29.03.1968
Neðri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Stefán Valgeirsson Herra forseti. Þegar ég hlustaði á hv. 10. þm. Reykv. í gær, duttu mér í hug ljóðlínur, sem allir þekkja:

Oft má af máli þekkja

manninn, hver helzt hann er.

Ekki get ég skilið, hvað það kemur þessu máli við, hvaðan ég er eða hvort hv. 10. þm. Reykv. kann að nefna þann stað eða ekki. Fróðleikur hans um það efni mun ekki skipta miklu til eða frá, og það verður a. m. k. ekki undirstaðan undir byggingu fyrir aldrað fólk í neinni mynd. Ég vil einu sinni enn taka það fram af gefnu tilefni, og það er víst í þriðja sinn, að ég hef ekki mikla þekkingu á þessum málum og viðurkenni, að svo sé. En mér virðist nú, að það séu fleiri en ég, sem um þetta mál hafa hér talað, sem skortir allmikið á að vera sérfræðingar í þessum málum og í þeim hópi virðist hv. 1. flm. greinilega vera. Það er sitt hvað að vasast í einu og öðru eða hafa vit á því. Og enginn gefur sér vitið. Það ætti hv. þm. að vita ekki síður en aðrir.

En það, sem hefur vakið athygli mína mest í þessum umr., er það, að í ljós hefur komið, að flm., hv. 10. þm. Reykv., virðist ekki hafa skrifað þá grg., sem með frv. hans er, og ekki einu sinni lesið hana, ef dæma má af hans málflutningi í þessu máli. Það væri mikið líklegra eftir afstöðu minni, að það hefði verið einmitt ég, sem hefði skrifað grg., sem með frv. er, enda er það sannast sagna, að það var þessi grg., sem gerði það að verkum, að ég kom fram með þær brtt. við frv., sem ég hef lagt hér fram við það. Þegar ég hafði annars vegar hlustað á framsöguræðu fyrir flutningi frv. og hins vegar lesið grg., sem því fylgdi, og þannig séð mótsagnir þarna á milli, fór ég að velta öllu málinu fyrir mér og kanna það betur. Og ég verð nú að segja, að þeir, sem töluðu gegn brtt. mínum, hafa síður en svo sannfært mig um, að sú tilfinning, sem ég hef fyrir þessum málum, eigi ekki fyllsta rétt á sér. Og meira en það. Og það eru fleiri en við hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 3. þm. Norðurl. e., sem erum sömu skoðunar um þetta. Það hef ég fundið í gærkvöldi og morgun frá ýmsum, sem hafa haft samband við mig og einmitt undirstrikað það, að þeir, sem hugsa mest um mannúðarmál, séu á þessari skoðun, að það eigi að vinna að því á skipulegan hátt að koma upp íbúðum, t. d. fyrir hjón, sem geta hugsað um sig sjálf, jafnhliða sem byggt sé dvalarheimili og þess vegna sé þetta frv. spor aftur á bak, verði það samþ. óbreytt. Það hefur einnig komið fram, að að því beri að stefna, að þeir, sem séu sjúkir og örvasa, eigi ekki að vera á hinum almennu dvalarheimilum, heldur sérstökum aðskildum hjúkrunarheimilum. Það er búið að ræða þetta mál það mikið, að ég sé ekki ástæðu til þess að gera það mikið meira. Hv. 4. þm. Austf. taldi það furðulega afstöðu, að eftir að hann og einn fulltrúi frá Framsfl. höfðu lýst því yfir við 1. umr., að þeir mundu fylgja þessu frv. óbreyttu og þar sem flm. væru frá báðum stjórnarflokkunum, hefði ég samt leyft mér að koma fram með brtt. við þetta frv. Og ég held, að hv. 4. þm. Austf. hafi margsagt, að þetta fyndist honum furðuleg afstaða.

Það kann að vera, að frá hans sjónarhól sé þetta furðulegt, að einstaka þm., úr hvaða flokki sem er, hafi sjálfstæða skoðun á hverju máli, sem fyrir þingið kemur, og það kann að vera, að slíkt líðist ekki í hans flokki. Um það skortir mig alveg kunnugleika. En ef svo er, þá harma ég það mjög. Ég held, að hv. alþm. ættu að temja sér það að hafa sjálfstæða skoðun í sem flestum málum og vera ófeimnir að láta skoðanir sínar í ljós að athuguðu máli og vera ekki alveg eins og eitt atkvæði fyrir þann flokk, sem þeir tilheyra. Og þar sem ég hef að mörgu leyti töluverðar mætur á hv. 4. þm. Austf. og þetta er nú ekki alveg í samræmi við skoðanir hans, er hann lét í ljós hér í hv. þd. í vetur, þegar hann ræddi um það, að sér hefði virzt hringla í handjárnum stjórnarflokkanna, og það, sem hann sagði þá að gefnu tilefni, benti mjög til þess, að þessi hv. þm. væri því mjög andsnúinn að stjórnarflokkarnir handjárnuðu sína flokksmenn. En ef dæma má af þeim orðum, sem hv. þm. lét falla í gær, væri hægt að draga þá ályktun, að hann hefði skipt um skoðun í þessu efni, og ég endurtek það, sé svo, harma ég það. Ég tel, að hver og einn eigi að vera sjálfstæður í sínum skoðunum og afstöðu til mála og þó að e. t. v. eitt og eitt mál sé þess eðlis, að ekki sé óeðlilegt, að þau séu gerð að flokksmálum, þá eiga þau mál að vera einungis undantekning frá meginreglunni. Hver og einn sé sjálfráður um sína afstöðu til annarra mála, og þá reglu mun ég tileinka mér þann tíma, sem ég kann að verða hér á Alþ. Ég vona, að það geri sem allra flestir, og því vona ég, að mér hafi misheyrzt, þetta hafi ekki verið glamur í handjárnum.

Hv. 4. þm. Austf. sagði, að það væri komin reynsla á það, að íbúðastefnan yrði miklu fjárfrekari leið en að hyggja yfir gamla fólkið í stórum dvalarheimilum. Ég held nú, að á þessu sé lítil reynsla fengin, því að ég veit ekki til, að þessi leið hafi verið neitt reynd utan þeirra fáu íbúða, sem byggðar hafa verið hér í Reykjavík og þess vegna sé um mjög lítinn samanburð að ræða í þessu efni. Á hitt má líka benda, að hér í Reykjavík er byggingarkostnaður mjög breytilegur eftir því, hver sér um hverja framkvæmd og því lítið upp úr því leggjandi sem algildan mælikvarða á slíkum kostnaði, þó að ein framkvæmd hafi verið gerð og það mjög fáar íbúðir og það af opinberum aðila. Við slíkt er varla hægt að miða. Á hitt vil ég einnig benda, að þó að íbúðirnar yrðu eitthvað dýrari fyrir hvern einstakling, er ég ekki tilbúinn að fallast á það, að af þeim ástæðum einum komi íbúðaleiðin ekki til greina. Ég er ekkert hræddur við dóm reynslunnar, hver hann kann að verða í þessum efnum, jafnvel þótt meiri hl. og hv. d. stigi þetta spor aftur á bak með því að samþykkja þetta frv. óbreytt. Ég er búinn að heyra það hjá nógu mörgu öldruðu fólki, hver afstaða þess er í þessum málum og hjá þeim, sem hugsa og starfa að mannúðarmálum. Hvort menn marka afstöðu sína nú til þessara mála eftir því einu, að þeir eru með dvalarheimili á sínum snærum og vantar í það fjármuni, er svo annað mál, en ekki finnst mér það stórmannlegt. Hér er verið að breyta um stefnu í þessum málum, og þannig á að líta á málið. A. m. k. ætla ég að gera það.

Eitt var það, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu, að við höfum ekki efni á að hafa bundið fé, þó að ekki sé meira en þetta. Hver leggur það til? Ekki ég a. m. k. Líklega hefur hv. þm. aldrei lesið till. mínar eða ekki er a. m. k. hægt að merkja það, enda varla hægt að ætlast til þess, fyrst hann ekki las einu sinni sína eigin grg., sem hann lét fylgja með frv.