09.04.1968
Efri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

61. mál, Fiskimálaráð

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta um fiskimálaráð hefur sjútvn. þessarar hv. d. haft til athugunar og skilað um það áliti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 501 náðist ekki samstaða innan n. um afgreiðslu málsins. Einn nm., hv. 4. þm. Reykn., vill fella frv., en aðrir nm. mæla með því, að frv. verði samþ., svo sem fram kemur í nál.

Í 2. gr. þessa frv. er markað starfssvið fiskimálaráðs. Þar segir m. a., að fiskimálaráð skuli vera ráðgefandi um mótun heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og í markaðsmálum. Skal fiskimálaráð beita sér fyrir góðri samvinnu allra aðila, sem hlut eiga að máli, með gagnasöfnun, umræðufundum, skýrslugerð, útgáfu og öðru því, sem helzt verður talið gagna í þessum efnum. Samkv. 5. gr. frv. er kveðið á um það, að fiskimálaráð skuli hafa forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir sjávarafurðir, svo og framleiðslu nýrra vörutegunda.

Það hefur oft verið um það rætt, að fáar þjóðir eigi hlutfallslega jafnmikið undir sinni utanríkisverzlun og við Íslendingar. Kemur þar til, hve stór hluti af heildarframleiðslu þjóðarinnar verður að seljast á erlendum mörkuðum til skipta fyrir það, sem þjóðin þarfnast og getur ekki án verið. Til viðbótar þeim vanda kemur svo sú staðreynd, að útflutningsframleiðslan er einhæf og að mestu leyti sjávarafurðir. Þær verkunartegundir sjávaraflans, sem nú eiga sér stað í okkar framleiðslu, hafa mjög lítið breytzt um langt árabil. Að sumu leyti er hér um eðlilegar ástæður að ræða, en að sumu leyti aftur á móti óæskilega þróun. Hvers konar niðursuða sjávarafurða hefur átt mjög erfitt uppdráttar. Aðrar þjóðir leggja hins vegar mikla áherzlu á þessa framleiðslu, og er neyzla hennar í heiminum mjög mikil. Þessa framleiðslugrein verðum við Íslendingar að taka til rækilegrar athugunar og hagnýta okkur þá möguleika, sem hér eru fólgnir.

Það er að sjálfsögðu margt varðandi sjávarútveg og fiskimál, sem þetta nýja fiskimálaráð gæti látið til sín taka. Sumum finnst e. t. v. ekki á það bætandi í okkar landi að stofna eina n. eða eitt nýtt ráð í viðbót, nóg sé fyrir hendi í þeim efnum. Ég held samt sem áður, að þrátt fyrir þær nefndir og stofnanir, sem nú hafa þessi mál með höndum eða einstakar greinar sjávarútvegsframleiðslunnar, sé þess full þörf, að sett verði á stofn það ráð, sem hér er lagt til, og það hafi forgöngu um að samræma starfið með samvinnu allra þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli.

Sá þáttur þessara mála, sem fiskimálaráð á að sinna og ég tel ekki hvað veigaminnstan, eru markaðsrannsóknirnar. Það ber að viðurkenna, að okkar helztu framleiðslugreinar, svo sem saltfiskframleiðslan og hraðfrystiiðnaðurinn, halda stöðugt uppi markaðsöflun fyrir þá þætti framleiðslunnar. En ef til þess kemur, sem allir eru sammála um, að við aukum á fjölbreytni framleiðslunnar, eru hér mikil og ótakmörkuð verkefni fram undan, og í þeim efnum gæti fiskimálaráð komið að góðu liði og sýnt fram á, að hér sé ekki um hégómastofnun að ræða.

Samkv. frv. er lagt til, að fiskimálaráð samanstandi af 11 aðilum. Með hliðsjón af því, af hvaða fulltrúum ráðið samanstendur, þykir ekki óeðlilegt, að það sé ólaunað, enda ekki ætlazt til þess, að allt ráðið komi saman til fundar oft á ári. Hins vegar kýs fiskimálaráð þriggja manna framkvæmdanefnd, sem að sjálfsögðu hefur á hendi framkvæmd þeirra mála, sem ráðið felur henni, og undirbýr enn fremur málin fyrir sameiginlega fundi ráðsins, og skal kostnaður við það greiðast úr fiskimálasjóði.

Um verkefni fiskimálaráðs og rökstuðning fyrir því, að þörf sé slíkrar stofnunar, mætti að sjálfsögðu margt segja. Ég mun þó, herra forseti, láta þessi orð nægja og leyfi mér að leggja til, að frv. verði samþ. og því að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.