19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

85. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem hér liggur fyrir til 2. umr., hefur hlotið samþykki í hv. Nd. Landbn. þessarar d. hefur haft frv. til meðferðar, kynnt sér efni þess og umsögn stjórnar Búnaðarbanka Íslands, en til hennar var þetta frv. sent til umsagnar. Frv. miðar að því að heimila Stofnlánadeild landbúnaðarins að veita lán til útihúsabygginga í sveitum í áföngum eftir að þau eru orðin fokheld á sama hátt og nú á sér stað um lán til íbúðarhúsa. N. telur, að þessi breyting sé æskileg og muni stuðla að betri frágangi þeirra bygginga, sem hér um ræðir, fyrst og fremst fyrir þá sök, að mönnum gefst meira tóm til að fullgera byggingarnar, þegar hluti lánsins fæst svo fljótt sem hér er gert ráð fyrir, því byggingar gripahúsa eru nú orðnar svo kostnaðarsamar í framkvæmd og vandaðar, að víða jaðrar við kostnað við byggingu íbúðarhúss. Veltur því á miklu, að engu sé áfátt um gerð slíkra mannvirkja og allan frágang.

Í umsögn Búnaðarbanka Íslands er að finna þetta sama viðhorf og ég hef hér lýst að ráði till. landbn., enda kom það fram í ræðu, er hæstv. landbrh. flutti við 1. umr. um þetta frv. í hv. Nd., að hann hafði þá þegar rætt um það við stjórnendur Búnaðarbankans, að nauðsynlegt mundi vera að gefa bankanum heimild til að haga lánveitingum vegna þessara byggingaframkvæmda á þann hátt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég hygg, að ég hafi rakið hér þau höfuðrök, sem til þess liggja, að n. leggur til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Ég tel þó skylt að geta þess, að einn nm., Jón Þorsteinsson, gat ekki mætt á fundi n., þegar málið var tekið til afgreiðslu, en aðrir nm. voru sammála um nauðsyn þess, að frv. næði fram að ganga á þessu þingi.