09.04.1968
Efri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að meiri hl. sjútvn. hefur farið að óskum þess manns, sem hefur með höndum ferskfiskeftirlitið, með það að fallast á, að í stað þess að þeir yrðu skipaðir, þá yrðu þeir ráðnir, þessir eftirlitsmenn. Og það taldi hann sjálfsagt, vegna þess að nauðsynlegt væri að skapa aðhald í starfi þessara manna, og eins getur verið þar um nokkuð tíðar skiptingar að ræða.

Um hitt atriðið er ágreiningur. Í frv. segir, að sjútvmrh. geti skipað 5 manna ráðgjafanefnd við Fiskmat ríkisins, en meiri hl. taldi þetta skipta það miklu máli, að hann leggur til, að það verði ekki aðeins heimildarákvæði, heldur skuli ráðh. skipa þessa ráðgjafanefnd. Það er gert ráð fyrir því, að í þessa ráðgjafanefnd tilnefni eftirtaldir aðilar fulltrúa og varafulltrúa: Landssamb. ísl. útvegsmanna, einn mann, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands, sameiginlega einn mann, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og Samlag skreiðarframleiðenda sameiginlega einn mann, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samb. ísl. samvinnufélaga sameiginlega einn mann. Forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á sæti í n. og er hann jafnframt form. hennar.

Það er einnig rétt, sem fram kom hjá hv. 5. landsk. hér áðan, að forstöðumaður rannsóknastofnunarinnar óskaði ekki eftir því, að þessi n. væri skipuð, en hins vegar virðist mér það koma fram í umsögn hans, þegar hann ræddi við n. um þetta atriði, að það væri kannske fyrst og fremst vegna þess, að hann vildi sjálfur vera laus við að taka starf þarna eða taka afstöðu, sem n. getur að sjálfsögðu þurft oft og tíðum að taka. Og ég vil segja það í sambandi við þróun þessara mála, að á undanförnum árum hefur verið full þörf fyrir slíka n., sem hér er lagt til, að verði stofnuð. Í þeim átökum, sem hafa átt sér stað á undanförnum árum, t.d. varðandi fiskmatið á skreiðinni og þann ágreining, sem þar hefur upp risið innan matsins um þá framkvæmd, hefði vissulega verið mikil bót að því, að slík ráðgefandi n. hefði verið ráðh. til stuðnings við þær ákvarðanir, sem þar þurfti að taka. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þessi ágreiningsatriði, en endurtek, að það er skoðun meiri hl. n., að það sé ekki aðeins rétt, að sjútvmrh. hafi heimild til þess að skipa þessa 5 manna n., heldur sé nauðsynlegt, að hann geri það.