05.02.1968
Efri deild: 49. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Árnason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., er samið eftir að átt hafa sér stað langar viðræður milli opinberra aðila og þeirra, sem hafa með höndum að salta síld í þessu landi. Þeir, sem þekkja eitthvað til þessara mála frá fyrri árum, vita, að í dag er gjörbreytt viðhorf um framkvæmd þessara mála frá því, sem áður var. Áður en verðlagsráð sjávarútvegsins kom til sögunnar mátti segja, að það væri eðlilegt að skipa þessum málum á þann hátt, sem gert var. Þá var það meira og minna á valdi síldarútvegsnefndar að verðleggja síldina, en eftir að verðlagsráðið kom, höfðu aðilar sína fulltrúa þar, sjómennirnir og kaupendurnir, til þess að semja fyrir sig um verð síldarinnar á sama hátt og með aðrar framleiðsluvörur sjávarútvegsins, og þess vegna mætti segja, að það hefði verið eðlilegast eftir að verðlagsráðið kom til sögunnar, að þá hefði síldarútvegsnefnd verið lögð niður. Það eru engin rök, sem mæla með því, að einmitt þessi eina vörutegund af framleiðsluvörum sjávarútvegsins þurfi að hafa allt annað skipulag um stjórn framleiðslunnar og sölunnar heldur en hinar greinarnar, bæði hraðfrystur fiskur, saltfiskur og annað, sem framleitt er til útflutnings úr sjávarafurðum. Þetta er bara gamalt form, sem hér er verið að halda í, og ekkert annað og það er neikvætt. Ég tel allt neikvætt annað en að leggja síldarútvegsnefnd niður og að þeir, sem eiga síldina og hafa keypt hana af sjómönnum og útgerðarmönnum, ráði sjálfir, hvað þeir geri við hráefnið, sem þeir hafa keypt. Það er ekki nema eðlileg skipun þeirra mála, eftir að svo er komið sem nú er um vinnslu og verðlagningu á síldinni eins og öðrum greinum sjávarútvegsins.

Hitt, sem hér hefur komið fram og blandast að sjálfsögðu inn í umræður um þetta mál, er efni annars frv., sem hér hefur verið lagt fram í þessari hv. d. varðandi aðalskrifstofu og aðsetur síldarútvegsnefndar. Ég hélt, að menn væru nú alveg búnir að gera sér grein fyrir því, að ákvæðin um þetta eru algjörlega úrelt eins og ýmislegt annað í lögunum, t. d. það, að allir nefndarmenn eigi að vera með fast aðsetur á Siglufirði á meðan síld er söltuð og síldarvertíðin stendur yfir. Þrátt fyrir það, að þetta ákvæði væri í lögunum, voru menn löngu hættir að virða það nokkurs, enda voru fæstir mennirnir staðsettir á Siglufirði eftir að síldin hætti að halda sig við Norðurland eins og hún gerði áður. Það þýðir að sjálfsögðu ekkert að setja eða ætla sér að framkvæma lög, sem brjóta algjörlega í bága við eðlilega þróun, eins og þarna var að sjálfsögðu um að ræða.

Varðandi það, sem kom fram hjá þeim hv. þm., sem var að tala hér næst á undan mér, að það væri eðlilegt að bæta þarna við 9. manninum og að hann væri frá sjómannastéttinni, vísa ég bara til þess, sem ég er þegar búinn að segja, að mér finnst eðlilegt, að þeir hafi sína fulltrúa til þess að vera við verðlagningu síldarinnar eins og annarra sjávarafurða, sem sjómenn og útgerðarmenn selja, en eftir að búið er að ákveða verðið þá sé það að sjálfsögðu ekki nema eðlilegt, að þeir, sem taka á sig ábyrgðina af að koma hráefninu í bezta fáanlegt verð, hafi þetta einir með höndum, þá sé það fyrst og fremst þeirra mál, en ekki þeirra, sem hafa selt vöruna.

Því er haldið fram í þessu sambandi, að það skipti miklu, hvernig haldið sé á sölumálum gagnvart erlendum aðilum, eftir að búið er að selja síldina útflytjendum og eins og fram kom líka hjá hv. þm. að skipuleggja til frambúðar saltsíldarframleiðsluna. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það hafa núna bara á síðasta ári stórbreytzt viðhorf í þessum málum, eftir að síldveiðarnar færðust svo mjög frá landinu eins og raun varð á, og það gefur vissulega tilefni til þess, að íhugað sé vandlega, hvort ekki sé rétt að taka upp verkun og söltun síldar á öllum stærri skipunum, sem eru við veiðar mörg hundruð mílur frá ströndinni. Og ég geri ráð fyrir því, að þá séu það útgerðarmennirnir fyrst og fremst, sem hafa á hendi ábyrgðina á því að koma þeirri vöru í verð, og það getur einmitt þurft að setja einhver ákvæði í reglugerð eða lög um það, að þeim heimilist að framleiða vöru úti á hafinu og að þeir fái að fara með vöruna til erlendra hafna, en ekki setja hana hér fyrst í land til þess að bæta á hana aukakostnaði og rýra tekjurnar hjá skipunum. Þetta er náttúrlega mál, sem snertir útgerðina ákaflega mikið, og ég mundi skilja það mjög vel, ef útgerðarmenn vildu fá aukna aðstöðu og íhlutun einmitt um þessa meðhöndlun á saltsíldinni, því að það hlýtur að reka að því, ef síldin kemur til með að halda sig eins fjarri landinu og hún gerði á s. l. ári, að útgerðarmenn taki til alvarlegrar íhugunar að reyna að framleiða meira og minna af saltsíldinni á hafi úti, og þá skiptir það miklu máli, hvort þeir geta farið í erlenda höfn, sem kannske er ekki mikið lengra í sumum tilfellum heldur en að koma með síldina til Íslands, og selja hana þar á miklu hærra verði en þeir fá fyrir að afhenda hana hér til frekari umskipunar og aukins kostnaðar fyrir framleiðslugreinina.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja við þessa umr. frekar um þetta mál. Það er búið að skýra frá því, að það muni koma ýmsar brtt. við þetta frv. á meðan það verður til meðferðar í þessari hv. d., og gefst þá að sjálfsögðu tækifæri til að ræða málið nánar.