, m.a. Skátafélagi Akraness, sem er einnig annað heimildarákvæði í þessari grein, þannig að þar er einnig um deilu- og vandamál að ræða. Ég get sagt það hér, að vitanlega er ríkisstj. opin fyrir því í samráði við BSRB að leita eftir því, ef það er finnanlegt, hvort sem það er í Skorradal eða annars staðar eitthvert annað land, sem bandalaginu væri geðþekkara heldur en þetta land, sem hér er um að ræða. Hins vegar valdi bandalagið sjálft þetta land og eins og ég segi, ríkisstj. hefur í samráði við stjórnarandstöðuflokkana á Alþ. skriflega tilkynnt handalaginu, að það Fái þetta land til umráða, og það er vitanlega með engu móti hægt að fallast á, fyrir andmæli einhverra manna nú, að það verði farið að hverfa frá slíku.

Ég veit, að allir hv. þdm. sjá, að það er fjarri öllu lagi, ef ætti að synja um heimild til slíkrar ráðstöfunar, sem þegar hefur átt sér stað í góðri trú með jafnvíðtæku samkomulagi og ég hér hef skýrt frá. Þetta er mér vel kunnugt um, því að ég gekk sjálfur í gegnum það mál við flokkana og það var látinn í ljós mjög eindreginn stuðningur við það. Það var ekki þá fengin lagaheimild fyrir þessu og það var ástæðan fyrir því, að ég fór þá leið að semja við þingflokkana, þannig að það gæti ekki orðið um það neitt deilumál eftir á, að yrði staðið við þessa skuldbindingu. Þetta tel ég rétt og nauðsynlegt, að komi hér fram. Það má segja, að út af þessu atriði þurfi ekki endilega að samþykkja málið nú, ef það yrði samþ. í haust, það er alveg rétt. En það eru aðrar ástæður, sem valda því, að það er brýn nauðsyn að samþykkja þetta nú og það er sala ýmissa annarra eigna, sem hér er um að ræða, sem verður að fara fram áður en Alþ. kemur saman aftur. Ég tek þar t.d. biskupsbústaðinn, húseignina að Tómasarhaga 15. Það er mjög nauðsynlegt að selja þá eign, vegna þess að kaupin á hinu húsinu eru bundin því, að það fáist ákveðið fjármagn út úr sölu þessa húss. Og það þarf þess vegna að seljast núna mjög skjótlega og þannig er um fleiri af þessum eignum, að gert er ráð fyrir, að andvirði þeirra renni til framkvæmda við tiltekna embættisbústaði, sem eru tengdir þeirri breytingu, sem gert er ráð fyrir í sambandi við þessi tilteknu embættissetur. Það er því af þessari ástæðu ógerlegt að fresta málinu til hausts. Ég ræddi að sjálfsögðu um þetta við forystumenn flokkanna og formenn þeirra. En ég veit, að hv. ræðumaður skilur það, að það er ógerlegt annað heldur en að viljayfirlýsing um málið komi fram, úr því að það hefur einu sinni verið hér flutt, sem sagt það sé staðfest af Alþ.,ríkisstj. hafi ekki gert þetta í heimildarleysi.