09.04.1968
Efri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hafði orðað það við hv. stjórnarandstöðu að reyna að koma þessu máli til n. fyrir væntanlegt þinghlé, sem haldið verður nú vegna þeirrar páskahátíðar, sem í hönd fer, og að 1. umr. málsins fari fram á morgun, en óskir hafa síðan borizt um það frá ýmsum þm., að fundir yrðu sem allra stytzt á morgun, þannig að utanbæjarmönnum gæfist tækifæri á að komast heim til sín, þeim, sem eiga þess á annað borð kost fyrir hátíðar, og þess vegna er þetta mál nú komið með samkomulagi hér inn á dagskrá, svo sem þdm. er kunnugt af afbrigðum, sem þegar hafa verið veitt. Ég hafði jafnframt hugsað mér að halda svo allýtarlega framsöguræðu fyrir málinu og skýra allan aðdraganda þess, en skal með hliðsjón af þessu samkomulagi stytta mál mitt mjög, enda mun gefast tækifæri til þess við umr. um það á síðari stigum að halda að meginefni til þá ræðu, sem ég hafði haft í huga að flytja nú við 1. umr. málsins.

Meginefni þessa frv. er sá vandi, sem í upphafi var um setningu þeirra laga, sem hér um ræðir, frá 1964. Þá voru l. látin verka aftur fyrir sig um 9 mánaða skeið og hefur sá greiðsluhalli, sem af þessum gjöldum á að taka, ekki unnizt upp sem neinu gæti numið, nema um örskamman tíma, en síðan stórlega sigið á ógæfuhlið með þeim afleiðingum, að sú grein, sem hér átti að hirða megintekjurnar eða 73% af öllum útflutningsgjöldum sjóðsins, þ.e.a.s. vátryggingasjóðurinn, hefur orðið fyrir geigvænlegum skakkaföllum vegna hins öra verðfalls og minna aflamagns á undanförnum árum, svo sem gerð er grein fyrir í aths. fyrir frv.

Mér er það fullkomlega ljóst, að vandi vátryggingasjóðsins verður ekki leystur með þeim hætti einum að auka tekjur hans, svo gífurlegum áföllum sem hann hefur orðið fyrir. Þar þyrfti að fara, ef kostur væri, a.m.k. þrjár leiðir að því marki að jafna hér um svo sem þörf væri á. Í fyrsta lagi, svo sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að auka tekjur sjóðsins, í öðru lagi að spara svo sem kostur er útgjaldahlið sjóðsins og í þriðja lagi þyrfti, ef þess væri nokkur kostur, og að því mun verða unnið, að útvega lán til þess að komast yfir þennan örðugleikahjalla, sem nú þegar er sýnilegur og verður enn þá geigvænlegri, ef óbreytt verður áfram haldið og ef óbreytt ástand ríkir um afurðasölu okkar mikilvægu fisktegunda, sem eru uppistöður að tekjum þessa sjóðs. En eins og ég sagði, þetta frv. hér fjallar aðeins um einn þáttinn af þessum vanda, þ.e.a.s. að auka tekjur hans, en hann vantar nú á 3. hundrað millj. kr. til að geta staðið í skilum við þá aðila, sem þarna eiga hlut að máli, og mun sá vandi gífurlega vaxa á næstu mánuðum og þessu ári, sennilega ekki minna heldur en halli hans jókst á s.l. ári eða um nálega 100 millj. kr., svo að öllum má vera ljóst, í hvílíkan voða stefnir með tryggingamál vélbátanna, sem úr þessum sjóði eiga að þiggja sína aðstoð. Hér er því ekki um það að ræða að afla tekna í ríkissjóð til almennra þarfa. Hér er einungis um það að ræða að flytja tekjur á milli greina innan sjávarútvegsins og því fé, sem með því fæst, verður varið til sjávarútvegsins sjálfs og þá til lausnar á þeim vanda, sem við blasir með óbreyttum lögum. Sú tekjuaukning, sem hér er gert ráð fyrir, á að fást með hækkuðu útflutningsgjaldi á þremur fisktegundum þ.e.a.s. saltfiski, frystum humar og saltsíld. Með þessu móti er áformað að ná liðlega 40 millj. kr. upp í þann halla, sem ég áðan nefndi, sem kominn er yfir 200 millj., og til að stemma stigu við frekari ógæfugöngu þessa sjóðs, sem fyrirsjáanleg er, nema til komi þeir hlutir, sem enginn á von á í dag eða getur fært fyrir nein óyggjandi rök a.m.k., að stórlega hækki okkar útflutningsafurðir. Því miður er útlitið ekki á þann veg í dag, að hægt sé að binda við það stórlega miklar vonir og ekki útlit fyrir, að aflagengd aukist að því marki, að verðmætaaukning af þeirri ástæðu verði til að jafna þann halla, sem hér um ræðir.

Þetta er meginefni þessa frv., sem þó, eins og ég sagði áðan, fjallar aðeins um einn þátt þess vanda, sem hér er um að ræða.

Ég skal að öðru leyti ekki gera frv. að umræðuefni, nema sérstakt tilefni gefist til, en legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr, og hv. sjútvn.