27.11.1967
Neðri deild: 28. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

66. mál, verðlagsmál

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að tefja fyrir þessu máli, en það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi koma hér á framfæri. Ég sé það í þessu frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 89, að það er ekki gert ráð fyrir því, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fái aðild að verðlagsnefndinni. Nú er það svo, að BSRB hefur tekið þátt í umr. við hæstv. ríkisstj. með ASÍ og hér er um landssamtök að ræða. Mér hefði því fundizt eðlilegt, að það ætti einn fulltrúa í verðlagsnefndinni og hefði óskað eftir því, að það gæti orðið samkomulag um það, að sú breyting yrði á, að ASÍ hefði 3 fulltrúa, en BSRB 1 og að öðru leyti mun ég ekki óska eftir breytingu á þessu frv. Og ég vil leyfa mér að fara fram á það við hæstv. viðskmrh., að hann athugi það í sambandi við þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að þessi breyting verði gerð.