16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

17. mál, almannatryggingar

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. þetta er þmfrv. flutt í hv. Nd., og með frv. er lagt til, að sú takmörkun, sem samkv. l. gildir um greiðslu sjúkradagpeninga með börnum bótaþega, falli nú burtu. Nú er greiðsla takmörkuð við þrjú fyrstu börn í hverri fjölskyldu, en með því að fella niður orðin „allt að þrem“ eins og lagt er til í 1. og 2. gr. frv., að falli burtu í 35. og 50. gr. almannatryggingalaganna, yrði sú breyting á, að bætur yrðu greiddar með öllum börnum bótaþega. Í grg. með frv. er það rakið, að í frv. að almannatryggingalögum frá 1946 hafi verið kveðið svo á, að fjölskyldubætur skyldu greiddar foreldrum, sem hefðu 4 börn eða fleiri á framfæri sínu. Sjúkrabæturnar hins vegar áttu að greiðast með þrem fyrstu börnum og þá koma sem eins konar uppfylling, þar sem fjölskyldubætur ekki náðu til. Og sams konar ákvæði voru um slysabætur. Nú er hins vegar svo, að fjölskyldubætur eru greiddar með öllum börnum, eins og kunnugt er, og virðist öll sanngirni mæla með því, að sjúkrabæturnar séu einnig greiddar með öllum börnum bótaþega. Það mun vera um hverfandi litla útgjaldaaukningu að ræða af þessari breytingu, ef að lögum verður, fyrir Tryggingastofnunina.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. þd. hefur rætt frv. og leggur til, að það verði samþ. En eins og fram kemur í nál. á þskj. 603, voru tveir nm., þeir hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Reykn., fjarstaddir, þegar málið var afgreitt í n.