11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram allmiklar deilur og allmiklar umr., sem sýnt hafa svolítið inn í hugi manna og hugsanagang í sambandi við deilumál, sem hér hefur risið upp. Deilumálið er ekki nýtt, svo menn hafa haft góðan umhugsunarfrest, þ.e. frá kosningunum á s.l. vori. Yfirkjörstjórnin í Reykjavík úrskurðaði lista Hannibals Valdimarssonar, I-lista, utan flokka. Landskjörstjórn úrskurðaði, að sá listi tilheyrði Alþb., ætti að merkjast samkv. því GGlisti og atkv. hans að teljast Alþb.

Um þetta urðu miklar deilur og þær deilur standa hér enn þá. Dómsmrh. á að hafa yfirumsjón með kosningunum. Hann sat í vor auðum höndum og lét prenta á kjörseðla í Reykjavík I- listi utan flokka, þrátt fyrir það að fyrir lá yfirlýsing frá landskjörstjórn um, að atkv. yrðu ekki talin utan flokka, heldur yrðu þau talin Alþb. Og þótt hann væri áminntur með bréfum um, að þetta væri ekki sem bezt framkvæmd kosningalaganna, þrjózkaðist hann líka við að láta prenta á kjörseðilinn álit landskjörstjórnar. Ég get viðurkennt það sjónarmið ráðh., að hann kunni að bresta lagaheimild til þess að skera úr um það einn og sjálfur, hvor úrskurðurinn hafi verið réttur, yfirkjörstjórnar eða landskjörstjórnar. Hitt tel ég vítavert gáleysi og slæma framkomu gagnvart kjósendum í landinu, að ráðh. lætur það ske, að kjörgagn er þannig útbúið með villandi upplýsingum. Hann hefði a.m.k. átt að sjá til þess, að á kjörseðilinn væri, auk þeirra upplýsinga, sem yfirkjörstjórnin í Reykjavík lét á hann prenta, einnig prentað álit landskjörstjórnar, að hún hefði ákveðið að telja atkv. I-listans Alþb. Þetta vil ég láta koma skýrt fram, til þess að hann heyri þó ekki sé nema eina rödd frá Alþingi, sem á að úrskurða þessi kjörbréf, að hér hafi hann sýnt vanrækslu í starfi. (Gripið fram í.) Já, því miður er orðið nú samt ekki stærra heldur en tilefni er til.

Ráðh. kemur hér hins vegar og les ósköpin öll af skjölum, dagblöðum og grg., og það er vissulega rétt hjá honum, að í þeim, bæði blaðagreinum og framlögðum grg. frá umboðsmönnum fyrir yfirkjörstjórn í Reykjavík, var margt orð ofsagt. Og vegna þess að hann telur okkur Alþb.-menn ábyrga fyrir því, vil ég taka sérstaklega fram, að Þjóðviljinn, sem hann las mjög úr, er ekki blað Alþb. og hann getur ekki dregið alla Alþb.- menn til ábyrgðar fyrir því, sem þar var sagt.

Ríkisstj. Íslands hefur nú ákveðið og lýst því hér yfir í þingsölum, að hún muni sitja hjá við afgreiðslu eins kjörbréfsins. Ekki er við því að segja, þó að þeir, sem ekki geta myndað sér skoðun, sitji hjá, það er raunar ekki annað fyrir þá að gera. En með þessari ákvörðun hefur ríkisstj. lagt það á vald annarra aðila heldur en meiri hl. Alþ. að ákveða um þetta kjörbréf. Ríkisstj. getur hins vegar ekki komizt hjá öðru. Hún getur ekki komizt hjá að ákveða, hvað hún ætlar að gera, ef kjörbréf Steingríms Pálssonar yrði fellt. Í stjórnarskrá Íslands stendur skýrum stöfum, að Alþ. skuli skipað 60 þjóðkjörnum þm. Að kjörbréfi Steingríms Pálssonar felldu er þess vegna um tvo möguleika að ræða. Annar er sá, að Alþ. sé ekki skipað nema 59 þm. Mér sýnist, að ekki geti leikið vafi á, að Alþ. skipað aðeins 59 þm. er ekki í samræmi við stjórnarskrá Íslands. Eða þá hitt, að tekinn verði inn einhver alþm., sem ekki hefur hlotið neitt kjörbréf. Ég geri ráð fyrir því, að kjörtímabil þeirrar landskjörstjórnar, sem hefur nú gengið frá sínum kjörbréfum eftir þessar kosningar, starfstími hennar, sé hér með útrunnið, svo að hún muni ekki gefa út nein önnur bréf. Ætlar þá Alþ. sjálft að gefa út kjörbréf? Gæti ríkisstj. Íslands hugsað sér það? Og hvar erum við þá staddir með okkar lýðræði, ef Alþ. gefur fordæmi um það, að það gefi sjálft út kjörbréf? Mér þætti fróðlegt að fá að heyra grg. frá ríkisstj. Íslands um þessa hluti. Ég tel alveg vafalaust, að þá sé í rauninni ekki um annað að ræða heldur en að þá verði að fara fram kosningar að nýju, því að ella er Alþ. ekki skipað í samræmi við stjórnarskrána. Um þetta óska ég eftir svörum frá ríkisstj.